sunnudagur, júní 29, 2008

29. júní 2008 - Leggjarbrjótur lagður að velli

Úr því ég er komin af stað að nýju í gönguferðirnar er algjört skilyrði að rölta þá frægu gönguleið sem kennd er við Leggjarbrjót og liggur á milli Hvalfjarðar og Þingvalla. Að þessu sinni fór ég ekki ein, heldur plataði Sverri kunningja minn til að rölta með, en hann hefur gengið áður með mér, t.d. á Vífilsfellið og Fanntófell.

Eitthvað vorum við lengi að koma okkur í gírinn, koma þeim vinstrigræna í stæði nærri Svartagili í Þingvallasveit og halda síðan að Stóra-Botni í Hvalfirði þar sem hinn bíllinn var skilinn eftir. Klukkan var því um tvö þegar lagt var upp frá Stóra-Botni, en sú leið var valin þótt sé almennt talin verri, en vegna leiðinda norðanáttar þótti skynsamlegra að vera með vindinn í bakið.

Það var gaman þótt erfitt væri að ganga úr Hvalfirðinum og reyndar alla leiðina að Sandvatni þar sem tekin var góð pása. Leiðin frá Sandvatni yfir hinn eiginlega Leggjarbrjót og áfram til Þingvalla var ekki eins skemmtileg þótt hún væri meira niður á móti, stórgrýtt nánast alla leið þótt stór hluti niðurferðarinnar væri í einhverjum troðningi. Það gefur auga leið að ég átti ekki til nógu sterk lýsingarorð yfir hina þægilegu Selvogsgötu í samanburði við þennan andskota sem Leggjarbrjótur kallast. Ekki er það til að bæta úr að talsverður fjöldi var á gangi á laugardeginum sem er eitthvað annað en Selvogsgatan, en ég hefi aldrei mætti lifandi manneskju þar á sveimi fyrr en komið er niður að Kaldárseli.

Með Leggjarbrjótnum er ég búin að ljúka tveimur af fjórum áætluðum dagsgöngum sumarsins. Núna eru Síldarmannagötur eftir í báðar áttir sem og vonandi Látrabjargið sem auðvitað hlýtur að teljast lokatakmark þessa sumars, en auk þeirra hefðbundnar fjallgöngur í nágrenni Reykjavíkur.


0 ummæli:Skrifa ummæli