mánudagur, júní 30, 2008

30. júní 2008 - Ál gegn áli!

Ég rakst á góða vinkonu mína sem um leið er ein skærasta stjarnan innan Vinstrigrænna á föstudagskvöldið og innti hún mig eftir því hvort ég ætlaði ekki að mæta á tónleikana í Laugardalnum á laugardag. Samvisku minni trú þrátt fyrir einlægan áhuga minn á Þvottalaugunum, lét ég hana vita að ég yrði fjarri góðu gamni á fjöllum þetta sama síðdegi og fremur en að móðga bæði hana og son minn sem er einlægur aðdáandi Sigurrósar, sleppti ég því að bæta við að ég vildi heldur hlusta á vælið á alvörufuglum en vælið í söngfuglum.
Á sunnudag gaf Vísir.is í skyn að sumir áheyrendur á tónleikunum virtust hafa misskilið boðskapinn og skilið eftir sig mikið magn af áli í formi drykkjaríláta.

http://visir.is/article/20080629/FRETTIR01/680636992

Sumir vita að ég hefi löngum verið höll undir áliðnað. En úr því ég fæst ekki til að snúa af vondri braut minni með tónleikum, verð ég að fara fram á það við ykkur sem lesið orð mín að þið segið mér hvað er svona hræðilega vont við ál sem getur orðið til þess að ég snúi af villubrautinni.

Það þýðir ekkert að koma með slagorð, einungis staðreyndir takk!

-----oOo-----

Í dag eru liðin 40 ár síðan Kristján Eldjárn var kosinn forseti Íslands, kosningar sem um leið sýndu að meirihluti Íslendinga er í eðli sínu vinstrisinnaður.

sunnudagur, júní 29, 2008

29. júní 2008 - Leggjarbrjótur lagður að velli

Úr því ég er komin af stað að nýju í gönguferðirnar er algjört skilyrði að rölta þá frægu gönguleið sem kennd er við Leggjarbrjót og liggur á milli Hvalfjarðar og Þingvalla. Að þessu sinni fór ég ekki ein, heldur plataði Sverri kunningja minn til að rölta með, en hann hefur gengið áður með mér, t.d. á Vífilsfellið og Fanntófell.

Eitthvað vorum við lengi að koma okkur í gírinn, koma þeim vinstrigræna í stæði nærri Svartagili í Þingvallasveit og halda síðan að Stóra-Botni í Hvalfirði þar sem hinn bíllinn var skilinn eftir. Klukkan var því um tvö þegar lagt var upp frá Stóra-Botni, en sú leið var valin þótt sé almennt talin verri, en vegna leiðinda norðanáttar þótti skynsamlegra að vera með vindinn í bakið.

Það var gaman þótt erfitt væri að ganga úr Hvalfirðinum og reyndar alla leiðina að Sandvatni þar sem tekin var góð pása. Leiðin frá Sandvatni yfir hinn eiginlega Leggjarbrjót og áfram til Þingvalla var ekki eins skemmtileg þótt hún væri meira niður á móti, stórgrýtt nánast alla leið þótt stór hluti niðurferðarinnar væri í einhverjum troðningi. Það gefur auga leið að ég átti ekki til nógu sterk lýsingarorð yfir hina þægilegu Selvogsgötu í samanburði við þennan andskota sem Leggjarbrjótur kallast. Ekki er það til að bæta úr að talsverður fjöldi var á gangi á laugardeginum sem er eitthvað annað en Selvogsgatan, en ég hefi aldrei mætti lifandi manneskju þar á sveimi fyrr en komið er niður að Kaldárseli.

Með Leggjarbrjótnum er ég búin að ljúka tveimur af fjórum áætluðum dagsgöngum sumarsins. Núna eru Síldarmannagötur eftir í báðar áttir sem og vonandi Látrabjargið sem auðvitað hlýtur að teljast lokatakmark þessa sumars, en auk þeirra hefðbundnar fjallgöngur í nágrenni Reykjavíkur.

laugardagur, júní 28, 2008

28. júní 2008 - Ó, ég þekkti þig ekki í fötum!

Á föstudagskvöldið var haldin afmælis- og fagnaðarhátíð Samtakanna 78 í Hafnarhúsinu og auðvitað var ég þar. Eins og gefur að skilja var allt litróf regnbogafánans statt í samkvæminu, allar gerðir fólks, samkynhneigt þó í meirihluta, flottasta fólk bæjarins sem og það mest útlifaða, prestar og alþingismenn, verkamenn og húsmæður, vélfræðingar og háskólafólk.

Ég gaf mig á tal við glæsilega konu í léttum sumarkjól, taldi mig þekkja hana en kom henni ekki fyrir mig í fyrstu andrá. Einhver kynnti okkur og orðin í fyrirsögninni voru komin fram á tungubroddinn þegar ég áttaði mig og náði að hemja mig. Ég hefði sennilega orðið mér til skammar hefðu þau komist alla leið enda var þetta í fyrsta sinn sem ég sá séra Ásu Björk Ólafsdóttur fríkirkjuprest án prestakragans.

föstudagur, júní 27, 2008

27. júní 2008 - Er baráttunni þá lokið?

Í dag er blásið til fagnaðar. Það tók einungis 30 ár og nokkra daga að vinna fullnaðarsigur gagnvart lagasetningavaldinu og öðlast full réttindi samkynhneigðu fólki á Íslandi til handa. Og blaðamenn spyrja hvort baráttunni sé þá ekki lokið?

Það er enn löng og erfið leið framundan. Þótt Alþingi og ríkisstjórn hafi viðurkennt tilverurétt samkynhneigðra og þjóðkirkjan opnað dyr sínar fyrir samkynhneigðum er slíkt enginn lokasigur. Það er enn til fólk þarna úti sem neitar að horfast í augu við þá staðreynd að til er fólk sem er samkynhneigt. Því fólki fer að vísu fækkandi, en á meðan fordómar eru til verður að halda baráttunni áfram. Þá má ekki gleyma því að Samtökin 78 eru virk í alþjóðlegri baráttu Amnesty International og IGLHRC fyrir mannréttindabaráttu LGBT hópa (samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks) um allan heim.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær benti Frosti Jónsson formaður Samtakanna 78 á það tómarúm sem aðrir hópar búa við í samfélaginu og benti sérstaklega á transgender einstaklinga, en ríkisvaldið hefur hingað til lokað augunum fyrir tilverurétti og forðast að takast á við málefni okkar, í besta falli bent á úrelt og hlægileg nafnalög sem ástæðu til að þegja mál okkar í hel. Þar er enn reynt að hjúpa málin með þögninni.

Þegar ég horfi aftur í tímann, á síðustu tólf árin sem liðin eru frá því ég kom heim frá Svíþjóð, hefur í reynd ekkert þokast í réttindamálum transgender fólks á Íslandi. Einasta breytingin hefur átt sér stað hjá almenningi sem smám saman hefur aukið traust sitt í okkar garð, en hið opinbera vald heldur áfram að hunsa okkur.

Það hefur vissulega margt gerst á bakvið tjöldin. Íslenska þjóðin veit nú að við erum til og íslenska þjóðin er farin að taka tillit til málefna okkar. Þá hefur nefnd sem á sínum tíma var sett á laggirnar að frumkvæði Ólafs Ólafssonar þáverandi landlæknis, bætt verulega störf sín með auknu frjálsræði og vönduðum vinnubrögðum gagnvart þeim einstaklingum sem sækjast eftir leiðréttingu á kyni. Eftir sitja nafnalögin, hin heilaga kýr sem undirstrikar mannréttindabrotin gagnvart okkur.

