mánudagur, desember 01, 2008

1. desember 2008 - Fésbókarástir!

Ónefndur, en fráskilinn kunningi minn hefur enn ekki lært að meta hið jákvæða við einlífið og er talsvert upp á kvenhöndina, fer oft út á lífið í von um að finna sér nýjan lífsförunaut, en því miður helst honum illa á konum.

Einhverju sinni hóf hann að stunda hestamennsku af miklum móð. Það var ljóst að það var ekki einvörðungu hrifning á hestum sem rak hann áfram, heldur lá eitthvað meira á bakvið. Hann stundaði hestamennskuna af miklum móð um nokkurra mánaða skeið, en þá vildi svo til að hann féll af baki og slasaðist nokkuð. Um svipað leyti kulnuðu ástir kunningjans og óþekktrar hestakonu og hefur hann ekki minnst á hesta aftur í mín eyru.

Fljótlega eftir þetta hóf hann að hlaupa á fjöll af miklum móð. Ekki var hann í gönguhóp með mér, enda hefði ég ekki haft roð við honum því hann tók fjöllin sömu tökum og hestana áður. Esjan var meðal þess fyrsta sem féll fyrir fótum hans, síðan komu önnur fjöll og firnindi, Laugavegurinn, Fimmvörðuháls, Snæfellsjökull, Hvannadalshnjúkur. Svo virtist ákafinn kulna jafnskjótt og hann hófst. Ekki veit ég af hverju.

Að undanförnu hefur Fésbókin átt hug og hjörtu þjóðarinnar. Sagt er að nærri fjórði hver Íslendingur sé kominn á Fésbók og einhverjir eru þeir sem hafa náð sér í sína heittelskuðu á því ágæta vefsvæði. Kunningi minn kynntist Fésbókinni og hóf að safna kvenkyns vinkonum út um alla jörð. Um daginn kom ég að honum þar sem hann sat fyrir framan tölvuna sína og hlustaði á Youtube vefinn. Þrátt fyrir fremur lítinn áhuga mannsins á sígildri tónlist, veitti ég því athygli að hann var að hlusta á eitthvert kórverk eftir Mozart. Það fór ekkert á milli mála að ástin hafði bankað á dyr kunningjans einu sinni enn, en spurningin er nú hvort ein kona nægi honum lengur, því umrætt kórverk var að sjálfsögðu flutt af heilum kvennakór!


0 ummæli:







Skrifa ummæli