sunnudagur, nóvember 30, 2008

30. nóvember 2008 - Af Gävlebock og jólatré

Þegar ég var að alast upp, þótti siður á gamlárskvöld að velta bílum og kveikja í lögreglustöðinni. Þessa er getið í bókmenntum og minnir mig að þess sé sérstaklega minnst í Atómstöð Halldórs Laxness. Þessi góði siður lagðist af með tilkomu sjónvarps og Áramótaskaups í Reykjavík, en vegna svipaðs athæfis í Hafnarfirði á þrettándanum var siður þessi mun þrálátari á þeim bænum.

Um svipað leyti og siðurinn lagðist af í Reykjavík, hófu kaupmenn í Gävle í Svíþjóð að reisa geithafur úr hálmi á Slottstorget þar í bæ. Fljótlega komst á sá siður að brenna Gävlebocken að nóttu til á aðventunni og helst fyrir nýár. Svo rammt kvað að þessu að hægt var að veðja um hversu lengi bocken skyldi standa í breskum veðbönkum. Nú hafa kaupmenn í Gävle eyðilagt þennan góða sið með því að nota eldtraustan hálm í geithafurinn og hefur hann ekki verið brenndur síðan 3. desember 2005 þrátt fyrir tilraunir til slíks.

Gävlebocken var endurreistur á Slottstorget í Gävle í fyrradag og enn úr sama óbrennanlega hálminum og síðustu tvö árin. Í dag var kveikt á jólatrénu á Austurvelli.

Ekki ætla ég að hvetja til þess að sá siður að kveikja í einhverju verði endurvakinn. Hinsvegar finnst mér hægt að gera margt annað skemmtilegra á Austurvelli en að kasta matvælum á Alþingishúsið. Ég er þá að sjálfsögðu alls ekki að hugsa um hið lítt eldfima útlenska jólatré fyrir framan Alþingishúsið, enda hefur það verið bæjarprýði um margra áratuga skeið. En unglingarnir sem kasta matvælum í Alþingishúsið mættu alveg byrja að dansa í kringum jólatréð í stað þess að grýta matvælum í saklausan húskumbaldann.

http://sv.wikipedia.org/wiki/Julbocken_i_G%C3%A4vle

http://www.youtube.com/watch?v=LlLnAUWZ0Dc

30. nóvember 2008 - Fyrirtæki og stofnanir á hausnum!

Þau fyrirtæki voru til sem manni fannst að myndu aldrei hverfa af yfirborði jarðar, fyrirtæki og stofnanir sem virtust vera óendanleg. Allt í einu hurfu þau bara. Eitt þessara fyrirtækja var Ræsir hf. Þótt það hafi ekki verið stofnað fyrr en 1942 var sem það yrði við Skúlagötuna að eilífu. Svo byggði það sér stórhýsi inn við Smálönd og hvarf skömmu síðar. Annað fyrirtæki af líkum toga er Eimskip. Þessar vikurnar er það á barmi gjaldþrots, allt eigið fé búið og gríðarlegar skuldir að sliga félagið.

Nú berast fréttir af því að Morgunblaðið sé á heljarþröminni. Starfsfólkið fái vart útborgað og reynt sé að fá inn nýtt hlutafé til að bjarga félaginu.

Þau eru ófá skiptin sem maður bölvaði Mogganum og skoðunum þess. Sjálf var ég áskrifandi að Þjóðviljanum í gamla daga og sá ýmislegt athugavert við Rússagrýlur og aðra hægri slagsíðu Morgunblaðsins. Um leið var ekki hægt annað en að bera ákveðna virðingu fyrir Mogganum. Mogginn var ekki bara dagblað, miklu fremur sem stofnun sem ekki mátti hreyfa við þótt vissulega mætti létta verulega á skoðunum þess. Þess vegna var Mogginn gjarnan annað blaðið sem gripið var í á eftir málgagninu.

Nú þegar gömlu flokksmálgögnin eru horfin, öll með tölu, og Mogginn orðinn mun umbótasinnaðri og frjálslyndari en áður, er blaðið orðið að fastri tilveru í lífinu. Ég reyndi að segja blaðinu upp fyrir fáeinum árum þegar farið var að gefa út fríblöð, en sú tilraun stóð í einungis þrjá mánuði. Þá gafst ég upp hefi verið áskrifandi síðan.

Ég ætla svo sannarlega að vona að Morgunblaðið haldi áfram að koma út og fari ekki að leggja upp laupanna á þessum erfiðleikatímum.

Ef svo verður, mun óhætt að segja að nýfrjálshyggjubyltingin hafi ekki bara étið börnin sín, heldur og boðbera sinn!

laugardagur, nóvember 29, 2008

29. nóvember 2008 - Konur eiga orðið.

Ég kom við hjá bókaútgáfunni Sölku á föstudagskvöldið, en þar var verið að fagna útgáfu dagatalsbókar ársins 2009, en hún ber heitið: Konur eiga orðið, allan ársins hring.

Auk þess að vera dagbók fyrir árið 2009, birtast þar hugrenningar 65 kvenna, ein í byrjun hverrar viku og ein í byrjun hvers mánaðar. Sjálf á ég eina hugrenningu í bókinni, eina hugrenningu að vori.

Þess má geta að bókin er tileinkuð rannsóknum á þunglyndi kvenna. Kristín Birgisdóttir sá um útgáfuna en Myrra Leifsdóttir sá um útfærslu bókarinnar, en auk þeirra eiga 12 kvenljósmyndarar myndir í bókinni, ein fyrir hvern mánuð.

Glæsilegt verk sem aðstandendur geta verið stoltir af. Bara verst að ég þurfti að yfirgefa samkvæmið of snemma til að fara á vaktina mína.

http://www.salkaforlag.is/

föstudagur, nóvember 28, 2008

28. nóvember 2008 – Hversu há þurfa iðgjöld að vera til að standa undir vöxtum og hagnaðarvon af 42 milljarða fjárfestingu?

Um daginn bauð Kaldbakur hf, eignarhaldsfélag Þorsteins Más Baldvinssonar, hvorki meira né minna en 42 milljarða í Tryggingamiðstöðina. Þessi háa upphæð minnir ekki aðeins á fjárglæfrastarfsemina sem átti sér stað í kringum Sterling flugfélagið, heldur virðist nánast vonlaust að ná henni til baka nema með stórfelldum iðgjaldahækkunum ef heiðarlega er staðið að henni. Síðar bárust fréttir af því að ætlunin væri að láta Landsbankann kaupa hlut í félaginu með því að greiða stóran hluta verðsins fyrir félagið.

Ég fór að velta fyrir mér hve miklar rekstrartekjur umfram rekstrargjöld þyrftu að vera til að geta staðið undir kaupunum? Svarið er einfaldlega að ég hefi ekki hugmynd um það, en það hljóta að vera mjög háar rekstrartekjur. Sjálf minnist ég ágætlega ítrekaðra kvartana tryggingarfélaga vegna of lágra iðgjalda, en á sama tíma, talsverðan hagnað tryggingafélaganna. Þá hefi ég sjálf verið í viðskiptum við Tryggingamiðstöðina undanfarin ár og komist vel frá þeim viðskiptum við félagið og mjög svo þægilegt og þjónustulipurt starfsfólk þess. Sömuleiðis hefur Tryggingamiðstöðin staðið sig ágætlega í samkeppni við önnur tryggingafélög hvað verðlag snertir, allavega í mínu tilfelli með eina íbúð og einn bíl.

Þó fer að hrikta í gagnkvæmu trausti þegar heyrist um baráttuna um eigendahlutinn. Ég er ekki viss um að iðgjöld mín og annarra þoli þá hækkun sem vextir af 42 milljörðum krefjast. Þá er ég heldur ekkert ginnkeypt fyrir fjármálaævintýri sömu gerðar og Sterling sukkið og sem leiðir ágætlega rekið fyrirtæki beinustu leið í gjaldþrot eftir að hafa náð því lánsfé sem hægt er út úr bönkunum á minn kostnað.

Því létti mér að heyra að Landsbankinn hefur ákveðið að taka ekki þátt í sukkinu með Tryggingamiðstöðina, en vona um leið að takist að halda félaginu á floti sem lengst, helst án þátttöku fjárglæframanna.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item239236/

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

27. nóvember 2008 - Verður rannsóknarnefndin hlutlaus?