Um leið og ég óska öllu samkynhneigðu fólki til hamingju með glæsilegan árangur baráttu sinnar á Íslandi, ítreka ég enn og aftur að baráttunni er hvergi nærri lokið.

LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender
IGLHRC = International Gay and Lesbian Human Rights Commisson.

fimmtudagur, júní 26, 2008

26. júní 2008 - Þjóðsöngvar allra landa sameinist!

Sú var tíðin að ég þjáðist af þjóðrembu. Þegar ég var sem verst mátti ég ekki sjá útlending án þess að fyllast viðbjóði og þótt ég hafi læknast að mestu á mörgum árum sem ég sigldi á milli landa, eimdi enn af þessari þjóðrembu minni þegar ég flutti til Svíþjóðar árið 1989. Þar hurfu síðustu leifarnar af þjóðrembunni þótt enn sé ég ósátt við einstöku menningarþætti þjóða sem eru okkur fjarlægar í háttum auk þess sem mér rennur enn vatn á milli skinns og hörunds er ég heyri Íslending syngja á útlensku á Íslandi.

Meðal þeirra þátta sem taldir eru tilheyra þjóðerni eru fáni og þjóðsöngur og um hvorutveggja hafa verið sett lög á Íslandi. Ef þarf að hvetja til samstöðu þjóðarinnar nægir að veifa fánanum og þá berja sér allir á brjóst og vaða út í opinn dauðann með þjóðsönginn á vörunum. Íslenski þjóðsöngurinn er ekki þesslegur að við syngjum hann á banabeði á vígvellinum, enda gamall lofgjörðarsálmur, en fáninn stendur fyllilega fyrir sínu. Bara verst að við eigum enga óvini til að berjast við þrátt fyrir vonda tilraun Davíðs og Halldórs til að eigna okkur slíkan fyrir fáeinum árum.

Í stað raunverulegra óvina hefur íslenska þjóðin eignast „óvini“ á íþróttavellinum. Þar skilur á milli mín og þjóðarinnar þar sem ég get ekki sagt sumum þjóðum stríð á hendur á íþróttasviðinu. Ég er oft hrifin af Þýskalandi, stundum Svíþjóð en sjaldnast Íslandi á því sviði. Helst er ég þó hrifin af einstaklingum sem standa uppúr og eru öðrum fremri. Í Evrópukeppninni sem senn fer að ljúka var ég hrifnust af Hollandi vegna frábærrar frammistöðu þeirra fyrstu leikina. En svo fór sem fór.

Ég hafði lúmskt gaman af þjóðsöngvunum. Þótt þýski þjóðsöngurinn sé sá sem blæs mér baráttu í brjóst, fóru Ítalirnir með yfirburðasigur þegar þeir sungu þjóðsönginn sinn í upphafi hvers leiks. Í síðasta leiknum sem þeir spiluðu, gegn Spáni, sungu allir Ítalirnir hástöfum þjóðsönginn sinn misjafnlega fölskum rómi á meðan Spánverjarnir steinþögðu þegar þeirra þjóðsöngur var leikinn. Allir vita hvernig fór en Ítalirnir fóru heim í sumarfrí sáttir við sína frammistöðu, enda urðu þeir Evrópumeistarar í þjóðsöngnum.

Kannski þarf að finna hvetjandi þjóðsöng með alþýðlegu lagi til að ég fari að þjást af þjóðrembu á ný.

miðvikudagur, júní 25, 2008

25. júní 2008 - Leitað að óargardýrum á Selvogsgötunni!

Í tilraunum mínum til að finna ísbirni og önnur óargardýr í nágrenni Reykjavík hélt ég í göngu á þriðjudaginn og byrjaði í nágrenni við fæðingarstað langalangömmu minnar í Herdísarvík. Þar var ekki mikið um ísbirni hvorki í eða án sauðagæru enda búið að loka svæðinu með rafmagnsgirðingu merktri Sauðfjárveikivörnum. Ekki sá ég heldur neina fýla né ljón og einasta fjallageitin var steingeitin ég. Eftir nærri tveggja tíma labb norðaustur með girðingunni fann ég loks tröppur yfir girðinguna og af ummerkjum að dæma, þóttist ég vita að nú væri ég komin að Selvogsgötunni.

Eftir það hélt ég norður í óvissuna uns ég kom að Kaldárseli í Hafnarfirði nokkrum klukkutímum síðar. Fátt óvænt sá ég á göngunni utan eina og eina lóu sem kallaði á nöfnur sínar og varaði við mannaferðum. Ég lenti einu sinni í hagléli og kröftugum regnskúr og varð það helsta hættan sem ég kynntist á leiðinni, en slíku er auðvelt að mæta með regnfatnaði.

Þegar ég hélt niður frá Grindarskörðum sá ég skrýtið spor í brekkunni og hefði haldið að þar hafi farið sovéskur kafbátur á skriðbeltum ef ekki hefði verið fyrir þá sök að Sovétmenn eru hættir að hrella sænsk hernaðaryfirvöld með slíkum farartækjum í sænska skerjagarðinum. Þá eiga sovéskir kafbátar erfitt um vik að athafna sig í 450 metra hæð yfir sjávarmáli. Því dró ég þá ályktun að þarna hefðu unglingar á torfærumótorhjólum verið að tæta upp viðkvæman jarðveginn. Enn voru ísbirnir saklausir.

Síðar rakst ég á spor eftir snjómanninn ógurlega í Þríhnúkahrauni austan Helgafells í Hafnarfirði. Ég hefði vafalaust hringt í sjónvarpið, Landhelgisgæslu og sérsveit lögreglu ef ég hefði ekki vitað að Snjómaðurinn ógurlegi hefur aldrei fundist á Íslandi og sennilega útdauður líka enda voru sporin orðin að steini. Skömmu síðar rakst ég á nýleg spor eftir ísbirni, en þeir ísbirnir voru greinilega í feluleik enda notuðu þeir hófa til að fela ummerkin eftir sig.

Loksins taldi ég mig hafa fengið stóra vinninginn eftir langa og erfiða göngu. Ég sá skógarbjörn einn mikinn er ég var komin framhjá Helgafelli, en mikil voru vonbrigðin þegar nær dró því þetta var bara hann Snati litli í fylgd tveggja stúlkna sem virtust alveg óhræddar við hann. Allavega líktist ekkert þeirra ísbjörnum.

Ég er sólbrunnin í andlitinu. Ekki orð um harðsperrur.

25. júní 2008 – Enn ein herferðin gegn of háu bensínverði

Nokkrir aðilar hafa sent mér áskorun um að hætta að versla bensín við Shell og Neinn þar til verðið hefur lækkað því eins og þeir segja, olíufyrirtækin ráða yfir umtalsverðum hluta af bensínverðinu.

Þegar ég sé myndasýninguna sem ber það með sér að þeir sem bjuggu hana til er nýbúnir að uppgötva ágæta eiginlega PowerPoint myndakerfisins, þá get ég ekki hrifist með, gengið á torg og hafið að berjast gegn olíufurstunum, allavega ekki á þeim forsendum sem höfundarnir hafa lagt upp með. Til þess er bjartsýnin of mikil og sigurinn auðveldur.

Höfundarnir halda því fram að miklu meira sé til af olíu í heiminum nú en fyrir 35 árum. Það getur hver sem er séð í hendi sér að staðhæfingin er röng. Það minnkar sem af er tekið. Það sem höfundarnir eiga sennilega við er að það er vitað um meiri olíu í dag en fyrir 35 árum, en sú olía fer líka þverrandi.

