mánudagur, nóvember 10, 2008

11. nóvember 2008 - Hvað varð um Icesave peningana?

Nú eru komnar sex vikur frá því íslenska hagkerfið hrundi eins og spilaborg og enn bíður íslenska þjóðin þess hvað verða vill. Ríkisstjórnin svarar út í hött eða engu og allt er eins og áður, sama ábyrgðarlausa ríkisstjórnin, sama ábyrgðarlausa bankastjórn Seðlabankans og sömu ábyrgðarlausu stjórnendur Fjármálaeftirlitsins. Á meðan stefnir allt beinustu leið til andskotans og úrræðin láta bíða eftir sér.

Ríkisstjórn og Seðlabanka hefur fyrir löngu tekist að slá ryki í augu þjóðarinnar með blaðri um um svokallaða Icesave reikninga og gera þá að milliríkjamáli á milli Íslands og Englands. Á meðan þeir halda áfram að berja hausnum við steininn kemur hver framagosinn fram í dagsljósið og reynir að telja okkur trú um að þessir peningar séu til og að eigendur umræddra reikninga muni fá þá endurgreidda, að allt hafi verið í himnalagi þegar allt hrundi. Báðir fyrrum bankastjórar Landsbankans hafa haldið þessu fram sem og einn aðaleigandinn.

Hvað er þá verið að rífast um? Ef þessir peningar eru til, er þá nokkuð annað að gera en að borga eigendum Icesave reikninganna það sem þeir eiga og málið er dautt? Ef búið er að binda þessa peninga í útlánum, er þá nokkuð annað að gera en að greiða enskri ríkisstjórn með skuldabréfunum og láta þá um að greiða út peningana um leið og þeir koma inn?

Allir eru svo saklausir. Jafnvel Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson eru orðnir eins og saklausir sauðir á leið til slátrunar sem hafa átt sér það aðalsmerki að vera góðir við börn, gamalmenni og aðra eigendur sparibauka.

Ég fæ á tilfinninguna að einhver sé að ljúga að mér, en hverju? Það get ég ekki með nokkru móti vitað vegna laumubragða vesælla ráðherra. Hvernig á ég að geta treyst þessu pakki? Eru þeir að bíða þess að þjóðin leysi þá undan ábyrgðarlausum stjórnarathöfnum, öllu heldur athafnaleysi, með byltingu?

Ef þeir gera ekkert af viti, verður það niðurstaðan. Íslenska þjóðin getur ekki beðið í tvö og hálft ár eftir að fá að segja skoðun sína.


0 ummæli:







Skrifa ummæli