Það eru komnar rúmar átta vikur síðan hrunið átti sér stað. Það tók ríkisstjórn Geirs Hilmars átta vikur að ákveða hvernig rannsóknarnefndin vegna efnahagshrunin ætti að líta út. Eru þetta eðlileg vinnubrögð?

Kíkjum aðeins á nefndina sjálfa. Einn fulltrúa á að skipa af Hæstarétti. Með fullri virðingu fyrir Hæstarétti er erfitt að sjá hvernig Hæstiréttur getur skipað hlutlausan rannsóknarfulltrúa í nefndina þegar haft er í huga að í Hæstirétti er einungis fólk sem hefur verið skipað af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og eftirmanna hans. Þar má nefna frænda Davíðs, leikfélaga og vafalaust aðra vini hans ef betur er að gáð. Hvernig á slíkur fulltrúi að geta gætt fyllsta hlutleysis?

Umboðsmaður Alþingis á að skipa fulltrúa, sjálfur gamall Sjálfstæðismaður, sat í stjórn Heimdallar og Sambands ungra Sjálfstæðismanna á yngri árum. Hann er þó sá sem helst er hægt að treysta í þessari svokölluðu rannsóknarnefnd. Þá verður að kalla til forsætisnefnd Alþingis. Þar er Sturla Böðvarsson í forsæti og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um rannsóknarnefndina. Hann er vart til stórræðanna í baráttunni gegn spillingu í þjóðfélaginu, sjálfur virðulegur þegn útrásarvíkinganna sbr er hann tók á móti Arnarfellinu fyrir hönd Færeyinga og mannsins sem fékk Elton John til að spila í afmælinu sínu.

Ég held að það sé mjög erfitt að finna algjörlega óvilhalla fulltrúa í þessa rannsóknarnefnd á Íslandi. Nánast öll yfirstétt íslensks þjóðfélags er meira og minna háð þessum útrásarvíkingum að einhverju leyti, fjárhagslegum böndum, fjölskylduböndum, vinaböndum, menningarböndum. Það er því ljóst að ef rannsóknarnefndin á að skila marktækri niðurstöðu, verður að sækja hana til útlanda. Þannig má hugsa sér að Alþingi fari fram á það við norrænar frændþjóðir að þær láti Ríkisendurskoðanir Norðurlandanna eða efnahagsbrotadeildir þeirra um að skipa fólk í rannsóknarnefndina.

Að sjálfsögðu þurfa umræddar rannsóknarnefndir að hafa fullt sjálfstæði til að ganga eins langt í rannsóknarvinnunni og þurfa þykir. Það verður hinsvegar ákaflega erfitt að fá fólk til að treysta þeirri rannsóknarnefnd sem nú á að skipa, að því er virðist, til þess eins að hvítþvo embættismannakerfið sem brást hrapalega í upphafi kreppunnar!

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/26/vidtaekar_rannsoknarheimildir/

26. nóvember 2008 - Samfélagsfræði fyrir innflytjendur!

Það er sagt að til þess að öðlast þýskt ríkisfang, þurfi innflytjendur að gangast undir próf í þýskri samfélagsfræði. Það eru ýmsar skoðanir á þessu prófi, hvort það sé yfirhöfuð nauðsynlegt og eins hvort það sé of létt eða of þungt eftir atvikum. Er ég rakst á pistil í Dagens nyheter um þetta próf, var ómögulegt annað en að lesa áfram:

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=854538

Auðvitað er svona próf innflytjendafjandsamlegt. En um leið má spyrja sig þess hvort þeir sem sækja um þýskt ríkisfang ætli sér ekki að gerast Þjóðverjar uns dauðinn knýr á dyr.

Með takmarkaða kunnáttu um þýska sögu og samfélagsfræði, en með talsverða virðingu fyrir þýskri þjóð í farteskinu hóf ég að svara spurningunum. Ég hafði þó eitt framyfir marga sem er að búið var að þýða prófið yfir á sænsku. Svona leit því prófið út er ég hóf að svara því:

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=854547

Þegar upp var staðið hafði ég svarað 25 réttum spurningum af 33, en einungis þurfti að svara 17 spurningum réttum til að ná því. Þar með hefi ég uppfyllt einn þátt af þremur til að öðlast þýskt ríkisfang.

Nú á ég bara eftir að pakka saman og flytja til Þýskalands og læra þýsku og dvelja þar í land í fimm ár áður en öðrum skilyrðum verður fullnægt. Og þó, ég held að ég nenni því ekki á þessum aldri. Það er víst alveg nóg að vera með þau þjóðfélagsréttindi sem ég hefi nú þegar!

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

25. nóvember 2008 - Margrét Pétursdóttir var best!

Þegar Íslendingabók kom á netið gjörbreyttust ættir mínar. Bæði bættist mikill fjöldi ættingja við sem ég hafði ekki haft hugmynd um, en svo tapaðist heill ættleggur þegar leiðréttingar voru gerðar á ættfærslunni í Íslendingabók. Duttu þá margir frægðarpiltarnir út, m.a. Björgvin Halldórsson fyrrverandi frændi minn, Ómar Ragnarsson fyrrverandi ættingi minni og Steinn Ármann Magnússon fyrrverandi ættingi minn. Í stað þeirra fékk ég fátæka gyðingastúlku á Bessastöðum, ekki þessa núverandi, heldur eina bláfátæka sem kom með hörmangarakaupmönnum snemma á 18. öld.

Öllu betri var árangurinn í föðurættinni. Langamma mín þar sem enginn vissi nein deili á fjölskyldu hennar, reyndist vera ein í hópi 22 barna föður síns og er ég sífellt að rekast á nýtt frændfólk í þeim ættleggnum. Meðal ættingja í þeirri áttinni má nefna Hörð Torfason söngvaskáld og er ég las ævisögu Péturs heitins Sigurðssonar alþingismanns, reyndist hann kominn af bróður langömmu minnar og fjórmenningur við mig.

Síðastliðinn laugardag tók hópur á fésbókinni sem kallar sig neyðarstjórn kvenna, til sinna ráða og klæddi styttuna af Jóni Sigurðssyni í bleikan kjól. Einhver benti mér á að ein í hópnum væri dóttir Péturs sjómanns. Það tók mig ekki langan tíma að finna hana í ævisögunni um Pétur sem og Íslendingabók og flýtti ég mér að óska fésbókarvináttu við frænkuna á fésbókinni.

Ég beið svo í ofvæni eftir að heyra í Margréti í sjónvarpsútsendingu af borgarafundinum í Háskólabíó á mánudagskvöldið. Hún kom þar fram, sá og sigraði eins og hennar var von og vísa. Sjálf fylltist ég stolti yfir nýfundinni frænku minni á fundi þar sem ég var ósátt við margt sem ég sá og heyrði, bæði af hálfu stjórnmálamanna og almennings. Margrét Pétursdóttir fór heim sem sigurvegari kvöldsins.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/24/bankaleyndina_burt/

mánudagur, nóvember 24, 2008

24. nóvember 2008 - Er Tryggingamiðstöðin 42 milljarða virði?

Fyrir fáeinum árum keyptu íslenskir fjárglæframenn flugfélagið Sterling á fjóra milljarða króna, fengu síðan leifarnar af flugrekstri Mærsk gefins samkvæmt óáreiðanlegum heimildum. Síðan gekk það kaupum og sölum milli náskyldra aðila og loks var það keypt á 20 milljarða af sömu aðilum og höfðu keypt það eigi löngu áður á fjóra milljarða. Þegar búið var að draga nógu mikið lánsfé út úr félaginu var það látið fara á hausinn, íslenskir skattgreiðendur sátu uppi með sárt ennið, en vesalings séra Eilif Krogager stofnandi Sterling, sneri sér við í gröfinni.

Nú virðast sumir sömu aðilar ætla að leika sama leikinn með Tryggingamiðstöðina. Allt í einu hefur hún aukist geysilega í verðmætum sem virðist vera sama bólan eins og með Sterling. Helstu eigendur Tryggingamiðstöðvarinnar ætla að kaupa félagið af sjálfum sér á uppsprengdu verði til að bjarga Stoðum hf (FL-grúpp, skrifað FJ-group). Að sjálfsögðu eru kaupin gerð með lánsfé frá bönkunum sem eru nú í eigu íslensku þjóðarinnar eftir að þeir hrundu eins og spilaborg. Semsagt, útrásarvíkingarnir sem komu íslensku þjóðinni á hausinn eru ekki hættir að hafa íslensku þjóðina að fíflum og fjárhagslegum féþúfum.