Þá benda höfundarnir á ranga aðila sem verstu okrarana. Ef olíufélögin myndu minnka álagningu sína niður í núll, myndi olíuverðið lækka eitthvað, kannski niður í 140-150 krónur. Ég veit ekki hversu mikið, enda skiptir það ekki öllu máli. Olíuverðið yrði samt of dýrt þótt öll olíufélögin færu á hausinn vegna engrar álagningar.

Stóri okrarinn í málinu eru ekki olíufélögin, heldur Ríkið. Ríkisstjórn og Alþingi viðhalda háu olíuverði, ekki vegna þess að það sitji svo hræðilega illir aðilar við stjórnvölinn, heldur vegna þess að ef skattar yrðu ekki teknir af bensínverðinu, yrðu þeir bara teknir einhversstaðar annars staðar. Þá verður að hafa í huga að vesalings Ríkið er í peningavandræðum og þarf að slá há lán til að bjarga vesalings bönkunum svo við getum haldið áfram að fá lán fyrir stærri og flottari bíl sem eyðir meira bensíni.

Þetta kemur svo háu heimsmarkaðsverði lítið við.

Það er því bara eitt að gera ef fólk vill kvarta yfir háu bensínverði, kjósa með fótunum og labba, eða nota reiðhjól.

þriðjudagur, júní 24, 2008

24. júní 2008 - Afsturlunarte á Jónsmessunótt

Í dag hafa dunið á landslýð auglýsingar frá til þess bærum yfirvöldum þar sem fólki er boðið upp á að spjalla við kýr og baða sig í dögginni í nótt ásamt einhverju fleiru sem ég kann ekki að nefna. Eitt vakti þó athygli mína. Það er boðið upp á afsturlunarte í Húsdýragarðinum.

Þótt ég sé ekkert sérstaklega hrifin af störfum þessara manna, finnst finnst mér þetta ekki rétt leið til að losna við fyrrverandi samgönguráðherra og hrellir þess núverandi af vettvangi stjórnmálanna.

mánudagur, júní 23, 2008

23. júní 2008 - Engir ísbirnir í Elliðaárdal né á Reykjanesskaga

Það hefur löngum verið hægt að rekast á allskyns kynjaskepnur í Elliðaárdalnum á góðviðrisdögum. Þannig minnist ég þess er ég var einhverju sinni á bakvakt með Elliðaárstöðinni ásamt vatnasvæði stöðvarinnar, að ég þurfti að fara sérstaka eftirlitsferð vegna einhvers furðufugls sem hafði verið að bera sig fyrir smástelpum. Sá var svo heppinn að löggan náði honum á undan mér. Það hefði orðið saga til næsta bæjar ef frést hefði opinberlega af mér hlaupandi á eftir dónanum.

Ég fór í langa göngu um Elliðaárdalinn á sunnudag og sannfærðist um að hvorki ísbjörn né dóni væru þar á ferð. Ég komst heil heim og las þá á vefMogganum að gæslan hefði ekki fundið neinn ísbjörn á norðurslóðum, þó að frátöldum hvítum hesti nærri Skagatá. Ekki nægði þetta alveg til að sannfæra mig um ísbjarnalaust Ísland og hélt ég því í sérstaka ferð suður að Selvogi ásamt nágrannakonu minni. Þar gægðumst við upp fyrir skarðið sem er næst austan við Nátthagaskarðið og inn eftir Selstígnum. Þótt við hefðum farið mjög hljóðlega upp eftir troðningum og að vörðunni reyndist ekkert kvikt né hvítt þar á ferð nema auðvitað ef ísbirnirnir hafi verið komnir í hvítar sauðagærur því nóg var af sauðfénu í næsta nágrenni.

Það ætti því að vera óhætt fyrir Þórð stórkaptein og aðra sauðmeinlausa göngufélaga að ganga með Selvogsgötuna einhvern næstu dagana og fullvissa ég hann um að við munum ekki rekast á neina ísbirni á leið okkar til Hafnarfjarðar, en þar hefur ekki sést ísbjörn síðan Sædýrasafnið lokaði.

sunnudagur, júní 22, 2008

22. júní 2008 - Ný tölva

Ég man fyrir um 15 árum að mig langaði til að eignast tölvu og spurði sænskan vinnufélaga minn að því hvernig tölvu ég ætti að fá mér. Ekki stóð á svörunum og mæltist hann til þess að ég fengi mér tölvu með stýrikerfinu 386 með 4 mb vinnsluminni fremur en 2 mb, og hraðinn þyrfti að vera 66 mhz sem væri öllu öflugra en 33 mhz tölurnar sem þá voru vinsælastar á markaðnum, en harði diskurinn yrði að vera minnst 200 mb. Auðvitað yrði tölvan að vera hæf til notkunar á því flottasta sem nú væri komið, netinu.

Þessa dagana er ég að farast úr snobbi. Um daginn eignaðist ég nefnilega nýja tölvu, þriðju borðtölvuna sem ég hefi eignast, en auk þeirra hefi ég átt tvær fartölvur. Sú nýjasta er auðvitað langflottust og svo flott að það rignir niður í nasirnar á mér af snobbi þegar ég byrja að dásama gripinn, Dell XPS-420-V með 2 GB Dual vinnsluminni, 320 Gb hörðum diski og einhverjum lifandis helling af allskyns möguleikum sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Auk þessa er ég með 500 Gb utanáliggjandi harðan disk fyrir tónlist og ljósmyndir Að sjálfsögðu er ég með Microsoft Vista Ultimate til að stýra kerfunum í tölvunni og Microsoft Office Ultimate fyrir daglega vinnslu, þráðlaust lyklaborð og mús og allskyns aðra möguleika sem ég kann ekki að nefna, enda kostaði tölvan nánast æruna.

Ég hafði ætlað mér að ganga Selvogsgötuna á laugardag, en allur dagurinn fór í að setja upp kerfi í nýju tölvunni, landakortin mín og Frissa fríska í stað Makkaffí. Það gefur auðvitað auga leið að ekki hefði fundist tækifæri til að ganga eitt né neitt þegar ung vinkona mín kom til að hjálpa mér við tölvuvinnuna.

-----oOo-----

Miðað við viðbrögðin hefði ég átt að skrifa um Lúkas eða meintan dýraníðing á laugardag, en ég ætla ekki að gera það. Ekki ætla ég heldur að skrifa um skuggann af hollenska landsliðinu í fótbolta né um 42 ára sjómennskuafmælið mitt. Þess í stað langar mig til að minnast ferfætts vinar míns sem bjó hér í blokkinni.

Grámann var fressköttur sem hélt að hann væri hundur, allavega hringaði hann skottið eins og íslenskur fjárhundur og var auk þess hvers manns hugljúfi. Ef hann sá einhvern koma að húsinu fylgdi hann með inn í húsið eins og Tryggur, en það var nóg að opna dyrnar út í garðinn og hann hélt rakleiðis út garð í stað þess að hlaupa upp til sín, en hann átti heima á hæðinni fyrir neðan mig. Um daginn var hann í rannsóknarleiðangri nærri Osta- og smjörsölunni þegar bíll kom og ók á hann og varð það hans bani.

Grámanns verður sárt saknað af íbúum hússins.

þriðjudagur, júní 17, 2008

17. júní 2008 - Hér stöndum við með stjarfa hönd á pung!


Þessi yfirskrift gæti allt eins átt við Evrópukeppnina í fótbolta sem nú fer fram í Sviss og Austurríki og oft hefur mér dottið þessi ljóðlína úr Heilræðavísum til hugar þegar ég sé varnarmennina standa frammi fyrir boltanum þegar aukaspyrna er tekin. Ástæða þess að ég kalla fram þessi orð er þó önnur og betri.

