laugardagur, desember 20, 2008

20. desember 2008 - Illa farið með Dúu dásamlegu!

Á föstudagskvöldið fórum ég og nágranni minn í næsta húsi, á tónleika á Café Rosenberg. Við höfðum mjög jöfn skipti á skemmtuninni, hún keyrði og ég drakk öl.

þegar inn var komið fengum við pláss í sófa við átta manna borð og var nú ekki annað en að vona að Dúa fyndi sér framtíðarprinsinn þarna inni. Ekki leið á löngu uns Kata yfirgöngustjóri frá Gay Pride mætti á staðinn og vantaði sæti fyrir sig og þrjár samkynhneigðar vinkonur sínar og eðlilegt að þær fengju sæti hjá mér. Þá voru einungis tvö sæti laus og leið ekki á löngu uns tveir fjallmyndarlegir karlmenn létu sjá sig og gripu lausu sætin tvö. Þeir reyndust vera Felix og Baldur. Þar með var vesalings Dúa umvafin samkynhneigðu fólki á alla kanta.

Tónleikarnir voru algjör snilld, en þar fóru Borgardætur með jólatónleika sína í troðfullum sal, en tónleikarnir voru teknir upp til útsendingar á Rás 2 um jólin. Að sjálfsögðu skemmti ég mér hið besta, en ég er ekki jafnviss um skemmtunina hjá Dúu þótt hún héldi því fram að hún hefði skemmt sér ágætlega. Það var allavega ekkert hægt að setja út á tónleika Borgardætra sem stóðu sig sem aldrei fyrr og kannski aðeins betur en það.


0 ummæli:Skrifa ummæli