Ég ætla ekki að fjalla hér mikið um Stím og FS-37. Greinin sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudag er því miður pólitískt lituð, en bæði Agnes Bragadóttir og Óli Björn Kárason eru svo rækilega trúlofuð bláu höndinni að erfitt er að taka fullt mark á skrifum þeirra, ekki frekar en varnarræðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Það er samt full ástæða til að vara við slíkum leynifélögum sem hér um ræðir og sem virðast sett á fót til að ræna restinni af aurum fátæku ekkjunnar eða íslensku þjóðarinnar.

Á sama tíma er fyrrum stjórnarformaður hins gjaldþrota Kaupþings að undirbúa kaup á brunarústum Kaupþings Luxembourg. Hvar fékk gjaldþrota maðurinn peninga til slíkra kaupa? Ætli hann hafi stolið miklu undan þegar Kaupþing fór á hausinn? Hvernig væri þá að hann kæmi heim með aurana og skilaði þeim.

Á meðan hnípin þjóð í vanda horfir á ræningjana halda áfram að ræna restinni af þjóðarauðnum sitja ríkisstjórn, Alþingi, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit á hliðarlínunni og aðhafast ekkert. Þeir eru hvort eð er nýbúnir að fá himinhátt lán svo nú er óhætt að endurtaka leikinn og starta einkaþotunum.

Sem eigandi að einum þrjúhundruðþúsundasta hluta í bönkunum greiði ég atkvæði gegn lánveitingu til handa Kaldbak til að kaupa Tryggingamiðstöðina á 42 milljarða. Fyrirtækið er ekki þess virði.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

23. nóvember 2008 - Davíð Oddsson og kisur

Er ég nefndi í síðustu færslu að ég hefði gengið ein stífluhringinn áður en ég tók þátt í spurningakeppni, ýkti ég aðeins. Með í för var nefnilega ungur sveinn, Tómas að nafni og fannhvítur á lit, gengur um á fjórum fótum og býr ásamt hundum tveimur og tveimur manneskjum á jarðhæðinni í blokkinni þar sem ég bý. Tómas þessi dýrkar mig og uppáhaldsfæða hans er harðfiskur. Hann getur legið á jörðinni fyrir neðan svalirnar mínar klukkustundum saman og gónt upp í von um að ég birtist með harðfiskbita og þá á hann það til að elta mig er ég fer út í göngu í von um að fá sælgætið góða í verðlaun fyrir fylgdina.

Á dögunum las ég í DV að Davíð Oddsson hefði eyðilagt megrunarkúrinn fyrir ungum ferfættum nágranna sínum með harðfiski. Með þessari frétt jókst álit mitt á Davíð Oddssyni um nokkrar hæðir. Ég hafði sjálf eyðilagt fyrirskipaðan megrunarkúr Tómasar kattar á sama hátt og Davíð rústaði megrunarkúr nágranna síns. Við lestur fréttarinnar fann ég auðvitað strax til samkenndar með Davíð.

Bara verst hvað vestfirski steinbíturinn í Kolaportinu er dýr í innkaupum, enda vel þeginn af mínum kisum auk Tómasar, en harðfiskur sá er um leið uppáhaldssælgætið sem kettir elska framar öllu öðru. Jafnvel ég á það til að fá mér bita með köttunum.

laugardagur, nóvember 22, 2008

22. nóvember 2008 - Gáfnaljósin sigruðu!

Í fyrra lenti ég í spurningakeppni innan fyrirtækisins þar sem ég vinn. Ég var beðin um að taka þátt í keppninni fyrir hönd sviðsins, þ.e. kerfisstjórnar sem er hópur starfsmanna Orkuveitunnar sem sjá um að keyra kerfin, fylgjast með hitastigi og þrýstingi úti í hverfum, fara út í bæ og mæla ástand og þar sem sumir taka á móti kvörtunum og koma þeim áfram, semsagt grunnþjónustu Orkuveitunnar. Við stóðum okkur vel, rétt náðum að komast í úrslitakeppnina þar sem við lentum, ef ég man rétt, í þriðja sæti.

Spurningakeppni sviðanna er erfið keppni. Hún er af sama meiði og Pubqiz keppnin sem haldin er á Grand Rokk á föstudagskvöldum, en kannski erfiðari ef eitthvað er, 25 spurningar af blönduðu tagi og það lið sem fær flest stig vinnur keppnina í hvert sinn.

Í síðustu viku mættum við til keppni og kölluðum okkur „gáfnaljósin“, ég sjálf, Þórarinn verkfræðingur og Þorsteinn vélfræðingur og áttum ekki von á góðu er við sáum snillingana sem við öttum ati við. Hvað höfðum við gefið okkur út í? Vorum við komin á hálan ís? Svo hófst spurningakeppnin og við spýttum í lófana. Þeir skyldu sko ekki vinna okkur „gáfnaljósin“ án fyrirhafnar. Vð unnum keppnina, fengum 17 stig á móti 14 stigum þess liðs sem næst kom á eftir okkur í svínslegri keppni um gáfur. Þar með vorum við komin í úrslitakeppnina að viku liðinni.

Vikan á milli var erfið. Er ég skreið heim af næturvakt morguninn áður en úrslitakeppnin fór fram, dreymdi mig að framkvæmdasviðið myndi vinna keppnina. Þá hafði það þegar fallið út, svo þurfti að finna nýja sigurvegara. Á föstudagskvöldi gekk ég ein stífluhringinn umhverfis Árbæjarlón áður en ég hélt til vinnu og úrslitakeppninnar á föstudagskvöldi.

Svo hófst keppnin. Við gerðum okkar besta. Sumt vissi Þórarinn, annað vissi Þorsteinn, ég vissi ekki neitt. Kannski ekki neitt, en ekki margt. þegar leið á keppnina fór ég að bíða þess að þessu tæki að ljúka, allir virtust vita allt betur en við. Svo lauk keppninni og loks vorum lesin úrslitin. Þegar fimm lið sem við höfðum att kappi við höfðu verið lesin upp án þess að við hefðum verið nefnd, var ástæða að fagna. Við höfðum unnið keppnina, „gáfnaljósin“ í kerfisstjórn.

Úti í salnum klappaði ein manneskja. Sviðið okkar er víst ekki fjölmennara en svo að ein manneskja úti í sal fagnaði með okkur. Það var samt ástæða til fagnaðar. Litla sviðið með rúmlega tuttugu manneskjur hafði sigrað stóru sviðin, en um leið sýnt öllum hinum að við erum mikilvægur hluti af heildinni.

Mér finnst ástæða til að setja mig úr liðinu fyrir keppni næsta árs. Látum unga fólkið taka við.

föstudagur, nóvember 21, 2008

21. nóvember 2008 - Um ættartölusafnrit séra Þórðar í Hítardal.


Ég fékk Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal í hendurnar á dögunum, mikið rit í tveimur bindum og rúmlega þúsund blaðsíðum og unnið af Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. Þetta er auðvitað algjör gersemi fyrir áhugafólk um ættfræði fyrri tíma þar sem áa íslensku þjóðarinnar er rækilega getið á hverri blaðsíðu. Þar sem ég fletti bókunum rak ég augun í orð Þórðar um Sigríði Halldórsdóttur frá Fróðá, fædd á síðari hluta sextándu aldar, en þar segir (bls 220):

Sigríður Halldórsdóttir sem féll með Jóni Oddssyni systurmanni sínum. Hún bar sig að flýja, komst í skip með engelskum en var sett á land aftur því hún var þungbúin og veik. Var henni drekkt á Ballarárhlíð anno 1610 við Hvammsfjörð.

Af Jón þessum (eiginmanni Steinunnar Halldórsdóttur) er aftur á móti önnur saga:

Jón bjó í Fagurey þegar hann féll með Sigríði Halldórsdóttur systur konu sinnar og flúði hann anno 1610, komst hann í skip og giftist í Englandi og vegnaði þar vel. Hann lét hér eftir hjá konu sinni sjö börn.

Í Íslendingabók er í litlu getið Þorleifs þess sem getinn var í umræddu hjúskaparbroti, en hann mun vera fæddur árið 1608.

Svo erum við að kvarta og kveina yfir slæmum yfirvöldum og kreppu annó 2008!

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

20. nóvember 2008 - Á að neita Íslandi um lánið?

Eftirfarandi bréf barst mér á fimmtudag frá tveimur aðilum:

http://www.imf.org/external/np/exr/contacts/contacts.aspx

Dear sirs

I, the undersigned citizen of Iceland request that you do not submit the IMF loan to the government of Iceland until it has been investigated who is responsible for the economic collpase of the country and until those found responsible have been removed from all authoritative positions

Warm regards,

(nafn)

Ég sendi það á publicaffairs@imf.org . Ég hvet alla að senda svona bréf. Réttlætið þarf fram að ganga með góðu eða illu.

(Tilvitnun lýkur)

Ég fór að veltu innihaldi þessa stutta bréfs fyrir mér. Nú eru komnar yfir sjö vikur frá því hrunið byrjaði með yfirtöku Glitnis og enn hefur vart nokkrum verið vikið frá störfum fyrir mesta fjármálahneyksli Íslandssögunnar. Allir hlutaðeigandi sitja fastir á sínum stað og hreyfa sig lítt. Allir eru saklausir í stöðum sínum í ríkisstjórn, Seðlabanka, Fjármálaeftirliti. Jafnvel þeir bankastjórar sem þurftu að víkja eðlis máls vegna, starfa nú sem ráðgefandi aðilar hjá hinum sömu stofnunum og fyrrum. Og pappírstætararnir ganga á fullu við að eyða sönnunargögnum um sök þeirra.

Sjálfri finnst mér þessi aðgerð ákaflega varasöm, en það breytir ekki því, að full ástæða er til að fara varlega í að lána vafasömum spillingaröflum mikið fé, fé sem íslenska þjóðin þarf að greiða að fullu. Því treysti ég mér ekki til að standa að sendingu þessa bréfs, en hefi samt skilning á þeim aðilum sem senda bréfið til IMF.

20. nóvember 2008 - Flokkauppgjör í vændum?

Það verður fjör á Fróni þegar líður á janúar næstkomandi. Þá verður gaman að fylgjast með pólitíkinni.

Það verður gaman að fylgjast með uppgjörinu í Framsóknarflokknum. Mig grunar að Guðni sé ekki hættur og þá ekki Bjarni Harðarson. Báðir eru þeir harðir andstæðingar Evrópusambandsaðildar þótt hinn yngri hluti flokksins vilji fremur samvinnuleiðina með Evrópu. Ætla þeir að stofna Bændaflokkinn sem nú er mjög í umræðunni?

Innan Sjálfstæðisflokksins er sama umræða hávær. Hún er þó mun fyrirsjáanlegri að þar er einn maður sem ræður. Ég er hinsvegar ekki lengur viss um að forsvarmenn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu verði jafnhlýðnir eftir flokksþingið í janúar og hingað til. Flokkseigendafélagið með Davíð, Kjartan og Hannes í broddi fylkingar mun bera hina ofurliði og halda nafninu og eignunum.

Munu þá forsvarmenn í atvinnulífinu sitja og þegja? Nei ég held ekki. Þeir munu eiga möguleika á að ganga yfir í Samfylkinguna, en margir munu þó fremur vilja fara sína eigin leið, Evrópuleiðina frá Sjálfstæðisflokknum.

Ég veit ekki hvort svona muni fara. Kannski verður óttinn við kjósendur sterkari óttanum við Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn getur tekið höndum saman við Framsókn og Samfylkingu um viðræður við Evrópusambandið. En þá geta líka Davíð og Geir og Hannes og Friðrik J. Arngrímsson fylkt liði með Guðna og Bjarna í einhverju sem kalla má Þjóðvarnarflokk hinn seinni

Uppgjörið eftir efnahagshrunið er ekki hafið, en það verða læti. Það er ég viss um.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

19. nóvember 2008 – Seðlabanki án ábyrgðar



Eins og alþjóð er kunnugt, þá flutti Davíð Oddsson mjög skelegga ræðu á fundi Viðskiptaráðs á þriðjudagsmorguninn. Þar hóf hann sama leik og allir aðrir leikendur í efnahagshruninu, lýsti alla seka nema sjálfan sig sem hefði margbent á sökina í málinu. Davíð sá að vísu enga ástæðu til að ræða skýrslu Seðlabankans frá því í maí, þar sem allt var í himnalagi í íslenska bankakerfinu. Hann minntist heldur ekkert á að það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem lét lögfesta aðskilnað Fjármálaeftirlits og Seðlabanka né heldur að það var steinbarn Davíðs Oddssonar, Fjármálaeftirlitið, sem var aðalsökudólgurinn í eftirlitsleysinu með bönkunum að mati Davíðs.

Áður höfðu fyrrum forystumenn bankanna lýst sig saklausa af því að hafa komið efnahag þjóðarinnar á kaldan klaka, einstöku ráðherrar, allir sem mögulega áttu einhvern þátt í hruninu voru orðnir hvítþvegnir og höfðu aldrei gert neitt af sér. Samt hrundi efnahagur íslensku þjóðarinnar eins og spilaborg.

En úr því að ljóst er að Seðlabankinn er ábyrgðarlaus af efnahagshruninu, má velta því fyrir sér, hvort nokkur þörf sé fyrir ábyrgðarlausan Seðlabanka. Að vísu hafa löngum verið til skrýtin störf í ýmsum ríkjum og fólk hefur skemmt sér með bröndurum af flotamálaráðherra Ungverjalands sem er jú umlukið ríkjum á alla vegu, sjávarútvegsráðherra Sviss sem einungis getur státað af nokkrum stöðuvötnum og Seðlabankastjóra á Íslandi þar sem ekki eru til neinir peningar. Þótt þörfin fyrir seðlabanka til að stjórna íslensku hagkerfi hafi minnkað talsvert að undanförnu þar sem einungis skuldir hafa aukist, þá er jákvætt að hafa tryggan seðlabanka við endurreisn efnahags þjóðarinnar úr rústunum.

Það er svo önnur saga að ég tel Davíð Oddsson óhæfan til að stjórna slíkum seðlabanka og tel reyndar að leita eigi liðsinnis hins franska Jean-Claude Trichet til að stjórna bankanum enda hefur hann mikla reynslu af slíkum störfum.

Eins og gefur að skilja hefur hann öllu fjölbreyttari reynslu af hagstjórn en Davíð Oddsson og fylgir hér með ferilskrá (Curriculum Vitae) kappans:

http://www.ecb.int/ecb/orga/decisions/html/cvtrichet.en.html

mánudagur, nóvember 17, 2008

18. nóvember 2008 - Kæri Steingrímur Jóhann Sigfússon

Ég get ekki annað en hrifist af því hve þú ert mælskur, sérstaklega þegar þú talar af fullu ábyrgðarleysi. Ég hlustaði á viðtal við þig í Kastljósi mánudagsins og ég nánast hneykslaðist ef ábyrgðarleysi þínu. Þú vildir fara einhverjar aðrar leiðir, en samt hafðir þú ekkert plan B uppi í erminni heldur ætlaðist til að einhverjir aðrir ættu að vera með plan B uppi í erminni, þ.e. ríkisstjórnin. Því vil ég hryggja þig með því að það er ekkert plan B til í þeirri arfaslöku stöðu sem ríkisstjórn Íslands er í.

Steingrímur. Þú veist mætavel að ef einhver tekur að sér að gæta fjár náungans, þá ber honum að skila fénu aftur þegar eigandinn óskar þess eða þá eftir samkomulagi á milli eiganda og fjárins og fjárhirðisins. Þú veist það jafnvel og ég að það átti að svíkja eigendur um skil fjárins og slíkt kann aldrei að enda vel. Fjárhirðirinn átti sér baktryggingu í formi íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands, en bankastjórinn í ríkisbankanum lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að borga fyrir einhverja fjárglæframenn. Í slíku tilfelli er ekki um neitt annað að ræða en að láta hart mæta hörðu. Það var að vísu sóðalegt að beita Íslendinga hryðjuverkalögum, en það breytti ekki því að Íslendingar verða að standa skil á sínu og hafa verið þekktir fyrir slíkt fram að þessu. Nú hafa orð ríkisbankastjórans og fleiri aðila eyðilagt álitið á íslensku þjóðinni um langa framtíð og við þurfum á öllu okkar að halda til að byggja upp álitið að nýju.