Á sautjánda júní var tilkynnt hver væri borgarlistamaður Reykjavíkur næsta árið og í tilefni af því var blörraður borgarstjóri sem fæddur á Akureyri sýndur við afhendingu þessarar viðurkenningar til Þórarins Eldjárn sem ættaður er úr Svarfaðardal. Í þakkarávarpi þakkaði Þórarinn Reykvíkingum heiðurinn. Hann hefði þó fremur átt að þakka pabba og mömmu fyrir að hafa getið sig, fætt og alið upp í Reykjavík.

Þessi skortur á þakklæti Þórarins breytir þó ekki því að einasta ljóðið sem ég man af hans hálfu og Kristins Einarssonar var undir plakati á heimili mínu í fleiri ár fyrir um þremur áratugum, en plakatið góða var gert af grafiklistakonunni Sigrúnu Eldjárn sem af einhverri ótrúlegri tilviljun er systir borgarlistamannsins.

Með þessu óska ég borgarlistamanninum hjartanlega til hamingju með heiðurinn sem og borgarstjórn sem með þessu hefur tekist að framkvæma eina jákvæða ákvörðun á stuttum ferli sínum.

Heilræðavísur Þórarins Eldjárn og Kristins Einarssonar:

Hér stöndum við með stjarfa hönd á pung
því stjórnin ætlar brátt að reka herinn.
Hnýttar brúnir, lundin þykkjuþung,
þrotið hermangsfé og tæmd öll kerin.

Ef herinn fer þá fer vort eina traust,
þó finnst eitt ráð við því ef þú ert slunginn:
Ef landið okkar verður varnarlaust
er vörn í því að halda fast um punginn.

---

Að lokum vil ég taka fram að löngu síðar fékk ég annað og betra álit á Þór Vilhjálmssyni vegna starfa hans innan Mannréttindadómstóls Evrópu en ætla mætti af hrifningu minni á plakatinu góða.

mánudagur, júní 16, 2008

16. júní 2008 - Hryllilegt glæpaverk

Kona ein í Saudi-Arabíu hefur verið staðin að verki við að fremja hryllilegan glæp. Ekki var þetta neinn smáglæpur á borð við hórdóm eða morð. Þetta var öllu verra. Hún var staðin að verki við að aka bifreið. Það hafði meira að segja gengið svo langt að hún var ekki stöðvuð fyrr en hún hafði ekið eina tíu kílómetra á leið sinni til að sækja eiginmanninn í vinnuna.

Eiginmaðurinn í þessu vinaríki Georges Dobbljú hefur verið látinn skrifa upp á að leyfa ekki konu sinni né öðrum húsdýrum að aka bifreið aftur.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=793999

laugardagur, júní 14, 2008

14. júní 2008 - Hollendingarnir fljúgandi

Ég ætlaði að vera komin í sumarfrí frá blogginu, en ég get bara ekki þagað. Ég mun seint teljast til mikilla aðdáenda íslenskrar knattspyrnu, hvað þá erlendrar. Það fór þó ekkert á milli mála á föstudagskvöldið að Fylkir gjörsigraði Fram í fótbolta og ég sat eins og asni fyrir framan sjónvarpið mitt og fagnaði hverju marki þótt ég haldi með KR. Kannski ekki Fylki beint þótt ég búi í Árbæjarhverfi, heldur voru Hollendingar að pakka saman fyrrum heimsmeisturum Frakklands í landsleik í fótbolta, einungis örfáum dögum eftir að þeir burstuðu núverandi heimsmeistara Ítalíu.

Mín lið í boltanum eru að sjálfsögðu 1. Svíþjóð; 2. Þýskaland. Þótt ég teljist seint til sérlundaðra áhorfenda knattspyrnuleikja, get ég ekki annað en dáðst að hollenska landsliðinu og létts og heiðarlegs leiks þeirra sem er í öfugu hlutfalli við einhvern arfaslakasta leik Þýskalands sem ég hefi séð. Leikur Þýskalands gegn Króatíu á dögunum var eins og leikur Grindavíkur gegn Breiðablik, semsagt engin reisn yfir honum.

Ef Holland vinnur ekki Evrópumótið fer ég í alvarlega fýlu.

-----oOo-----

Svo fær sonardóttirin afmæliskveðjur í tilefni níu ára afmælisdagsins.

föstudagur, júní 13, 2008

Föstudagur 13. júní 2008 - Ææææ, vesalings Bregovic!

Þótt ég hafi ætlað mér að vera komin í sumarfrí frá blogginu get ég ekki þagað yfir nýrri frétt í Dagens nyheter.Þar er sagt frá því að tónlistarmaðurinn Goran Bregovic sem er í miklu dálæti á Íslandi, hafi fallið fjóra metra niður úr kirsuberjatré í gær við heimili sitt í Senjak nærri Belgrað og orðið fyrir alvarlegum hryggskaða.

Ég þykist þess fullviss að aðdáendur Goran Bregovic sendi honum hugheilar kveðjur og óskir um bata.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2374&a=778987

Um leið spyr ég: Er Bregovic á myndinni sem ég tók í Torino á Ítalíu haustið 2006? Tónlistin sem ég heyrði var dæmigerð fyrir Bregovic:

http://images14.fotki.com/v361/photos/8/801079/4304397/IMG_1375-vi.jpg

Föstudagur 13. júní 2008 - Sumarið er komið!

Það eru víða byrjuð sumarleyfi á Íslandi. Búið er að loka skólunum og Alþingi er lokað og þingmenn farnir heim í hérað að sinna ærburði (sauðburður er álíka mikið öfugmæli og undantekningin sem sannar regluna) og að undirbúa sláttinn. Þá er sjónvarpið komið í sumarfrí og fatt annað að að hafa þar en fótboltaleikir.

Við slíkar aðstæður er fátt að gera annað en að fara líka í sumarleyfi. Ég verð frá vinnu næsta mánuðinn og vonast til að geta sett tærnar upp í loft á meðan og jafnvel farið eina og eina gönguferð. Um leið sé ég enga ástæðu til að blogga daglega, en óttist eigi. Gömlu pistlarnir mínir verða öllum aðgengilegir þótt ég verði víðs fjarri og aldrei að vita nema ein og ein færsla læðist inn, t.d. í þeim tilfellum sem blörraður borgarstjóri gerir eitthvað skammarstrik af sér.

Að undanförnu hefi ég fengið nokkrar skammir fyrir að vera hægrisinnuð af því að mér líkar ekki málflutningur Bjarkar Guiðmundsdóttur í umhverfismálum, sömuleiðis fyrir að vera umhverfissóði af því að ég styð uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi svo ekki sé talað um baráttuna gegn því að gera nótt að degi á Seyðisfirði og leggja niður sólarleysismánuðina á Ísafirði. Til að lofa lesöndum mínum að skamma mig eilítið betur ætla ég því að setja inn gamla færslu um ál sem birtist áður 3. febrúar 2007 og sýnir ágætlega hug minn til þessa eðalmálms á sama tíma og ég mótmæli atvinnuuppbyggingu á Bíldudal með því að sá atvinnulausi fái vinnu í olíuhreinsunarstöðinni sem ég vona að muni aldrei rísa.

Mig langar til að fjalla aðeins um hinn hataða málm ál sem virðist bannfærður í stjórnmálaumræðunni á Íslandi.

