mánudagur, nóvember 17, 2008

18. nóvember 2008 - Kæri Steingrímur Jóhann Sigfússon

Ég get ekki annað en hrifist af því hve þú ert mælskur, sérstaklega þegar þú talar af fullu ábyrgðarleysi. Ég hlustaði á viðtal við þig í Kastljósi mánudagsins og ég nánast hneykslaðist ef ábyrgðarleysi þínu. Þú vildir fara einhverjar aðrar leiðir, en samt hafðir þú ekkert plan B uppi í erminni heldur ætlaðist til að einhverjir aðrir ættu að vera með plan B uppi í erminni, þ.e. ríkisstjórnin. Því vil ég hryggja þig með því að það er ekkert plan B til í þeirri arfaslöku stöðu sem ríkisstjórn Íslands er í.

Steingrímur. Þú veist mætavel að ef einhver tekur að sér að gæta fjár náungans, þá ber honum að skila fénu aftur þegar eigandinn óskar þess eða þá eftir samkomulagi á milli eiganda og fjárins og fjárhirðisins. Þú veist það jafnvel og ég að það átti að svíkja eigendur um skil fjárins og slíkt kann aldrei að enda vel. Fjárhirðirinn átti sér baktryggingu í formi íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands, en bankastjórinn í ríkisbankanum lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að borga fyrir einhverja fjárglæframenn. Í slíku tilfelli er ekki um neitt annað að ræða en að láta hart mæta hörðu. Það var að vísu sóðalegt að beita Íslendinga hryðjuverkalögum, en það breytti ekki því að Íslendingar verða að standa skil á sínu og hafa verið þekktir fyrir slíkt fram að þessu. Nú hafa orð ríkisbankastjórans og fleiri aðila eyðilagt álitið á íslensku þjóðinni um langa framtíð og við þurfum á öllu okkar að halda til að byggja upp álitið að nýju.

Með kröfum þínum um að fara einhverja aðra leið eins og dómstólaleiðina ertu í reynd að setja þig á sama hest og nýfrjálshyggjupostularnir, þeir hinir sömu sem keyrðu Ísland á kaf í skuldir. Með því móti ertu að koma þeim skilaboðum til eigenda fjárins að þeir geti étið það sem úti frýs og þannig aukið enn á þann vanda sem þjóðin stendur í þessar vikurnar þegar við erum útspottuð og fyrirlitin beggja vegna Atlantshafsins

Við þolum ekki að bíða lengur. Við höfum þegar beðið í sjö vikur eftir lausn þessara mála og það er sjö vikum of mikið og allan tímann hefur sigið meir og meir á ógæfuhliðina. Nú vilt þú bíða í fleiri mánuði og jafnvel svo árum skiptir á meðan verið er að þvæla fjármunum bankanna í gegnum dómskerfi allra landa. Hvernig verður þá staðan þegar dómur loksins fellur? Nei, gerðu það fyrir okkur og sýndu okkur ábyrga stjórnarandstöðu einu sinni, ekki þegja afnám sérlífeyrisréttinda í kaf, ekki standa ásamt Davíð Oddssyni utan við samfélag þjóðanna í einstrengislegum tilraunum ykkar að viðhalda ónýtum krónuræflinum og við að neita að borga skuldirnar sem íslenska þjóðin er í ábyrgð fyrir.

Kæri Steingrímur. Einu sinni studdi ég þig og þá pólitík sem þú stóðst fyrir. Ég studdi Alþýðubandalagið meðan það var og hét og sömuleiðis taldi ég mig vera nærri skoðunum Vinstri grænna fyrstu árin sem þau samtök voru við lýði. Ég styð þig enn í kröfunni um afdráttarlausan frið á jörðu og jöfnuð til handa öllu mannkyni, en ég er löngu hætt að styðja þig í baráttunni gegn Evrópu og í öfgafullri náttúruverndarbaráttu.

Mér þykir samt örlítið vænt um þig enn í dag þótt eitthvað sé byrjað að falla á væntumþykjuna. Í dag styð ég mun ábyrgari stjórnarhætti en þú býður okkur, þótt ég vilji sjá kosningar og nýtt umboð til Alþingis sem allra fyrst. Hvernig litist þér á að fara að fordæmi Guðna Ágústssonar sem vék fyrir Valgerði og bjóða Katrínu Jakobsdóttur sæti þitt innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það yrði örugglega heillaspor fyrir bæði þjóðina og þig.

P.s. Ef þú lofar þessu, skal ég aldrei framar skrifa um LandCruiser 100 lúxusjeppann þinn sem þú eyðilagðir í Bólstaðarhlíðarbrekkunni hér um árið, þegar þú varst nýlega búinn að segja þjóðinni að þú keyrðir um á Volvo árgerð 1972.


0 ummæli:







Skrifa ummæli