mánudagur, júní 30, 2008

30. júní 2008 - Ál gegn áli!

Ég rakst á góða vinkonu mína sem um leið er ein skærasta stjarnan innan Vinstrigrænna á föstudagskvöldið og innti hún mig eftir því hvort ég ætlaði ekki að mæta á tónleikana í Laugardalnum á laugardag. Samvisku minni trú þrátt fyrir einlægan áhuga minn á Þvottalaugunum, lét ég hana vita að ég yrði fjarri góðu gamni á fjöllum þetta sama síðdegi og fremur en að móðga bæði hana og son minn sem er einlægur aðdáandi Sigurrósar, sleppti ég því að bæta við að ég vildi heldur hlusta á vælið á alvörufuglum en vælið í söngfuglum.
Á sunnudag gaf Vísir.is í skyn að sumir áheyrendur á tónleikunum virtust hafa misskilið boðskapinn og skilið eftir sig mikið magn af áli í formi drykkjaríláta.

http://visir.is/article/20080629/FRETTIR01/680636992

Sumir vita að ég hefi löngum verið höll undir áliðnað. En úr því ég fæst ekki til að snúa af vondri braut minni með tónleikum, verð ég að fara fram á það við ykkur sem lesið orð mín að þið segið mér hvað er svona hræðilega vont við ál sem getur orðið til þess að ég snúi af villubrautinni.

Það þýðir ekkert að koma með slagorð, einungis staðreyndir takk!

-----oOo-----

Í dag eru liðin 40 ár síðan Kristján Eldjárn var kosinn forseti Íslands, kosningar sem um leið sýndu að meirihluti Íslendinga er í eðli sínu vinstrisinnaður.


0 ummæli:







Skrifa ummæli