laugardagur, desember 06, 2008

7. desember 2008 - Þess vegna er ég hætt að mæta á Austurvöll

Í óstöðugu efnahagskerfi með ónýtan gjaldmiðil er nauðsynlegt að tryggja rétta skiptingu fjármagns með verðtryggingu. Eftir meila rússíbanareið íslenska krónuræfilsins á síðustu fimm áratugum reyndist nauðsynlegt að verðtryggja lán til þess að þeir sem skulduðu borguðu það til baka sem þeir skulduðu og lítið umfram það. Með verðtryggingunni árið 1979 komst loksins á jafnvægi á milli lánardrottna og skuldunauta sem ekki hafði verið áður, að lánardrottnarnir sem í mörgum tilfellum voru lífeyrissjóðirnir sem eiga að heita í eigu almennings í þessu landi, hættu að tapa stórfé á útlánum og fengu það til baka sem þeir lánuðu, en skuldararnir hættu að græða á að fá lánað og borguðu lánið til baka.

Þrátt fyrir verðtrygginguna fóru fáir á hausinn í óðaverðbólgunni á níunda áratugnum þar sem verðbólgan fór upp í 80% (ekki í 130% eins og staðhæft var). Á sama hátt munu fáir fara á hausinn í 17-25% verðbólgunni í dag með ívilnunum hins opinbera á greiðslunum.

Þessa dagana gerast háværar kröfur um að nota lífeyrissjóðina í eitthvað skynsamlegt, byggja upp atvinnuvegina að nýju, niðurgreiða lánin og allt á minn kostnað sem ætla á eftirlaun eftir rúman áratug. Svar mitt er einfalt. Ég vil ekki lána ykkur á þeim kjörum sem þið viljið borga. Ég vil ekki heldur gambla með lífeyrissjóðinn minn í áhættufjárfestingar.

Á meðan við búum við núverandi hagkerfi með núverandi gjaldmiðil, mun ég berjast með öllum ráðum gegn afnámi verðtryggingarinnar. Ég er þó reiðubúin að endurskoða afstöðu mína þegar við verðum komin með nýtt hagkerfi og nýjan gjaldmiðil. Þess vegna get ég ekki tekið undir orð vörubílstjórans sem talaði á Austurvelli á laugardag né heldur orð þeirra sem munu krefjast afnáms verðtryggingar á fundi í Háskólabíó á mánudag.

Reynið svo að halda ykkur við baráttu gegn þeim sem báru sökina á efnahagshruninu, en hættið að berjast gegn okkur almúgafólkinu með lífeyrissjóðinn okkar. Ef þið teljið okkur bera sökina, þá komið hreint út með þær kröfur gegn okkur. Annars skuluð þið krefjast annarra aðgerða til að létta undir með ykkur greiðslubyrðina eða gegn sökudólgunum í efnahagshruninu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli