fimmtudagur, desember 04, 2008

4. desember 2008 - Að reisa sér hurðarás um öxl

Þegar fólk kaupir sér íbúð er hugmyndin venjulega sú að komast í tryggt húsnæði þar til annað hvort að skipt verði yfir í stærri íbúð með stærri fjölskyldu eða þá betri með bættum efnahag.Það má líka hugsa sér fólk sem velur að minnka við sig af einhverjum ástæðum eða hreinlega vegna þess að fjölskyldan minnkar eða tekjurnar rýrna.

Ég verð þó að viðurkenna að ég var dálítið slegin yfir viðtali í Kastljósi sjónvarpsins við mann sem ætlar að hætta að greiða af íbúðinni sinni. Ekki lengur, því þegar ég sá hvaða leik hann var að spinna, missti ég samúðina með honum. Hann segist hafa sett íbúðina sína á sölu á 36,9 milljónir krónuræfla í ágúst, en þá skuldaði hann 28 milljónir. Núna eftir efnahagshrunið hefur lánið aukist í rúma 31 milljón og þá vill hann skyndilega að bankinn (veðhafinn) leysi til sín lánið. Hann segist reikna með því að íbúðin geti farið á 25 milljónir á uppboði. Ef honum er svo mikið í mun að losna við ibúðina sína, af hverju reyndi hann þá ekki að selja hana strax í ágúst á 28 milljónir í staðinn fyrir 36,9 milljónir. Hann hefði þá örugglega átt auðveldar með að losna við íbúðina heldur en í dag.

Eftir að ég hafði horft á Kastljósið tvisvar varð mér ljóst að maðurinn var að flytja leikrit, væntanlega í þeim tilgangi að sýna fram á gagnsleysi verðtryggingar lána. Ef hann hefði verið kominn í svo slæma stöðu að hann hefði ekki getað greitt af láninu sínu, hefði hann hegðað sér allt öðruvísi í stað þess að krefjast afsláttar af lánunum sínum eins og það fólk er að gera sem hefur hæst í dag í þeim tilgangi að ná lífeyrissjóðnum mínum til sín á silfurfati.

Sjálf sit ég í svipuðum sporum og sá sem var í viðtalinu, þó að því fráskildu að ég held áfram að greiða af láninu mínu og að ég hefi ekki tekið ný lán út á hækkandi markaðsverð íbúðarinnar eins og viðmælandinn virðist hafa gert í tvígang. Ég keypti íbúðina mína 2004 og lenti fljótlega í umfangsmiklum framkvæmdum sem nú eru uppgreiddar. Þótt lánin hafi vissulega hækkað um þrjár milljónir á þessum árum og markaðsverð íbúðarinnar hækkað helmingi meira, þá eru þetta bara tölur á blaði fyrir mig sem ætla að búa hér áfram. Þannig reikna ég fastlega með því að lánin verði búin að ná markaðsverði íbúðarinnar á næsta ári sem segir mér að verðmæti lánsins verði orðið meira en verðmæti íbúðarinnar. Það gerir ekkert til því ég er ekkert á leiðinni að selja íbúðina á næstu árum og ég vona að verðmætin verði farin að stíga talsvert áður en ég verð svo gömul að ég geti ekki lengur búið í íbúðinni eftir kannski aldarfjórðung.

Löngu áður en að því kemur, verður afar mikilvægt að ungir piltar verði ekki búnir að ræna mig lífeyrissjóðnum mínum með leikriti í Kastljósinu, svo ég neyðist ekki til að selja íbúðina fyrir mat og öðrum brýnum nauðsynjum.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431268/0


0 ummæli:







Skrifa ummæli