Með kröfum þínum um að fara einhverja aðra leið eins og dómstólaleiðina ertu í reynd að setja þig á sama hest og nýfrjálshyggjupostularnir, þeir hinir sömu sem keyrðu Ísland á kaf í skuldir. Með því móti ertu að koma þeim skilaboðum til eigenda fjárins að þeir geti étið það sem úti frýs og þannig aukið enn á þann vanda sem þjóðin stendur í þessar vikurnar þegar við erum útspottuð og fyrirlitin beggja vegna Atlantshafsins

Við þolum ekki að bíða lengur. Við höfum þegar beðið í sjö vikur eftir lausn þessara mála og það er sjö vikum of mikið og allan tímann hefur sigið meir og meir á ógæfuhliðina. Nú vilt þú bíða í fleiri mánuði og jafnvel svo árum skiptir á meðan verið er að þvæla fjármunum bankanna í gegnum dómskerfi allra landa. Hvernig verður þá staðan þegar dómur loksins fellur? Nei, gerðu það fyrir okkur og sýndu okkur ábyrga stjórnarandstöðu einu sinni, ekki þegja afnám sérlífeyrisréttinda í kaf, ekki standa ásamt Davíð Oddssyni utan við samfélag þjóðanna í einstrengislegum tilraunum ykkar að viðhalda ónýtum krónuræflinum og við að neita að borga skuldirnar sem íslenska þjóðin er í ábyrgð fyrir.

Kæri Steingrímur. Einu sinni studdi ég þig og þá pólitík sem þú stóðst fyrir. Ég studdi Alþýðubandalagið meðan það var og hét og sömuleiðis taldi ég mig vera nærri skoðunum Vinstri grænna fyrstu árin sem þau samtök voru við lýði. Ég styð þig enn í kröfunni um afdráttarlausan frið á jörðu og jöfnuð til handa öllu mannkyni, en ég er löngu hætt að styðja þig í baráttunni gegn Evrópu og í öfgafullri náttúruverndarbaráttu.

Mér þykir samt örlítið vænt um þig enn í dag þótt eitthvað sé byrjað að falla á væntumþykjuna. Í dag styð ég mun ábyrgari stjórnarhætti en þú býður okkur, þótt ég vilji sjá kosningar og nýtt umboð til Alþingis sem allra fyrst. Hvernig litist þér á að fara að fordæmi Guðna Ágústssonar sem vék fyrir Valgerði og bjóða Katrínu Jakobsdóttur sæti þitt innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það yrði örugglega heillaspor fyrir bæði þjóðina og þig.

P.s. Ef þú lofar þessu, skal ég aldrei framar skrifa um LandCruiser 100 lúxusjeppann þinn sem þú eyðilagðir í Bólstaðarhlíðarbrekkunni hér um árið, þegar þú varst nýlega búinn að segja þjóðinni að þú keyrðir um á Volvo árgerð 1972.

17. nóvember 2008 - Af degi íslenskrar tungu

Trúnaðarmaður stéttarfélagsins okkar þegar ég starfaði í Svíþjóð, átti dálítið erfitt með textaskrif, sennilega verið með einhverja skrifblindu. Ef hann þurfti að senda frá sér einhvern texta til félagsins eða á aðra staði, hafði hann það að sið að kalla á þá manneskju á vaktinni sem hann treysti best í skrifaðri sænsku til að lesa yfir textana sína áður en hann sendi þá. Af einhverjum ástæðum valdi hann ekki einhvern Svíana vaktinni til verksins, heldur mig sem þó var illa talandi á sænsku en kannski aðeins betri að skrifa hana.

Það var sagt frá málræktarþingi í fréttum sjónvarpsins á degi íslenskrar tungu. Þar kom fram að hlutfall íslenskukennslu í skólum hér er einungis 16,1% á sama tíma og það er 23% í Noregi og 28,7% í Danmörku. Þýðir þetta þá að það sé sérstakur skortur á íslenskukennslu á Íslandi? Svarið er einfalt. Nei.

Það er mikil rækt lögð við íslenskukennslu á Íslandi, ekki aðeins í skólum, heldur í öllu samfélaginu. Fólk má ekki mismæla sig í ræðu eða riti án þess að einhver málfarslöggan sér ástæðu til að gera athugasemdir. Það er ekki fyrr en komið er að útrásarvíkingunum og poppurunum sem ástæða verður til að hafa áhyggjur, öllum poppurunum sem ætla að leggja heiminn að fótum sér með því að syngja á útlensku og svo útrásarvíkingunum sem þurftu endilega að sýna mörlandanum hvað þeir væru góðir í útlensku að jafnvel aðalfundaskýrslurnar voru komnar á útlensku.

Margar þjóðir nærri okkur leggja ekki mikla áherslu á málið. Það eru mörg ár síðan ég fór að velta því fyrir mér hvort danskan væri deyjandi tungumál. Þótt ástandið hafi verið betra í Svíþjóð og Noregi, er samt ástæða fyrir þessar þjóðir til að leggja ríka áherslu á þjóðtunguna. Ísland er hinsvegar í góðum málum. Um leið þurfum við að vera vakandi og gæta okkar vel fyrir erlendum áhrifum á tunguna.

Höldum áfram að vera fordómalausar málfarslöggur, en munum að fjöldi fólks þjáist af lesblindu og skrifblindu.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

16. nóvember 2008 - Endurfundir að Brúarlandi

Um helgina hefi ég tekið þátt í tveimur endurfundasamkvæmum gamalla skólafélaga. Á föstudagskvöldið hittumst við nokkur sem vorum saman í öldungadeild MH og útskrifuðumst 1988. Það voru yndislegir samanfundir í allt of fámennum gleðskap.

Á laugardagskvöldið var svo annað samkvæmi nokkurra krakka sem eignuðust fyrstu skólatöskurnar sínar haustið 1958, fyrir hálfri öld, áttu sínar fegurstu æskuminningar í Brúarlandsskóla og síðar Varmárskóla. Þar var öllu betri mæting, en einungis tveir strákar skrópuðu, en að auki eru þrjú búsett erlendis og ein stúlkan, Þórunn Bjarnadóttir frá Mosfelli, látin fyrir nokkrum árum síðan. Fyrir bragðið vorum við aðeins tólf sem mættum í Brúarland, skoðuðum gömlu kennslustofuna okkar og létum mynda okkur saman í fyrrverandi leikfimissalnum og rifjuðum upp gamlar minningar. Síðan var samkvæminu haldið áfram heima hjá Brynjari í Markholtinu og stóð gleðin fram undir miðnættið er aldurhnignir krakkagrislingarnir héldu heim á leið eftir ánægjulega kvöldstund.




Á efri myndinni sem var tekin í apríl 1963 eru eftirfarandi frá vinstri:

Páll Árnason Reykjalundi, Birgir Gunnarsson Álafossi, Brynjar Viggósson Markholti, Reynir Óskarsson Hlíðartúni, Anna Kristjánsdóttir Reykjahlíð, Þorsteinn Guðmundsson Þormóðsdal, Jóel Jóelsson Reykjahlíð, Eygló Ebba Hreinsdóttir Markholti, Kjartan Jónsson Hraðastöðum, Valgerður Hermannsdóttir Helgastöðum, Kolbrún Gestsdóttir Úlfarsá, Sigríður Halldórsdóttir Gljúfrasteini, Marta Hauksdóttir Helgafelli, Guðbjörg Þórðardóttir Reykjaborg, Signý Jóhannsdóttir Dalsgarði, Helga Haraldsdóttir Markholti, Birgir D. Sveinsson kennari.

Á myndina vantar Þórunni Bjarnadóttur Mosfelli og Dagný Hjálmarsdóttur Lyngási.




Á neðri myndinni sem var tekin 15. nóvember 2008 eru eftirfarandi:
Sitjandi: Guðbjörg Þórðardóttir Mosfellsbæ, Birgir D. Sveinsson aðalkennari hópsins 1960-1964 og síðar skólastjóri Varmárskóla Mosfellsbæ, Klara Klængsdóttir aðalkennari hópsins 1958-1960 Mosfellsbæ, Jórunn Árnadóttir eiginkona Birgis, Eygló Ebba Hreinsdóttir Reykjavík.
Standandi: Dagný Hjálmarsdóttir Kópavogi, Signý Jóhannsdóttir Furuvöllum Mosfellsbæ, Marta Hauksdóttir Helgafelli Mosfellsbæ, Kjartan Jónsson Dunki Dalabyggð, Anna Kristjánsdóttir Reykjavík, Sigríður Halldórsdóttir Reykjavík, Valgerður Hermannsdóttir Mosfellsbæ, Jóel Jóelsson Seltjarnarnesi, Brynjar Viggósson Mosfellsbæ, Helga Haraldsdóttir Mosfellsbæ.

laugardagur, nóvember 15, 2008

15. nóvember 2008 - Kommúnistaávarpið ...

... er komið í bókabúðir. Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Eitthvað á þessa leið hljómaði auglýsing sem var lesin í útvarpi á föstudag og nostalgían náði tökum á mér. Við skoðun á bókakosti mínum fann ég svo Rigerðir Marx og Engels djúpt inni í bókaskáp hjá mér, gamla prentun af þessum ágætu ritum og útgefnar árið 1968 af bókaútgáfunni Heimskringlu.

Ekki seinna vænna að hrista rykið af merkilegu bókmenntum nú þegar við höfum fengið óþyrmilega að kenna á nýfrjálshyggjunni.

föstudagur, nóvember 14, 2008

14. nóvembr 2008 – Íslamskur hryðjuverkamaður eða íslenskur útrásarvíkingur?


Nú er ljóst að tvennum sögum fer af strandi Ólafs Harðarsonar eða Ólafs Haraldssonar eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður. Ólafur segir eitt og maður fær á tilfinninguna að Danir séu óskaplega vondir við Íslendinga, en svo heyrist danska útgáfan af sama atburði og hún er gjörólík rétt eins og að um tvo algjörlega aðskilda atburði sé að ræða.

Þegar ég skoðaði mynd af manninum í morgun fékk ég það á tilfinninguna að Danir hefðu haldið að þarna færi einhver vafasamur stuðningsmaður Osama Bin Laden, maðurinn með mikið hár og skegg og húfuræfil sem helst minnti á túrban Ósama séður úr fjarlægð. Er það nema von að danska strandgæslan hafi haldið eitthvað misjafnt um manninn?

Við athugun var maðurinn kannski ekki hryðjuverkamaður, allavega ekki af því tagi sem Dönum er mest í nöp við, heldur rammíslenskur útrásarvíkingur. Vesalings Ólafur Haraldsson eða Ólafur Harðarson eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður, má prísa sig sælan að hafa ekki rekið að ströndum Bretlands þar sem Gordon frá Brúnastöðum ræður ríkjum!

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/14/logregla_ber_sogu_islendings_til_baka/

14. nóvember 2008 - Glataður er geymdur eyrir

Fólk sem ég þekki ágætlega festi sér litla íbúð fyrir kreppuna 1967 – 1969, meira en áratug áður en íbúðalán urðu verðtryggð. Fólkið sem ég hefi í huga, þurfti að kreista fram hverja þá krónu sem það gat mögulega náð í til að leggja fram í útborgun á íbúðinni og þurfti að velta hverri krónu tvisvar fyrir sér næstu tvö árin á eftir, en þá var ástandið orðið gott. Verðbólgan hækkaði íbúðaverðið á sama tíma og lánið rýrnaði hratt og vel. Fáeinum árum síðar keypti fólkið sér hæð í tvíbýlishúsi, gat lagt fram álitlega upphæð af söluandvirði fyrri íbúðar til að greiða útborgun í hæðinni og allir voru ánægðir, kannski ekki allir, en örugglega þeir sem skulduðu.

Eins og gefur að skilja þurfti einhver að borga brúsann því íbúðir kosta sitt. Þeir sem veittu lánin sátu eftir með sárt ennið, bankar sem höfðu lánað á neikvæðum vöxtum, lífeyrissjóðir og aðrir lánveitendur. Fyrir nokkru fékk ég sundurliðað yfirlit yfir verðmæti þess sem ég hafði greitt í lífeyrissjóði frá því ég byrjaði fyrst að vinna til þessa dags. Það var sem áfall að sjá þetta. Mestöll þau lífeyrissjóðsgjöld sem ég hafði greitt á árunum 1966 til óðaverbólguáranna eftir 1980 voru horfin, brunnin upp, orðin að steinsteypu hjá fólki sem þurfti ekki að borga íbúðirnar sínar sjálft vegna neikvæðra vaxta hjá lífeyrissjóðum.

Á miðvikudagskvöldið var ég stödd á fundi hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík vegna kröfu ungra jafnaðarmanna um tímabundið afnám verðtryggingar. Á fimmtudagsmorguninn heyrði ég viðtal við Ingólf H. Ingólfsson fjármálaráðgjafa þar sem hann fylkti sér undir þann hóp sem vill afnám verðtryggingar og ég get ekki lengur orða bundist.

Það má segja að ég hafi sjaldan fjárfest á réttan hátt, oftast verið á vitlausum stað á vitlausum tíma, verið óheppin í fjárfestingum. Það eru einungis fjögur ár síðan ég keypti núverandi húsnæði og skulda ég mikið í íbúðinniÉg hefi þó reynt að gæta lífeyrissjóðsins míns og séreignarsparnaðar og farið mjög varlega í vafasömum fjárfestingum á undanförnum árum. Það er ósköp eðlilegt því ég á einungis rúman áratug eftir í eftirlaun ef eitthvað verður eftir af lífeyrissjóðnum mínum.

Nú kemur unga fólkið og heimtar að fá lífeyrissjóðinn minn til að greiða niður íbúðirnar sínar. Ég hefi engin efni á slíku við núverandi aðstæður í samfélaginu.

Allt frá því ég man eftir mér á sjötta áratug síðustu aldar, hefur hagkerfi Íslands verið í molum. Það er allt of lítið og viðkvæmt og illviðráðanlegt. Það má helst líkja því við rússíbana. Til þess að fá stöðugleika á hagkerfið þurfum við að tryggja aðgang að öflugra hagkerfi, t.d. Evrópusambandsins. Því get ég ekki samþykkt afnám verðtryggingar við núverandi aðstæður, en ég skal verða fyrst til að hvetja til afnáms hennar um leið og Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og tengir krónuræfilinn við Evru undir forystu Seðlabanka Evrópu.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

13. nóvember 2008 - Kæra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir!

Í fyrradag settir þú ofan í forystu Alþýðusambandsins fyrir þá kröfu að vilja setja ákveðna ráðherra úr embætti. Skiljanlega hefur þú ekki áhrif á samstarfsflokkinn, en slíkt er athafnaleysið í ríkisstjórn Íslands síðan þú veiktist að vandamálin eru þau verstu síðan á Sturlungaöld og afleiðingarnar eru þær verstu síðan í móðurharðindunum. Ef þetta er ekki nóg til að ráðherrar segi af sér, þá er Ísland versta gerð af bananalýðveldi.

Ég veit það alveg að umræddur ráðherra Samfylkingar sem þú varðir í fyrradag, er hinn myndarlegasti piltur og ljómaði eins og fermingardrengur við hlið aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar á fleiri blaðamannafundum í upphafi kreppunnar. Það er bara ekki nóg. Rétt eins og fjármálaráðherrann, hefur hann takmarkaða þekkingu á þeim málefnum sem hann tók við eftir myndun núverandi ríkisstjórnar. Að auki ber hann ábyrgð, ekki aðeins á eigin gjörðum, heldur og undirmanna sinna sem brugðust með skelfilegum afleiðingum.

Bjarni Harðarson sýslungi Björgvins framkvæmdi persónulegt skammarstrik og galt fyrir það með þingmennsku sinni. Þrátt fyrir það ber ég virðingu fyrir Bjarna fyrir að taka ábyrgð á gjörðum sínum og er hann maður að meiri fyrir bragðið. Afglöp Björgvins og Árna eru ekki persónuleg eins og Bjarna, en þau eru pólitísk, falla undir pólitíska ábyrgð á störfum undirmanna og ollu íslensku þjóðinni hundruða milljarða tjóni. Þess vegna á sagnfræðingurinn Björgvin að taka pokann sinn úr embætti viðskiptaráðherra rétt eins og dýralæknirinn úr embætti fjármálaráðherra og færa sig í sæti óbreytts þingmanns og láta öðrum eftir ráðherraembætti sitt.

