laugardagur, desember 13, 2008

13. desember 2008 - Um Melódíur minninganna

Það er fjöldi fólks sem setur samasem merki á milli Bíldudals og Jóns Kr. Ólafssonar söngvara með meiru, þessa manns sem hefur verið trúr sínum bæ frá fæðingu og fram á þennan dag. Því varð ég að komast yfir æviminningar Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal á dögunum, enda hefur Jón Kr. frá mörgu að segja á löngum lífsferli þá ekki síst af samferðamönnum sínum lífs og liðnum.

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með bókina. Skrásetjari hennar er annar góður Bílddælingur, Hafliði Magnússon sem gert hefur lífinu á nýsköpunartogurum góð skil og þeim ýmsu skemmtilegu karakterum sem þar störfuðu og því bjóst ég við fjörlegri lýsingum á mönnum og málefnum. Það rættist þó ekki því bókin reyndist of mikið bundin við söngferil Jóns og minningar hans af prestum staðarins og safnaðarstarfi, en alls ekki farið mikið í minningar hans af samferðamönnum sínum á Bíldudal fyrr og síðar.

Það er alveg ljóst að ævi Jóns og saga Bíldudals á seinni tímum eru samofin órjúfanlegum böndum, svo órjúfanlegum að ekki er hægt að minnast á sögu annars öðruvísi en að skrifa rækilega um hinn í leiðinni. Þetta vantar að miklu leyti í bókina. Í tilraunum til að hvítþvo allt og alla af einkennum sínum eru æskuminningar kappans afgreiddar í örfáum orðum.

Það er vissulega aðeins getið stöku merkismanns eins og Bjarna senjórs og Ingólfs bróður hans, en alls ekki nóg, enda mikil tengsl á milli Jóns Kr. og þeirra bræðra og náfrænda þeirra Inga Rafns sem hvergi er getið. Annarra er í engu getið, hvergi er nefndur Sigurður frá Uppsölum í Selárdal, bróðir Gísla og Jóns vinar hans í Valhöll er einungis minnst á einni mynd.Þá er fátt sagt af fóstra Jóns Kr., Hallgrími Ottóssyni. Það er ástæða til að nefna þetta því það virtist mikil og góð vinátta á milli þessa fólks og Jóns Kr. og fékk ég á tilfinninguna að sumt þetta fólk héldi hlífiskildi yfir honum er hann var ungur og óreyndur í lífsins ólgusjó og jafnvel fordæmdur af fólki utan síns nánasta umhverfis.

Þessa fólks og fjölda annarra er kannski minnst annars staðar, en það birtist okkur kannski í minningarbrotum þó síðar verði, enda af nógu að taka.


0 ummæli:Skrifa ummæli