sunnudagur, nóvember 23, 2008

23. nóvember 2008 - Davíð Oddsson og kisur

Er ég nefndi í síðustu færslu að ég hefði gengið ein stífluhringinn áður en ég tók þátt í spurningakeppni, ýkti ég aðeins. Með í för var nefnilega ungur sveinn, Tómas að nafni og fannhvítur á lit, gengur um á fjórum fótum og býr ásamt hundum tveimur og tveimur manneskjum á jarðhæðinni í blokkinni þar sem ég bý. Tómas þessi dýrkar mig og uppáhaldsfæða hans er harðfiskur. Hann getur legið á jörðinni fyrir neðan svalirnar mínar klukkustundum saman og gónt upp í von um að ég birtist með harðfiskbita og þá á hann það til að elta mig er ég fer út í göngu í von um að fá sælgætið góða í verðlaun fyrir fylgdina.

Á dögunum las ég í DV að Davíð Oddsson hefði eyðilagt megrunarkúrinn fyrir ungum ferfættum nágranna sínum með harðfiski. Með þessari frétt jókst álit mitt á Davíð Oddssyni um nokkrar hæðir. Ég hafði sjálf eyðilagt fyrirskipaðan megrunarkúr Tómasar kattar á sama hátt og Davíð rústaði megrunarkúr nágranna síns. Við lestur fréttarinnar fann ég auðvitað strax til samkenndar með Davíð.

Bara verst hvað vestfirski steinbíturinn í Kolaportinu er dýr í innkaupum, enda vel þeginn af mínum kisum auk Tómasar, en harðfiskur sá er um leið uppáhaldssælgætið sem kettir elska framar öllu öðru. Jafnvel ég á það til að fá mér bita með köttunum.


0 ummæli:Skrifa ummæli