þriðjudagur, desember 23, 2008

23. desember 2008 - Af rýrnun lífeyrissjóðs

Ég skrapp á fund hjá Lífeyrissjóðnum Kili á mánudag. Ekki var við miklu að búast því bæði er framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins sá hinn sami sem fjárfest hafði dyggilega í helstu þjófafyrirtækjum Íslandssögunnar fyrir hönd Íslenska lífeyrissjóðsins með hrikalegri rýrnun í kjölfarið, en einnig kann það aldrei góðri lukku að stýra að halda fund tveimur dögum fyrir jól.

Það var ekki liðinn langur tími af fundinum þegar ljóst var að ekki átti að segja allan sannleikann. Endurskoðandinn sem játaði að starfa hjá KPMG, neitaði að gefa upp hjá hvaða fyrirtækjum lífeyrissjóðurinn hefði fjárfest hjá, en stjórnarformaðurinn hélt því fram að það væru engin fjárglæfrafyrirtæki á listanum. Það er nú gott til þess að vita að Baugur, Stoðir og Exista svo nokkur séu nefnd, eru ekki fjárglæfrafyrirtæki með vafasama starfsemi. Þessi fyrirtæki og mörg önnur í svipuðum dúr komu nefnilega við sögu á fundi Íslenska lífeyrissjóðsins fyrir sex dögum síðan sbr. færslu mína hér að neðan..

Á fundinum kom fram að að rýrnun lífeyrissjóðsins Kjalar hefði verið um 15% að nafnverði á ellefu mánaða tímabili. Á sama tíma var verðbólgan um 18% sem segir að raunrýrnunin var í reynd nærri þriðjungur. Þegar hér var komið á fundinum voru gömlu mennirnir sem höfðu lagt ævistarf sitt í sölurnar í vinnu fyrir Eimskip komnir í reiðiham og fundurinn leystist nánast upp fyrir bragðið.

Ég skil þá félaga alveg mætavel, enda get ég ekki leikið sama leikinn með lífeyrissjóðinn Kjöl og ég gerði á dögunum með Íslenska lífeyrissjóðinn og flutt allt mitt með mér á öruggari stað.

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/747154/

-----oOo-----

Ég vona að lífeyrisþegar Lífeyrissjóðsins Kjalar fái að njóta rausnar Ketkróks í nótt.


0 ummæli:Skrifa ummæli