þriðjudagur, desember 16, 2008

17. desember 2008 - Verðbréfadrengir

Þegar spilaborg bankanna hrundi stóð ég í þeirri trú að ég hefði ekki tapað neinu vitandi að ég hafði fært helming séreignarsjóðsins míns frá hlutabréfabraski yfir í það sem ég hélt vera verðtryggt. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af hinum helmingnum því hann var sannanlega að fullu verðtryggður. Um mánaðarmótin okt/nóv stóð ég enn í þeirri trú að leið 4 í Íslenska lífeyrissjóðnum hjá Landsbréfum/Landsbanka væri á góðri siglingu verðtryggingar og væri lagður af stað í átt að þriðju milljóninni.

Um daginn fékk ég bréf frá Landsbankanum. Samkvæmt bréfinu hafði öruggasta ávöxtunarleiðin í séreignarsparnaði, ekki aðeins rýrnað, heldur rýrnað mest allra sparnaðarleiða í bankanum eða um þriðjung að raunvirði. Vegna þessa sá ég ástæðu til að mæta á fund í Íslenska lífeyrissjóðnum á þriðjudagskvöldið þar sem verðbréfadrengirnir héldu uppi vörnum fyrir sig og verk sín. Hið einasta sem var ánægjulegt við fundinn var að þarna hitti ég allnokkurn hóp gamalla skipsfélaga og annars fólks sem ég þekki frá fyrri árum og drakk kaffi með þeim um leið og hlustað var á afsakanir drengja sem eru vart vaxnir upp úr stuttbuxunum og hvernig þeir gömbluðu með peningana okkar á blóðugu fórnaraltari Jóns Ásgeirs, Hannesar Smárasonar og tengdra félaga.

Í dag fékk ég annað bréf frá einum þeirra lífeyrissjóða sem ég hafði greitt í háar upphæðir á margra ára tímabili. Þar er ástæða til enn meiri ótta, því þeir boða fund með eigendum sjóðsins tveimur dögum fyrir jól.

Þess má geta að framkvæmdastjóri þess sjóðs er sami verðbréfadrengur og var að afsaka sig á fundi Íslenska lífeyrissjóðsins.

Er nema von að maður hafi áhyggjur fyrir jólin?


0 ummæli:







Skrifa ummæli