föstudagur, nóvember 21, 2008

21. nóvember 2008 - Um ættartölusafnrit séra Þórðar í Hítardal.


Ég fékk Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal í hendurnar á dögunum, mikið rit í tveimur bindum og rúmlega þúsund blaðsíðum og unnið af Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. Þetta er auðvitað algjör gersemi fyrir áhugafólk um ættfræði fyrri tíma þar sem áa íslensku þjóðarinnar er rækilega getið á hverri blaðsíðu. Þar sem ég fletti bókunum rak ég augun í orð Þórðar um Sigríði Halldórsdóttur frá Fróðá, fædd á síðari hluta sextándu aldar, en þar segir (bls 220):

Sigríður Halldórsdóttir sem féll með Jóni Oddssyni systurmanni sínum. Hún bar sig að flýja, komst í skip með engelskum en var sett á land aftur því hún var þungbúin og veik. Var henni drekkt á Ballarárhlíð anno 1610 við Hvammsfjörð.

Af Jón þessum (eiginmanni Steinunnar Halldórsdóttur) er aftur á móti önnur saga:

Jón bjó í Fagurey þegar hann féll með Sigríði Halldórsdóttur systur konu sinnar og flúði hann anno 1610, komst hann í skip og giftist í Englandi og vegnaði þar vel. Hann lét hér eftir hjá konu sinni sjö börn.

Í Íslendingabók er í litlu getið Þorleifs þess sem getinn var í umræddu hjúskaparbroti, en hann mun vera fæddur árið 1608.

Svo erum við að kvarta og kveina yfir slæmum yfirvöldum og kreppu annó 2008!


0 ummæli:Skrifa ummæli