Í janúar bárust bárust okkur fréttir þess efnis að segja ætti upp 20 – 30 starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í sparnaðarskyni og sá ég ástæðu til að skrifa pistil gegn þessu hættulega athæfi vegna þess hve þessar uppsagnir myndu skerða öryggi sjófarenda og ferðalanga á hálendinu. Nú eru þessar aðgerðir orðnar að veruleika, því miður.
Á sama tíma og þessar uppsagnir eiga sér stað, er hafist handa um að halda áfram byggingu tónlistarhússins í höfninni. Nú ætla ég ekki að skammast yfir byggingu tónlisarhússins þótt ég hefði fremur kosið að byggja það á þurru landi og fjarri höfninni. Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að beita þurfi ítrasta sparnaði við byggingu hússins þótt það kosti mun lengri byggingartíma, fremur en að skera jafnmikið niður í rekstri Landhelgisgæslunnar sem raun ber vitni. Þá má sömuleiðis spara nokkra fjármuni með því að leggja niður Varnarmálastofnun og veita þeim peningum frekar í að kaupa olíu á varðskipin.
Það er alveg ljóst að eitt varðskip er ekki nóg til að halda uppi löggæslu á öllu íslenska hafsvæðinu og á sama hátt er ekki nóg að halda einungis úti lágmarksvöktun hjá þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar. Í því sambandi má benda á að þyrlubjörgunarsveit Varnarliðsins var ávallt með fjórar þyrlur reiðubúnar á Keflavíkurflugvelli, en að auki var fimmta þyrlan ávallt í viðhaldi. Á þeim tíma og jafnvel eftir að herinn fór, kom fyrir að engin þyrla var starfhæf hjá Landhelgisgæslunni.
Þessi mál hafa lagast verulega hjá Landhelgisgæslunni undanfarin ár þótt þyrlufjöldinn hafi aldrei orðið fullnægjandi. Nú stefnir Gæslan í að fara áratugi aftur í tímann í þyrluþjónustu. Þetta er ekki lengur spurning um sparnað peninga heldur sóun mannslífa og mun geta kostað verulegan niðurskurð á komum skemmtiferðaskipa sem og annarra ferðamanna til landsins ef fréttist að Íslendingar geta hvorki tryggt lengur öryggi ferðamanna á fjöllum né sjómanna á hafi úti, þar á meðal áhafna og farþega á stórum skemmtiferðaskipum ef alvarleg atvik koma upp þar um borð.
Íslendingar voru duglegir að drekkja sonum sínum í meira en þúsund ár á Íslandsmiðum. Á síðustu árum hefur tekist að fækka þessum slysum verulega og jafnvel koma í veg fyrir þau um tíma. Ef draga á úr björgunarmöguleikum Landhelgisgæslunnar, mun ekki líða á löngu uns Íslendingar geta tekið upp fyrri sið og haldið áfram að drekkja sonum sínum.
miðvikudagur, mars 04, 2009
4. mars 2009 - Um Landhelgisgæsluna
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli