föstudagur, júní 06, 2008

7. júní 2008 – Ég man enn þá tíð er heimsmarkaðsverðið á olíu var aðeins 100 dalir.

Í olíukreppunni haustið 1973 var víða skammtað rafmagn og jólin 1973 voru þau minnst skreyttu í Evrópu um margra ára skeið. Um svipað leyti vöknuðu Íslendingar við vondan draum og áttuðu sig á því að víða um land var verið að nota olíu til húshitunar að óþörfu. Í framhaldinu hófst hálfgert þjóðarátak til að tryggja jarðhita til húshitunar og má segja að íslenska þjóðin búi við hagnaðinn af þessu átaki enn í dag og muni gera um langa framtíð. En nú er það bara ekki nóg lengur.

Olíuverðið stígur enn. Það gægðist upp fyrir 100 dali um síðustu áramót en hefur ekki farið niður fyrir 100 dali síðan í lok febrúar og er nú að komast í 140 dala markið. Ég er ekki viss um að við sjáum það fara framar niður fyrir 100 dali, en það má ekkert útaf bregða í heimsmálunum til að það rjúki upp fyrir 200 dali. Ef Ísrael og Bandaríkin ráðast inn í Íran mun það vafalaust fara talsvert hærra, jafnvel 3-400 dali tunnan.

Það er kominn tími fyrir nýtt þjóðarátak á Íslandi. Tíma minnkaðrar olíunotkunar. Senn mun innanlandsflug leggjast af nema í neyðartilfellum. Bílar munu léttast og minnka og grípa þarf til nýrra úrræða í almenningssamgöngum. Það er kominn tími til að leggjast alvarlega í vangaveltur um nýja tegund samgangna, lestir.

Lestir eyða rafmagni og það er til nóg af því á Íslandi ef við bara viljum. Hvað um innanbæjarlestir í Reykjavík, hraðlestir til Keflavíkur, Akraness, Borgarness, austur fyrir fjall? Vöruflutningalestir meðfram hringveginum í stað þúsund dráttarbíla? Ætli Gurrí muni ekki njóta þess betur að þjóta upp á Skaga eftir vinnu á hálftíma með pendlinum (pendeltåget eða S-Bahn) í stað þess að veltast um í hávaðasömum strætisvagni auk þess sem bannað er að halda uppi samræðum við vagnstjórann í akstri. Þá er ný kynslóð að vaxa úr grasi sem sér möguleika á lífi þrátt fyrir bílleysi.

Ég ætla ekki að útfæra lestarsamgöngur í smáatriðum. Það er annarra að gera slíkt, fólks sem sér möguleikana á slíku. Það kostar peninga, en af hverju ekki að byrja? Á meðan gerir olían ekkert annað en að hækka og hækka. Þetta er engin dökk framtíðarsýn. Þetta er nútíminn.

Þótt ég muni enn þá tíð er olían kostaði 100 dali mun sá tími senn fyrnast í minningunni.


0 ummæli:Skrifa ummæli