fimmtudagur, nóvember 20, 2008

20. nóvember 2008 - Flokkauppgjör í vændum?

Það verður fjör á Fróni þegar líður á janúar næstkomandi. Þá verður gaman að fylgjast með pólitíkinni.

Það verður gaman að fylgjast með uppgjörinu í Framsóknarflokknum. Mig grunar að Guðni sé ekki hættur og þá ekki Bjarni Harðarson. Báðir eru þeir harðir andstæðingar Evrópusambandsaðildar þótt hinn yngri hluti flokksins vilji fremur samvinnuleiðina með Evrópu. Ætla þeir að stofna Bændaflokkinn sem nú er mjög í umræðunni?

Innan Sjálfstæðisflokksins er sama umræða hávær. Hún er þó mun fyrirsjáanlegri að þar er einn maður sem ræður. Ég er hinsvegar ekki lengur viss um að forsvarmenn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu verði jafnhlýðnir eftir flokksþingið í janúar og hingað til. Flokkseigendafélagið með Davíð, Kjartan og Hannes í broddi fylkingar mun bera hina ofurliði og halda nafninu og eignunum.

Munu þá forsvarmenn í atvinnulífinu sitja og þegja? Nei ég held ekki. Þeir munu eiga möguleika á að ganga yfir í Samfylkinguna, en margir munu þó fremur vilja fara sína eigin leið, Evrópuleiðina frá Sjálfstæðisflokknum.

Ég veit ekki hvort svona muni fara. Kannski verður óttinn við kjósendur sterkari óttanum við Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn getur tekið höndum saman við Framsókn og Samfylkingu um viðræður við Evrópusambandið. En þá geta líka Davíð og Geir og Hannes og Friðrik J. Arngrímsson fylkt liði með Guðna og Bjarna í einhverju sem kalla má Þjóðvarnarflokk hinn seinni

Uppgjörið eftir efnahagshrunið er ekki hafið, en það verða læti. Það er ég viss um.


0 ummæli:







Skrifa ummæli