þriðjudagur, nóvember 18, 2008

19. nóvember 2008 – Seðlabanki án ábyrgðar



Eins og alþjóð er kunnugt, þá flutti Davíð Oddsson mjög skelegga ræðu á fundi Viðskiptaráðs á þriðjudagsmorguninn. Þar hóf hann sama leik og allir aðrir leikendur í efnahagshruninu, lýsti alla seka nema sjálfan sig sem hefði margbent á sökina í málinu. Davíð sá að vísu enga ástæðu til að ræða skýrslu Seðlabankans frá því í maí, þar sem allt var í himnalagi í íslenska bankakerfinu. Hann minntist heldur ekkert á að það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem lét lögfesta aðskilnað Fjármálaeftirlits og Seðlabanka né heldur að það var steinbarn Davíðs Oddssonar, Fjármálaeftirlitið, sem var aðalsökudólgurinn í eftirlitsleysinu með bönkunum að mati Davíðs.

Áður höfðu fyrrum forystumenn bankanna lýst sig saklausa af því að hafa komið efnahag þjóðarinnar á kaldan klaka, einstöku ráðherrar, allir sem mögulega áttu einhvern þátt í hruninu voru orðnir hvítþvegnir og höfðu aldrei gert neitt af sér. Samt hrundi efnahagur íslensku þjóðarinnar eins og spilaborg.

En úr því að ljóst er að Seðlabankinn er ábyrgðarlaus af efnahagshruninu, má velta því fyrir sér, hvort nokkur þörf sé fyrir ábyrgðarlausan Seðlabanka. Að vísu hafa löngum verið til skrýtin störf í ýmsum ríkjum og fólk hefur skemmt sér með bröndurum af flotamálaráðherra Ungverjalands sem er jú umlukið ríkjum á alla vegu, sjávarútvegsráðherra Sviss sem einungis getur státað af nokkrum stöðuvötnum og Seðlabankastjóra á Íslandi þar sem ekki eru til neinir peningar. Þótt þörfin fyrir seðlabanka til að stjórna íslensku hagkerfi hafi minnkað talsvert að undanförnu þar sem einungis skuldir hafa aukist, þá er jákvætt að hafa tryggan seðlabanka við endurreisn efnahags þjóðarinnar úr rústunum.

Það er svo önnur saga að ég tel Davíð Oddsson óhæfan til að stjórna slíkum seðlabanka og tel reyndar að leita eigi liðsinnis hins franska Jean-Claude Trichet til að stjórna bankanum enda hefur hann mikla reynslu af slíkum störfum.

Eins og gefur að skilja hefur hann öllu fjölbreyttari reynslu af hagstjórn en Davíð Oddsson og fylgir hér með ferilskrá (Curriculum Vitae) kappans:

http://www.ecb.int/ecb/orga/decisions/html/cvtrichet.en.html


0 ummæli:







Skrifa ummæli