Það er fleira sem ég er ósátt við í störfum þínum þessa dagana. Á meðan þú varst á sjúkrahúsi í útlöndum hóf Geir Hilmar Haarde að dansa, ekki við næstsætustu stelpuna á ballinu, heldur við óþekka óknyttastrákinn í Svörtuloftum. Sú taug sem tengir þá saman frá því þeir léku sér saman í menntaskóla er rammari en hver sú kona sem reynir að ógna ástarsambandi þeirra. Allt í einu ert þú farin að hegða þér eins og sú næstsætasta. Losaðu þig við Geir og sendu óknyttastrákinn í skammarkrókinn. Þeir eru ekki verðir aðdáunar þinnar og þú ein getur losað um tilfinningabönd þeirra.

Loks langar mig til að viðra eitt ljótt mál sem þú hefur ekki viljað taka afdráttarlausa afstöðu til. Breskur hryðjuverkaher er á leið til landsins og þrátt fyrir einarða afstöðu þína í friðarmálum opnar þú fyrir þann möguleika að þessir sömu hermenn, sumir kannski blóðugir upp að öxlum eftir dráp á saklausu fólki í Írak, eigi að vernda okkur gegn breska heimsveldinu á meðan við snæðum jólasteikina. Ég vil ekki sjá þessa undirmenn Gordons frá Brúnastöðum hér á landi um jólin gæta okkar fyrir Gordon frá Brúnastöðum. Gordon hefur gert nóg af sér samt sem og þessir legátar hans. Það er til nóg af enskum friðarsinnum sem eiga frekar skilið að vera boðið til hinnar friðelskandi þjóðar á Íslandi um jólin.

Svo skulum við ganga til samninga við Evrópusambandið um fulla og óskoraða aðild að sambandinu og gera það fljótt og vel.

mánudagur, nóvember 10, 2008

11. nóvember 2008 - Hvað varð um Icesave peningana?

Nú eru komnar sex vikur frá því íslenska hagkerfið hrundi eins og spilaborg og enn bíður íslenska þjóðin þess hvað verða vill. Ríkisstjórnin svarar út í hött eða engu og allt er eins og áður, sama ábyrgðarlausa ríkisstjórnin, sama ábyrgðarlausa bankastjórn Seðlabankans og sömu ábyrgðarlausu stjórnendur Fjármálaeftirlitsins. Á meðan stefnir allt beinustu leið til andskotans og úrræðin láta bíða eftir sér.

Ríkisstjórn og Seðlabanka hefur fyrir löngu tekist að slá ryki í augu þjóðarinnar með blaðri um um svokallaða Icesave reikninga og gera þá að milliríkjamáli á milli Íslands og Englands. Á meðan þeir halda áfram að berja hausnum við steininn kemur hver framagosinn fram í dagsljósið og reynir að telja okkur trú um að þessir peningar séu til og að eigendur umræddra reikninga muni fá þá endurgreidda, að allt hafi verið í himnalagi þegar allt hrundi. Báðir fyrrum bankastjórar Landsbankans hafa haldið þessu fram sem og einn aðaleigandinn.

Hvað er þá verið að rífast um? Ef þessir peningar eru til, er þá nokkuð annað að gera en að borga eigendum Icesave reikninganna það sem þeir eiga og málið er dautt? Ef búið er að binda þessa peninga í útlánum, er þá nokkuð annað að gera en að greiða enskri ríkisstjórn með skuldabréfunum og láta þá um að greiða út peningana um leið og þeir koma inn?

Allir eru svo saklausir. Jafnvel Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson eru orðnir eins og saklausir sauðir á leið til slátrunar sem hafa átt sér það aðalsmerki að vera góðir við börn, gamalmenni og aðra eigendur sparibauka.

Ég fæ á tilfinninguna að einhver sé að ljúga að mér, en hverju? Það get ég ekki með nokkru móti vitað vegna laumubragða vesælla ráðherra. Hvernig á ég að geta treyst þessu pakki? Eru þeir að bíða þess að þjóðin leysi þá undan ábyrgðarlausum stjórnarathöfnum, öllu heldur athafnaleysi, með byltingu?

Ef þeir gera ekkert af viti, verður það niðurstaðan. Íslenska þjóðin getur ekki beðið í tvö og hálft ár eftir að fá að segja skoðun sína.

10. nóvember 2008 - Bubbi á útlensku?

Íslenskir tónlistarmenn hafa löngum reynt að öðlast heimsfrægð á Íslandi með því að kyrja lög sín á útlensku og þá aðallega á ensku án mikils framdráttar, þó með einni eða tveimur undantekningum. Margir hafa þó farið aðra leið og reynt að halda uppi tónlistarlegum samræðum á okkar ástkæra ylhýra og öðlast frægð fyrir hér á skerinu fjarri heimsmenningunni.

Einn þeirra er Bubbi Mortens. Bubbi hefur rokkað í nærri þrjá áratugi, risið hátt og fallið djúpt, en samt ávallt verið hann sjálfur með öllum þeim kostum og göllum sem sem prýða afburðamann á tónlistarsviðinu. Sjálf hefi ég oft verið í vafa um hrifningu mína á honum, stundum metið hann mikils, stundum lítils. Gott dæmi tvískinnungs míns í hans garð er fyrsta plata Bubba og félaga. Þar kemur fyrir lagið um áhöfnina á Rosanum sem ég hefi aldrei tekið í sátt, en á sömu plötu er sömuleiðis einhver mesta snilld Bubba, lagið um Agnesi og Friðrik.

En hver væri frægð Bubba ef lögin hans væru öll á útlensku? Hann hefði vafalaust náð langt einhversstaðar úti í heimi, en ég er ekki jafnviss um að hann ætti þann stað í þjóðarsálinni og hann á í dag ef svo væri. Í Rokklandi sunnudagsins var spiluð gömul upptaka með Bubba þar sem hann kyrjar lag á útlensku. Áður en laginu lauk var ég farin að gera eitthvað annað en að hlusta.

Ég held að Íslendingar megi þakka Bubba fyrir að hann skuli ávallt reynt að halda íslenskri tónlist í hæstu hæðum með því að flytja næstum allt sitt á tungumáli því sem allt of fáir skilja en hann fer snilldarlega með.

-----oOo-----

Loks ein örlítil gleðifrétt frá kosningum í Bandaríkjunum:
http://abcnews.go.com/video/playerIndex?id=6211987

sunnudagur, nóvember 09, 2008

9. nóvember 2008 - Þegar þeir síðustu verða fyrstir er gaman!


Við sem höfum fylgst með gæfu og ógæfu Fótboltafélags Halifaxhrepps höfum ástæðu til að fagna í dag og er löngu kominn tími til fagnaðar.

Það var fyrir mörgum árum sem Gísli Einarsson þáverandi ritstjóri Skessuhorns stofnaði aðdáendaklúbb Fótboltafélags Halifaxhrepps í Vestur-Jórvíkurskíri í Englandi, en liðið barðist þá hetjulegri baráttu við að halda sér í langneðstu deild (fjórðu deild) í ensku boltasparki. Þegar aðdáendaklúbburinn var sem stærstur náði hann um sjö hundruð meðlimum, flestum í Lundarreykjadalnum en einnig annars staðar á Vesturlandi auk nokkurra aðdáenda á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningurinn dugði þó skammt því svo fór að lokum að Halifaxhreppur fann gatið á botninum og féll niður í kvenfélagsdeildina (5. deild sem þá var kennd við Nationwide Conference). Árangur félagsins í þeirri deild var ákaflega misjafn, eða allt frá því að berjast um endurnýjaða stöðu í langneðstu deild til þess að berjast fyrir sæti sínu í kvenfélagsdeildinni.

Sjálf heimsótti ég félagið einu sinni er ég var í heimsókn í næsta hrepp sem Gísli kennir reyndar við Reykholtsdalinn (Rochdale). Sú heimsókn var félaginu ekki framdráttar því tveimur árum síðar, þ.e. á síðastliðnu sumri varð það gjaldþrota.

