mánudagur, júní 02, 2008

2. júní 2008 - Sjóræningjafánar betri en sá íslenski?

„Nýsett lög um íslenska skipaskrá skipta í raun engu máli. Skipafélögin hafa komið sér vel fyrir undir fánum annarra ríkja og njóta þar lagaöryggis og stöðugleika.“

Þessi orð eru höfð eftir forstöðumanni flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu á forsíðu sunnudagsblaðs Fréttablaðsins á sjómannadag 2008 þar sem forsíðufyrirsögnin er að ekkert íslenskt flutningaskip er á skipaskrá hérlendis. Orð forstöðumannsins vekja hjá mér ugg. Ástæður þess eru meðal annars að sjávarútvegsráðherra og fleiri valdamenn á Íslandi hafa kallað skip með heimahöfn á eyjunni Dominika í Karabíska hafinu fyrir sjóræningjaskip þegar þau hafa verið að veiðum utan íslenskrar landhelgi. Rúmum hundrað sjómílum frá Dominika er önnur eyja þar sem ríkir svipað lagaumhverfi og er því einnig sjóræningjaeyja ef taka skal orð sjávarútvegsráðherrans trúanleg. Hún heitir Antigua og þar eiga heimahöfn mörg þeirra skipa sem sigla með vörur á milli Íslands og annarra landa, þar á meðal nokkur skip Eimskipafélagsins sem eru í föstum áætlunarsiglingum til og frá Íslandi. Þau njóta því lagaöryggis og stöðugleika undir sjóræningjafána.

Ef taka skal orð forstöðumannsins alvarlega, er sjóræningjafáni í meiri metum en íslenski fáninn. Þetta eru skýr skilaboð til hinnar deyjandi íslensku farmannastéttar á sjómannadaginn 2008 um leið og þau lýsa ágætlega virðingu fyrir íslenska þjóðfánanum og álitinu á íslensku þjóðskipulagi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli