þriðjudagur, nóvember 04, 2008

4. nóvember 2008 - Rigningin blautari en hafið?

Ég uppgötvaði mér til hrellingar fyrir nokkru að komin voru fimm ár frá síðustu endurmenntun í slysavarnarskólanum og kominn tími til endurmenntunar. Ég skráði mig á endurmenntunarnámskeið og mætti síðan á mánudagsmorguninn um borð í Sæbjörgina.

Það gekk á ýmsu á námskeiðinu þó helst því að ég er orðin eldri og þreyttari en ég var áður og átti því auðveldara með að láta bjarga mér úr sjónum en að bjarga öðrum. Þó var ég það heppin með flotgalla, að eftir að hafa kafað í Reykjavíkurhöfn var ég það þurr að ég þurfti ekki að skipta um föt á eftir.

Þegar heim var komið hringdi ég í nágrannakonu mína til að tilkynna henni að ég treysti mér varla til að fara í daglegan göngutúr vegna rigningar og roks.
„Ágætt,“ sagði hún, „ef við förum ekki af stað eftir tíu mínútur, nenni ég ekki heldur að fara í göngutúr.“

Tíu mínútum síðar mátti sjá okkur við Árbæjarlón askvaðandi stífluhringinn í úrhellisrigningu og roki. Þegar heim var komið var ekki þurr þráður á mér og ég þurfti snarlega að koma mér í bað og finna mér þurr föt.

Þegar ég lá á bakinu á floti í Reykjavíkurhöfn í morgun fannst mér þægilegt að finna rigninguna beint í andlitið. Rigningin við Árbæjarlón var öllu verri.


0 ummæli:Skrifa ummæli