Þessi málmur er til margra hluta nytsamlegur, hann leiðir vel, hann er léttur eða aðeins þriðjungur af eðlisþyngd stáls. Hann er sterkur og þolinn og er notaður allt í kringum okkur. Sagt er að í Boeing 747 risaþotu séu um 75 tonn af áli. Ef stál væri notað þar í stað áls, kæmist fullhlaðin flugvélin trúlega aldrei á loft og jafnvel þótt finna mætti flugvöll sem væri nógu langur til að hún kæmist í loftið, þyrfti hún að lenda aftur á næsta flugvelli til að taka eldsneyti. Með öðrum orðum. Notkun áls í farartæki hefur gert það að verkum að þau brenna miklu minna eldsneyti en annars væri. Smábíll þeirrar gerðar sem Ómar Ragnarsson dreymir um, yrði á annað tonn að þyngd ef ekki væri vegna álsins í honum. Sömu sögu má segja um flugvélina hans. Hún myndi eyða óhemju eldsneyti í flugtaki ef ekki væri vegna álsins í Frúnni.

Þægindin við meðhöndlun efnisins hefur gert að verkum að útbreiðslan eykst stöðugt. Jafnvel þótt komnir séu nýir og léttari málmar á markaðinn eins og magnesíum eru þeir enn ekki samkeppnishæfir við ál í verði. Því mun ál verða ráðandi á markaðnum í mörg ár í viðbót auk þess sem einnig þarf dýrar og orkufrekar framleiðsluaðferðir við magnesíumvinnslu.

Það er álinu að miklu leyti að þakka að enn er ekki orðin olíuþurrð í heiminum.

Á Íslandi hefur tekist að skapa mjög neikvætt andrúmsloft gagnvart áliðnaði og menn sem kalla sig umhverfisverndarsinna ganga á torg og mótmæla þessum ágæta léttmálmi á sama tíma og heimurinn krefst meira áls. Það er ljóst að ef álið verður ekki framleitt á Íslandi, verður það framleitt annars staðar, hugsanlega með rafmagni sem framleitt er með olíu eða kolum með verulega auknum gróðurhúsaáhrifum.

Ég held að það sé kominn tími til að snúa umræðunni við og fagna framleiðslu léttmálma á Íslandi. Það er svo önnur saga að mikið af notuðu áli endar á haugunum í stað þess að fara í endurvinnslu og mætti gjarnan bæta við einu álveri til að endurvinna gamalt ál.


Ég læt heyra í mér í næsta mánuði eða fyrr ef ástæða þykir til.

fimmtudagur, júní 12, 2008

12. júní 2008 - Bensínsparnaður?

Á þessum síðustu og verstu tímum er mikið rætt um kostnað við að koma sér til og frá vinnu. Sjálf brosi ég út í annað og monta mig af því að vera einungis fimm mínútur að ganga í vinnuna um leið og ég hæðist að þeim sem bera sig aumlega yfir eldsneytiskostnaðinum.

Umleið rifjast upp fyrir mér hegðun vinnufélaga míns í Svíþjóð sem hringdi einhverju sinni og tilkynnti að sér seinkaði á vaktina sökum þess að bílinn færi ekki í gang. Hneyksluðust þá sumir því pilturinn bjó í tíu mínútna göngufæri við vinnuna.

Það væri gaman að vita hversu mikið er um slík fyrirbæri á Íslandi.

miðvikudagur, júní 11, 2008

11. júní 2008 - Barnaleg Björk og kjánaleg Condolezza!

Aldrei datt mér í hug að ég og Árni Johnsen ættum eftir að vera sammála í einu né neinu. En nú hefur undrið skeð því með grein í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins á þriðjudag birtist grein eftir Árna sem var sem beint úr mínu hjarta.

Í grein sinni bendir Árni á þann barnaskap sem poppstjörnur og aðrir listamenn láta frá sér fara er þau álpast til að eyða einni nóttu á ári á Íslandi og nota þá tækifærið til að reyna að hafa vit fyrir þjóðinni og tala þá oft þannig að fólk eigi bara að hlusta á gáfumennin, hætta að byggja upp landið sitt og fara á kaldan klaka, allt fyrir mikla náttúrufegurð (mitt orðalag). Um leið bendir Árni á „hollráð“ frá erlendum stjórnmálamönnum og sérfræðingum sem eru að segja okkur hvernig við eigum að lifa á Íslandi á þeirra forsendum, en ekki okkar. Síðasta dæmið er yfirlýsing utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem harmar að Íslendingar skuli hafa hafið hvalveiðar á ný. Sjálfir eru Bandaríkjamenn mestu hvalveiðimenn í heimi. Þá virðist ekkert varða um þótt hvalir kunni að éta okkur út á gaddinn.

Ég þarf ekkert að éta allt upp eftir Árna Johnsen en hvet fólk til að lesa grein hans um leið og ég frábið íslensku þjóðinni þess að fá aðra eins heimsókn og Condolezzu á dögunum sem reyndi að benda okkur á flísina í auga okkar um leið og hún sá ekki bjálkann í sínu samanber svar hennar við gagnrýni á fangabúðirnar í Guantanamo.

þriðjudagur, júní 10, 2008

10. júní 2008 - Seinkum klukkunni!!!!

Hér með skora ég á ríkisstjórnina að seinka klukkunni til hins eina raunverulega tíma, þ.e. að miða tímabeltið á milli 15° og 30° gráður vestur við sólarstöðu, þ.e.einni klukkustund seinna en GMT og bæta þannig lífsgæði íslensku þjóðarinnar.

Seyðfirðingar geta svo bara hunskast fyrr í rúmið á kvöldið og byrjað að vinna fyrir hádegi svo þeir geti notið sólar eftir vinnu í stað þess að gera sig að fíflum með kröfunni um að vera á sama tíma og Bratislava í Slóvakíu.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item211841/

mánudagur, júní 09, 2008

9. júní 2008 - Samsæri Íslandshreyfingarinnar?


Þegar ég kveikti á sjónvarpinu áðan til að sjá undanfara fréttanna blöstu við mér lið Hollendinga og Ítala í fótbolta þar sem liðin voru að hlýða á þjóðsöngva landa sinna áður en leikur þeirra hófst á einhverjum fótboltavelli í Bern sem mun vera höfuðborgin í Sviss. Það sem vakti athygli mína voru þó ekki ungir menn sem sungu hástöfum þjóðsöngva sína fölskum rómi heldur sú staðreynd að inn í fána Ítalíu sem saumaður er á boli ítölsku fótboltastrákanna er rangsnúið merki Íslandshreyfingarinnar.

Ef fólk skyldi vera búið að gleyma Íslandshreyfingunni, þá er það flokkurinn sem Ómar Ragnarsson, Margrét Sverrisdóttir, Sigríður Jósefsdóttir og fleiri stofnuðu fyrir síðustu Alþingiskosningar.

-----oOo-----

Nú er leikurinn búinn og allir vita hvernig fór. Til glöggvunar má hér sjá merkið á brjósti ítölsku leikmannanna:


9. júní 2008 - Tveir skallapopparar í hjónaband

Það sem helst heyrði til tíðinda um helgina var að tveir skallapopparar hefðu gengið í hjónaband. Að vísu bundust þeir ekki hvor öðrum í heilögu hjónabandi, heldur fóru þeir sitt í hvora áttina, Bubbi kvæntist henni Hrafnhildi sinni (sem er ekkert skyld Hrafnhildi ofurkisu) og gaf út plötu, en gamli góði Villi kvæntist henni Gunnu sinni og hætti sem sem oddviti í borgarstjórnarmeirihlutanum ef meirihluta skal kalla.

Mér finnast annars einkennileg skilaboðin sem berast okkur í Morgunblaði dagsins. Á forsíðunni er sagt frá því að formaður og samstarfsmenn hafi þrýst á um ákvörðun, en að Vilhjálmur tók af skarið. Ég spyr bara, hvernig var þrýst á vesalings Villa? Var notuð þumalskrúfa eða kannski bara gamaldags aðferðir spænska rannsóknarréttarins sem nú hafa verið rifjaðar upp fyrir okkur vesæla farsímaeigendur? Ekki hefur hann verið beittur þrýstingi af samstarfsfólki sínu í borgarstjórn sem hafði hvað eftir annað lýst yfir stuðningi við hann og að þau flykktu sér að baki honum (eins og sjá má af sex andlegum rýtingum í baki vesalings Villa).

Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að nú sé að hefjast valdabarátta fyrir alvöru í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

-----oOo-----

Svo fær Guðni Már hamingjuóskir með daginn

sunnudagur, júní 08, 2008

8. júní 2008 - Um vesalings Villa og "vini" hans

Í gær var tilkynnt opinberlega að Vilhjálmur Þórmundur væri hættur sem oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og að Hann Birna væri tekin við. Ekki veit ég hvort þessi ákvörðun hafi verið tekin á æðri stöðum eða innan borgarstjórnarflokksins sjálfs, en það skiptir ekki mestu máli, heldur hitt að vesalings Villi var orðinn blóraböggull fyrir mistökin í einhverju stórkostlegasta útrásartækifæri sem hefur gefist lengi, REI málinu.

Hanna Birna hefur vissulega verið býsna skelegg í opinberri umræðu að undanförnu, en hvort það nægi til að lyfta fylgi flokksins eitthvað hér í Reykjavík skal ósagt látið. Stór hluti af fylgishruninu er ekki kominn til vegna REI-málsins, heldur hins að Sjálfstæðisflokkurinn, að meðtalinni Hönnu Birnu, studdi óhæfan mann til setu í stól borgarstjóra, mann sem hefur miskunnarlaust troðið inn einkavinum sínum í æðstu embætti síðustu mánuði, sem og reynt að kollvarpa þeim skipulagshugmyndum sem jafnvel Sjálfstæðismenn hafa stutt að undanförnu. Þá snerist Sjálfstæðisflokkurinn öndverður við sjálfan sig í skoðunum er hann greiddi tillögum þess blörraða atkvæði að láta mig kaupa fúasprekið á Laugavegi 4-6 á 580 milljónir.

Sömuleiðis verður að hafa í huga að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins stóð allur, að undanskildum Villa sjálfum, að því að klaga hann fyrir formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins á síðasta hausti, verknaður sem varð þáverandi meirihluta að falli.

Vilhjálmur Þórmundur er örugglega hvíldinni feginn eftir orrahríð vetrarins og megi hann njóta hvíldarinnar framundan um leið og sjálfsagt er að óska honum og unnustu hans til hamingju með giftinguna í dag.

föstudagur, júní 06, 2008

7. júní 2008 – Ég man enn þá tíð er heimsmarkaðsverðið á olíu var aðeins 100 dalir.

Í olíukreppunni haustið 1973 var víða skammtað rafmagn og jólin 1973 voru þau minnst skreyttu í Evrópu um margra ára skeið. Um svipað leyti vöknuðu Íslendingar við vondan draum og áttuðu sig á því að víða um land var verið að nota olíu til húshitunar að óþörfu. Í framhaldinu hófst hálfgert þjóðarátak til að tryggja jarðhita til húshitunar og má segja að íslenska þjóðin búi við hagnaðinn af þessu átaki enn í dag og muni gera um langa framtíð. En nú er það bara ekki nóg lengur.

Olíuverðið stígur enn. Það gægðist upp fyrir 100 dali um síðustu áramót en hefur ekki farið niður fyrir 100 dali síðan í lok febrúar og er nú að komast í 140 dala markið. Ég er ekki viss um að við sjáum það fara framar niður fyrir 100 dali, en það má ekkert útaf bregða í heimsmálunum til að það rjúki upp fyrir 200 dali. Ef Ísrael og Bandaríkin ráðast inn í Íran mun það vafalaust fara talsvert hærra, jafnvel 3-400 dali tunnan.

Það er kominn tími fyrir nýtt þjóðarátak á Íslandi. Tíma minnkaðrar olíunotkunar. Senn mun innanlandsflug leggjast af nema í neyðartilfellum. Bílar munu léttast og minnka og grípa þarf til nýrra úrræða í almenningssamgöngum. Það er kominn tími til að leggjast alvarlega í vangaveltur um nýja tegund samgangna, lestir.

Lestir eyða rafmagni og það er til nóg af því á Íslandi ef við bara viljum. Hvað um innanbæjarlestir í Reykjavík, hraðlestir til Keflavíkur, Akraness, Borgarness, austur fyrir fjall? Vöruflutningalestir meðfram hringveginum í stað þúsund dráttarbíla? Ætli Gurrí muni ekki njóta þess betur að þjóta upp á Skaga eftir vinnu á hálftíma með pendlinum (pendeltåget eða S-Bahn) í stað þess að veltast um í hávaðasömum strætisvagni auk þess sem bannað er að halda uppi samræðum við vagnstjórann í akstri. Þá er ný kynslóð að vaxa úr grasi sem sér möguleika á lífi þrátt fyrir bílleysi.

Ég ætla ekki að útfæra lestarsamgöngur í smáatriðum. Það er annarra að gera slíkt, fólks sem sér möguleikana á slíku. Það kostar peninga, en af hverju ekki að byrja? Á meðan gerir olían ekkert annað en að hækka og hækka. Þetta er engin dökk framtíðarsýn. Þetta er nútíminn.

Þótt ég muni enn þá tíð er olían kostaði 100 dali mun sá tími senn fyrnast í minningunni.

6. júní 2008 - Tilviljun eða hakkari?

Í hneykslan minni á mótmælum Félags kaþólskra leikmanna ákvað ég að kíkja inn á heimasíðu kaþólskra og rak þar augun í eftirfarandi:

Ýmsar sóknir bjóða til sölu bækur og trúarlega gripi. Í Landakoti í Reykjavík er stærsta bókabúðin á því sviði (á Hávallagötu 14). Hún er opin eftir messu á sunnudögum frá 12:00 - 13:30.
Umsjónarmaður er Jón Gnarr (sími 551 4302).
Kaþólska bókabúðin Hávallagötu 14, 101 Reykjavík.
Sími afgreiðslumanns: 551 4302

Ha, Jón Gnarr? Er hann ekki höfundur bráðfyndinna auglýsinga frá Símanum þar sem Jesús sér Júdas í myndsímanum sínum sem og auglýsingarinnar um rannsóknarréttinn? Eða er nafn Jóns Gnarr komið inn á heimasíðu kaþólsku kirkjunnar vegna mistaka eða sem hrekkur einhvers hakkara, en mig grunar að símanúmerið sem fylgir tilheyri Torfa Ólafssyni.
Hvað sem því líður sé ég ekki ástæðu til að segja upp símanum vegna skemmtilegra auglýsinga, ekki frekar en ég segi upp aðild að kirkjunni.


http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/06/05/segja_upp_vidskiptum_vid_simann/

http://www.vortex.is/catholica/dos.html

fimmtudagur, júní 05, 2008

5. júní 2008 - Um olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði

Ég hefi löngum verið hlynnt stóriðju á Íslandi og fullyrði að Íslendingar væru komnir á vonarvöl ef ekki væri fyrir þessi þrjú álver sem þegar hafa risið á Íslandi. Við höfum reynsluna af mjög svo einlitu samfélagi fiskveiða sem var hér á landi þar til nýlega samanber árin 1967 til 1969 þegar síldin brást og þorskurinn féll í verði á heimsmörkuðum. Þá var kreppa á Íslandi og þúsundir Íslendinga töldu hag sínum betur borgið með búsetu í Svíþjóð og Ástralíu. Það sem helst linar þjáningar fjármálalífs íslensku þjóðarinnar þessa dagana er mikil uppbygging í áliðnaði sem dreifir áhættunni á fleiri svið þegar loðnuveiðar eru takmarkaðar og þorskurinn kominn á válista hjá Hafrannsókn.

Ég hefi áður lýst þeirri skoðun minni að ég er andvíg fyrirhugaðri olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og ég er það enn. Hinar nýju fréttir þess efnis að búið sé að ákveða staðsetningu hennar í landi Hvestu í Arnarfirði eykur enn á andstöðu mína því nú er ég ekki einungis andvíg stöðinni af hagkvæmnissjónarmiðum heldur einnig af umhverfissjónarmiðum.

Ástæðurnar fyrir andstöðu minni eru margar. Áliðnaðurinn hefur ekki náð hæstu hæðum vegna skorts á áli í heiminum. Það er enn mikil eftirspurn eftir léttari farartækjum sem eyða minni orku og það er sömuleiðis mikil eftirspurn eftir léttari öldósum :) Það er því enn vöntun á fleiri álverum. Hinsvegar er enginn skortur á olíuhreinsunarstöðvum. Það er þegar til of mikið af þeim út um allan heim. Það vantar olíu fyrir olíuhreinsunarstöðvarnar að hreinsa og olíubirgðir heimsins minnka stöðugt. Þær olíuhreinsunarstöðvar sem eru reknar í dag, há grimmilega baráttu sín á milli til að fá olíu til hreinsunar frá þverrandi olíulindum. Þær sem eru rótgrónar og liggja næst markaðnum eiga auðveldast með að bjóða hráolíukaupmönnum bestu kjörin. Olíuhreinsunarstöð við Hvestu er hvorki rótgróin né nærri neinum markaði. Að benda á Ísland sem markað er firra því olíuhreinsunarstöðin þarf margfaldan markað á við þann sem er á Íslandi til að geta borið sig.

Veðrið er veigamikill þáttur í rekstrinum umfram aðrar olíuhreinsunarstöðvar. Ég er ekki viss um að það yrði mikið eftir af hafnarmannvirkjum við Hvestu þegar koma veður á borð við 7-8. febrúar 1925, 4. febrúar 1968 og 25. febrúar 1980. Öfugt við Bíldudal sem býr við tiltölulega góða höfn af náttúrunnar hendi inni í Bíldudalsvogi, þá væri Hvestuhöfn fyrir opnu hafi til norðvesturs, langt til lands í norðaustri og því væru risaolíuskip sem væru við bryggju í veðrinu sem hrein náttúruvá. Einasta lausnin væri því sú að leggja olíuleiðslur þessa fimm kílómetra leið frá olíuhreinsunarstöðinni og inn á Bíldudalsvog en með slíku myndi olíuhöfn ryðja í burtu allri annarri starfsemi frá Bíldudal.

Annað náttúrulegt vandamál eru snjóflóð og skriðuföll. Úr giljum Bíldudalsfjalls hafa oft runnið skriður niður á þorpið og valdið mikilli eyðileggingu á stundum. Minnist ég þar m.a. aurskriðu í ágúst 1968 sem fór yfir óbyggðar lóðir og langleiðina niður að sjó, en sleikti húsin beggja megin við, en einnig þess er bjarg losnaði um miðja nótt úr fjallinu ofan við þorpið og endaði uppi í rúmi hjá Páli Kristjánssyni sem á þeirri stundu var staddur í eldhúsinu og slapp með skrekkinn. Þá má geta þess að Bíldudalur er flokkaður með snjóflóðasvæðum. Það er því ljóst að finna þarf byggð fyrir þúsundir nýrra íbúa á öðrum stað, hugsanlega hjá Litlu-Eyri eða Hóli, en annars í námunda við olíuhreinsunarstöðina sjálfa eins og það væri nú ákjósanlegur staður að búa á. Ekki gæti ég t.d. hugsað mér að búa í næsta húsi við vinnustað minn ;) hvað þá heila olíuhreinsunarstöð. (Hversu margar lesendur mínar ætli hafi fundið hinn dásamlega svartolíuilm sem leggur frá olíuhreinsunarstöðvum?)

Það er ekki úr háum söðli að detta fyrir Bílddælinga á þessum síðustu og verstu tímum í sögu þorpsins að hætta við þessar framkvæmdir. Allt frá því í stríðslok hafa allar tilraunir til að byggja upp öflugan sjávarútveg á Bíldudal runnið út í sandinn á skömmum tíma. Fyrir bragðið hefur fólksfjöldi ávallt verið misjafn, þetta tvö til fjögur hundruð íbúar. Nú á síðustu árum hefur fjöldinn aukinheldur farið niður fyrir 200. Þá á allt í einu að byggja upp 500 manna vinnustað í túnjaðri þorps þar sem eingöngu eru um 100 vinnufúsar hendur. Það er því ljóst að flytja þarf inn vinnuaflið og ég er ekki viss um að það fáist á Íslandi þegar höfð er í huga einangrun þorpsins að vetrarlagi.

Það er margt sérkennilegt og fagurt í Arnarfirði. Þar eru hásæti tröllkarla og tröllkerlinga sem heita víst opinberlega Ytri-Hvilft og Innri-Hvilft, aðsetur galdramanna í Selárdal sem og listaverk Samúels Jónssonar, heimili Gísla á Uppsölum, hljómlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal, hin stórkostlega náttúrufegurð og gróðursæld í botni Arnarfjarðar með Dynjanda sem drottningu vestfirskra fossa. Að norðanverðunni er fæðingarstaður Jóns forseta og hinn merkilegi vegaslóði frá Þingeyri og fyrir Sléttanesið að Auðkúlu. Þar gnæfir yfir hæsti tindur Vestfjarða, Kaldbakur tæpir þúsund metrar að að hæð. Þeir sem búa við slíka möguleika hafa mýmörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar í ferðaþjónustu og þurfa enga óþarfa olíuhreinsunarstöð í staðinn fyrir fegurð Arnarfjarðar.

Gefum Arnarfirði grið frá vondum gróðapungum!

miðvikudagur, júní 04, 2008

4. júní 2008 - Rauðhetta og úlfurinn

Eitt atvik rifjaðist upp með mér í tilefni af drápinu á ÍsBirni ÍsBjarnarsyni túrista í gær:

Það skeði eitt sinn er ég bjó í Jarmafellshreppi (Järfälla) í Svíþjóð að bifreið ók á eitthvað kvikindi sem líktist stórum hundi á hraðbrautinni E-18 í tíu mínútna göngufæri frá heimili mínu. Við athugun á hræinu reyndist um úlf að ræða, nánast við borgarmörk sjálfrar höfuðborgarinnar. Það setti ugg að sumum nágrönnum mínum sem flýttu sér að læsa börn sín inni af hræðslu við að Rauðhetta kæmi líka.

Nokkru síðar birtist lifandi skógarbjörn á svæðinu. Ekki man ég hvaða tegund en ekki var hann sérstaklega stór ef marka mátti fréttamyndir. Þá varð hegðun fólks þveröfug og öllu líkari því sem var fyrir norðan. Hann var hundeltur af forvitnum almenningi með fjölmiðlafólk í broddi fylkingar. Ekki man ég hver örlög hans urðu, en hið síðasta sem ég man af honum var að hann hafði synt út í Ekerö, sennilega ætlað að heilsa upp á kóng og drottningu sem búa í nágrenninu, á Drottningholm.

Kannski er forvitinn almenningur stærsta hættan fyrir þessi grey sem og sjálfan sig.

