sunnudagur, nóvember 30, 2008

30. nóvember 2008 - Af Gävlebock og jólatré

Þegar ég var að alast upp, þótti siður á gamlárskvöld að velta bílum og kveikja í lögreglustöðinni. Þessa er getið í bókmenntum og minnir mig að þess sé sérstaklega minnst í Atómstöð Halldórs Laxness. Þessi góði siður lagðist af með tilkomu sjónvarps og Áramótaskaups í Reykjavík, en vegna svipaðs athæfis í Hafnarfirði á þrettándanum var siður þessi mun þrálátari á þeim bænum.

Um svipað leyti og siðurinn lagðist af í Reykjavík, hófu kaupmenn í Gävle í Svíþjóð að reisa geithafur úr hálmi á Slottstorget þar í bæ. Fljótlega komst á sá siður að brenna Gävlebocken að nóttu til á aðventunni og helst fyrir nýár. Svo rammt kvað að þessu að hægt var að veðja um hversu lengi bocken skyldi standa í breskum veðbönkum. Nú hafa kaupmenn í Gävle eyðilagt þennan góða sið með því að nota eldtraustan hálm í geithafurinn og hefur hann ekki verið brenndur síðan 3. desember 2005 þrátt fyrir tilraunir til slíks.

Gävlebocken var endurreistur á Slottstorget í Gävle í fyrradag og enn úr sama óbrennanlega hálminum og síðustu tvö árin. Í dag var kveikt á jólatrénu á Austurvelli.

Ekki ætla ég að hvetja til þess að sá siður að kveikja í einhverju verði endurvakinn. Hinsvegar finnst mér hægt að gera margt annað skemmtilegra á Austurvelli en að kasta matvælum á Alþingishúsið. Ég er þá að sjálfsögðu alls ekki að hugsa um hið lítt eldfima útlenska jólatré fyrir framan Alþingishúsið, enda hefur það verið bæjarprýði um margra áratuga skeið. En unglingarnir sem kasta matvælum í Alþingishúsið mættu alveg byrja að dansa í kringum jólatréð í stað þess að grýta matvælum í saklausan húskumbaldann.

http://sv.wikipedia.org/wiki/Julbocken_i_G%C3%A4vle

http://www.youtube.com/watch?v=LlLnAUWZ0Dc


0 ummæli:







Skrifa ummæli