Heimamenn í Halifaxhreppi gátu ekki hugsað sér að láta félagið deyja drottni sínum og fógetanum og endurreistu það sem samvinnufélag og veittu því inngöngu í Samband enskra samvinnufélaga. Það dugði þó ekki til því breska knattspyrnusambandið, sem er álíka grettið og Gordon frá Brúnastöðum, dæmdi félagið niður um þrjár deildir og varð það því að byrja á botninum á áttundu deild nú í haust.

Haustið byrjaði illa. Það voru ekki komnir margir leikir er Halifaxhreppur var í hópi neðstu liða með þrjá tapaða leiki og eitt jafntefli. Þá ákvað Jimmy Vinningur þjálfari að svona mætti ekki ganga lengur og skipaði strákunum okkar að bíta í skjaldarrendur og sýna mótherjunum hvað í þeim bjó. Og Halifaxhreppur fór að vinna leiki.

Laugardaginn 8. nóvember 2008 náði Fótboltafélag Halifaxhrepps loksins því langþráða takmarki að komast á topp áttundu deildar enskrar knattspyrnu. Mega nú Mannshestahreppur og Lifrarpollur og Rassenal og Efratún fara að gæta sín því nú loksins er sigurgangan óendanlega hafin af alvöru!

laugardagur, nóvember 08, 2008

8. nóvember 2008 - Pestin!

Jú, mikil ósköp. ég hefi verið hræðilega löt við bloggfærslur að undanförnu. Þig getið kallað þetta hvaða nafni sem er, leti, bloggfælni, andleysi eða veikindum. Þetta á allt rétt á sér.

Að undanförnu hefi ég verið með einhverja pest. Hiti og höfuðverkur hafa fylgt mér og ég hefi ekki getað hugsað skýrt. Ég hefi þó reynt af smita vinnufélagana af þessari sömu pest í von um að ná einhverjum aukavöktum, en það hefur enn ekki gengið eftir.

Ég reyni svo að skrifa eitthvað af viti strax á laugardagskvöld, enda hlýtur pestin að taka enda hjá mér.

(P.s. Ég tek það fram að engin alvara liggur að baki ósk minni um smitun til handa vinnufélögum mínum)

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

6. nóvember 2008 - Kim!

„Hann lítur ekki vel út kallinn,“ sögðu þulurnar í morgunútvarpinu um Kim Larsen, þegar talið barst að síðustu tónleikaferð hans og reykvenjum. Þegar haft er í huga að þriðji morgunútvarpsþulurinn er einlægur aðdáandi Kim Larsen má velt því fyrir sér hvort þær hefðu talað svona fjálglega um danska stórreykingamanninn ef Gestur Einar hefði verið viðstaddur!

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

4. nóvember 2008 - Rigningin blautari en hafið?

Ég uppgötvaði mér til hrellingar fyrir nokkru að komin voru fimm ár frá síðustu endurmenntun í slysavarnarskólanum og kominn tími til endurmenntunar. Ég skráði mig á endurmenntunarnámskeið og mætti síðan á mánudagsmorguninn um borð í Sæbjörgina.

Það gekk á ýmsu á námskeiðinu þó helst því að ég er orðin eldri og þreyttari en ég var áður og átti því auðveldara með að láta bjarga mér úr sjónum en að bjarga öðrum. Þó var ég það heppin með flotgalla, að eftir að hafa kafað í Reykjavíkurhöfn var ég það þurr að ég þurfti ekki að skipta um föt á eftir.

Þegar heim var komið hringdi ég í nágrannakonu mína til að tilkynna henni að ég treysti mér varla til að fara í daglegan göngutúr vegna rigningar og roks.
„Ágætt,“ sagði hún, „ef við förum ekki af stað eftir tíu mínútur, nenni ég ekki heldur að fara í göngutúr.“

Tíu mínútum síðar mátti sjá okkur við Árbæjarlón askvaðandi stífluhringinn í úrhellisrigningu og roki. Þegar heim var komið var ekki þurr þráður á mér og ég þurfti snarlega að koma mér í bað og finna mér þurr föt.

Þegar ég lá á bakinu á floti í Reykjavíkurhöfn í morgun fannst mér þægilegt að finna rigninguna beint í andlitið. Rigningin við Árbæjarlón var öllu verri.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

2. nóvember 2008 - Minnkað vinnuframlag?

Í gær bárust fréttir af því að ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn ætlaði að skera niður vinnutímann hjá starfsfólkinu niður í 50% af áður unninni vinnu og lækka launin sem því nemur. Áður höfðu borist fregnir af því að einhver fyrirtæki ætluðu starfsfólki sínu að lækka laun sín og vinnuframlag um fimm og tíu prósent eða kannski enn meira.

Ég fór að velta þessu fyrir mér. Er virkilega til svo mikið af almennu starfsfólki hjá íslenskum fyrirtækjum að hægt sé að skera niður vinnuna með einu pennastriki og deila starfinu með öðrum? Er vinnusukk í gangi á Íslandi?

Rétt eins og starfsfólkið sem vinnur í kringum mig, erum við sérhæfður starfshópur. Það hleypur enginn í störfin okkar fyrirvaralaust. Við getum ekki verið neitt færri en við erum og gætum þegið viðbótarvinnuframlag án launalækkunar, en ef við eigum að taka við fólki frá öðrum deildum til að draga niður í okkar vinnuframlagi og lækkunar launa, þurfum við að byrja á að senda fólkið í skóla í nokkur ár. Það er auðvitað möguleiki á að taka inn fólk frá skyldum deildum innan sama fyrirtækis og spara þannig fleiri ára skólagöngu, en þá þarf að senda nýtt fólk í þær deildir í skóla. Við getum auðvitað kallað inn fólk utan af sjó til starfa með okkur, en þá lendir sjávarútvegurinn í kreppu vegna skorts á vélfræðingum með réttindi.

Þetta sama gildir um margar aðrar starfsstéttir og starfshópa. Það er ekkert hægt að skera niður með því að deila starfinu með nýju fólki sérstaklega ekki ef um sérhæfð störf er að ræða. Launin eru heldur ekki svo há að þau nægi fleiri manneskjum.

laugardagur, nóvember 01, 2008

1. nóvember 2008 - Verslunaræði

Það var einhverntímann um miðjan sjöunda áratuginn að það fréttist af boðuðu verkfalli í mjólkur og brauðbúðum í Reykjavík. Systir mín sendi mig út af örkinni til að ná í mjólk og brauð handa litlu fjölskyldunni sinni, en það var sama hvert komið var. Það var allsstaðar uppselt því fleiri höfðu frétt af væntanlegu verkfalli. Daginn eftir var gert stórfellt grín að kjaftasögunni af ætluðu verkfalli í dagblöðum og blaðamenn veltu því fyrir sér hvort einhver húsmóðir sem hafði verslað mánaðarbirgðir af brauði ætlaði að nota síðustu brauðhleifana til að rota kallinn ef hann kæmi fullur heim.

Rétt eins og fjöldi Íslendinga sem telja sig þurfa að hamstra, ákvað ég að skreppa í Heiðrúnu í gær. Ekki þurfti ég að kaupa miklar birgðir, aðeins öl til nota þessar tvær fríhelgar sem eru framundan, en auk þess örlítið rauðvín til nota á næsta fundi.

Það var troðið í Heiðrúnu er ég var þar skömmu eftir hádegið, en rétt eins og endranær þegar ég kem í Ríkið, rakst ég á gamlan kunningja. Í þetta skipti hitti ég gamlan skólafélaga úr Vélskólanum sem ég hafði ekki hitt í nærri 30 ár. Við þurftum að sjálfsögðu að ræða heilmikið saman eftir að komið var út úr Heiðrúnu, en þar sem við vorum að rifja upp gamlar minningar kom stúlka á sjötugsaldri út úr búðinni með birgðir af áfengi í innkaupakörfu og greinilegt að það verður gaman hjá ónefndum hjónum um helgina.

„Sæl systir, það verður fjör hjá þér um helgina.“
„Það á ekkert að drekka þetta núna, þetta er til jólanna.“

Ég sá fólkið fyrir mér í huganum horfandi á allar þessar dýrindisbirgðir í nærri tvo mánuði og langa til að fá sér einn gráan fyrir svefninn. Þá hefði ég nú heldur sagt að þessar birgðir væru ætlaðar 45 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna eftir þrjár vikur.

Stundum þarf ekki mikla hækkun eða kjaftasögu til að allt fari úr böndunum.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/31/ortrod_i_verslunum_atvr/