4. júní 2008 - Seinkum klukkunni!

Hugo Chavez, hinn alþýðlegi forseti Venezuela gaf út tilskipun á síðasta ári um breytta stöðu landsins í tímabeltinu miðað við 9. desember 2007, lét seinka klukkunni um hálfa klukkustund sem eftir það er í hádegisstað sólar klukkan 12 á hádegi í höfuðborginni Caracas. Sumir hægrisinnaðir fjölmiðlar á vesturlöndum tóku þetta óstinnt upp og hæddust að kappanum fyrir vikið, þar á meðal Blaðið eða 24 stundir, en í reynd var verið að gera hið eina rétta, færa klukkuna í rétt horf, miða klukkuna við stöðu sólar eins og gert hefur verið um aldir víðast hvar um heiminn.

Eins og allir vita sem vilja vita, þá er sólin hæst á lofti í Reykjavík um klukkan 13.28 á daginn, nærri einum og hálfum tíma eftir hádegið. Við austasta stað Íslands, Gerpi, er raunverulegt hádegi tæpum klukkutíma á eftir hinu rétta, þ.e. klukkan 12.54. Á Gerpi búa fáir (sic!) og ekki miklu fleiri á Seyðisfirði þar eystra en þar er hádegisstaður klukkan 12.56. Ef við hinsvegar skoðum hinn enda landsins, þá er Látrabjargið einna afvegaleiðast en þar er hádegi klukkan 13.38 svo að vissulega er þar réttur staður fyrir þá sem eru afvegaleiddir í lífinu.

Með því að seinka klukkunni um eina klukkustund kemur upp önnur og öllu betri staða. Hornfirðingar og Vopnfirðingar verða þá einna fremstir meðal jafningja með réttan hádegistíma, en næst þeim koma smáþorp á borð við Seyðisfjörð sem séð hefur stöðu sína betri fyrr á tímum, en útkjálkastaðir á borð við Reykjavík verða einungis 28 mínútum á eftir réttum hádegistíma. Hádegistíminn heima hjá mér verður klukkan 12.27 og von til að hinir afvegaleiddu verði leiddir á rétta braut sem munar heilli klukkustund, enda mun þá einungis muna 38 mínútum á tímanum hjá þeim.

Því hvet ég alla til að krefjast réttrar klukku fyrir Ísland, líka Seyðisfjörð.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item210687/

þriðjudagur, júní 03, 2008

3. júní 2008 - Túristi felldur fyrir norðan

Í morgun varð vart við norrænan túrista á ólöglegum hraða á Þverárfjallsvegi á milli Skagastrandar og Sauðárkróks. Þegar var haft samband við lögreglu sem mætti á staðinn. Sömuleiðis dreif af mikinn fjölda heimamanna sem vildu líta túristann augum. Hann tók því á rás undan mannfjöldanum á ólöglegum hraða og óttaðist lögreglan að hann myndi hverfa þeim sjónum og valda spjöllum á íslenskri náttúru og óspjölluðum meyjum í Skagafirði. Blönduóslögreglan ákvað þá að aflífa túristann áður en hann kæmist yfir í umdæmi Sauðárkrókslögreglunnar.

Hugmyndir eru um að stoppa túristann upp, öðrum túristum til viðvörunar sem voga sér að aka of hratt í umdæmi Blönduóslögreglunnar.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/06/03/skyrist_a_naestu_dogum_hvad_verdur_um_isbjorninn/

3. júní 2008 - Eðlileg skjálftavirkni?

Þessi fyrirsögn á netsíðu Morgunblaðsins sló mig dálítið. Eðlileg skjálftavirkni! Hvað er eðlileg skjálftavirkni? Er hún fimm á Richter eða bara þrír? Eða er hún ofsafengin og sjö á Richter? Ég hefi aldrei kynnst eðlilegum jarðskjálfta.

Ég man 17. júní árið 2000. Ég var nýkomin í land eftir að hafa náð einu stykki síldarkvóta í sumarfríinu mínu frá Orkuveitunni og ég settist loks við tölvuna mína heima og kallaði upp fólkið mitt í Bandaríkjunum og Kanada á netinu. Linda frænka í Las Vegas sat við sína tölvu og þar sem við ræddum málin einni viku áður en hennar var von til Íslands í fyrsta sinn ævi sinnar, fór allt að skjálfa í kringum mig. Ég varð hrædd þar sem ég var uppi á sjöttu hæð í Hólahverfinu í Breiðholtinu. Einhverjar bækur duttu úr hillum og tölvuskjárinn hoppaði á borðinu. Ég færði mig fram á gang og ýtti tölvuskjánum aðeins inn á skrifborðið í leiðinni. Svo dró úr skjálftunum og ég færði mig inn aftur. Tíminn virtist lengi að líða og skjálftarnir harðir.

Jarðskjálfti verður aldrei eðlilegur. Hann er náttúrulegur en alls ekki eðlilegur. Ég mun aldrei venjast jarðskjálfta hversu oft sem ég kynnist þeim. Á fimmtudaginn var ég á öruggasta hugsanlega stað þegar jarðskjálftinn kom, í stjórnstöð Orkuveitunnar. Samt fylltist ég af beig þótt ekki fyndi ég fyrir sama ótta og fyrrum.

Á sunnudag fór ég og heimsótti starfsfélaga mína á Nesjavöllum. Þar höfðu öll kerfi staðist skjálftana þótt sjá mátti nýjar sprungur á milli byggingahluta virkjunarinnar þar sem gert er ráð fyrir hreyfingum. Ekki langt frá virkjuninni mátti sjá afleiðingar skjálftanna á fimmtudag og íbúar Selfoss, Hveragerðis og Ölfuss munu eiga lengi við eftirköstin af því sem gekk á.

Nei, skjálftavirkni verður aldrei eðlileg.

mánudagur, júní 02, 2008

2. júní 2008 - Sjóræningjafánar betri en sá íslenski?

„Nýsett lög um íslenska skipaskrá skipta í raun engu máli. Skipafélögin hafa komið sér vel fyrir undir fánum annarra ríkja og njóta þar lagaöryggis og stöðugleika.“

Þessi orð eru höfð eftir forstöðumanni flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu á forsíðu sunnudagsblaðs Fréttablaðsins á sjómannadag 2008 þar sem forsíðufyrirsögnin er að ekkert íslenskt flutningaskip er á skipaskrá hérlendis. Orð forstöðumannsins vekja hjá mér ugg. Ástæður þess eru meðal annars að sjávarútvegsráðherra og fleiri valdamenn á Íslandi hafa kallað skip með heimahöfn á eyjunni Dominika í Karabíska hafinu fyrir sjóræningjaskip þegar þau hafa verið að veiðum utan íslenskrar landhelgi. Rúmum hundrað sjómílum frá Dominika er önnur eyja þar sem ríkir svipað lagaumhverfi og er því einnig sjóræningjaeyja ef taka skal orð sjávarútvegsráðherrans trúanleg. Hún heitir Antigua og þar eiga heimahöfn mörg þeirra skipa sem sigla með vörur á milli Íslands og annarra landa, þar á meðal nokkur skip Eimskipafélagsins sem eru í föstum áætlunarsiglingum til og frá Íslandi. Þau njóta því lagaöryggis og stöðugleika undir sjóræningjafána.

Ef taka skal orð forstöðumannsins alvarlega, er sjóræningjafáni í meiri metum en íslenski fáninn. Þetta eru skýr skilaboð til hinnar deyjandi íslensku farmannastéttar á sjómannadaginn 2008 um leið og þau lýsa ágætlega virðingu fyrir íslenska þjóðfánanum og álitinu á íslensku þjóðskipulagi.