fimmtudagur, júní 05, 2008

5. júní 2008 - Um olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði

Ég hefi löngum verið hlynnt stóriðju á Íslandi og fullyrði að Íslendingar væru komnir á vonarvöl ef ekki væri fyrir þessi þrjú álver sem þegar hafa risið á Íslandi. Við höfum reynsluna af mjög svo einlitu samfélagi fiskveiða sem var hér á landi þar til nýlega samanber árin 1967 til 1969 þegar síldin brást og þorskurinn féll í verði á heimsmörkuðum. Þá var kreppa á Íslandi og þúsundir Íslendinga töldu hag sínum betur borgið með búsetu í Svíþjóð og Ástralíu. Það sem helst linar þjáningar fjármálalífs íslensku þjóðarinnar þessa dagana er mikil uppbygging í áliðnaði sem dreifir áhættunni á fleiri svið þegar loðnuveiðar eru takmarkaðar og þorskurinn kominn á válista hjá Hafrannsókn.

Ég hefi áður lýst þeirri skoðun minni að ég er andvíg fyrirhugaðri olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og ég er það enn. Hinar nýju fréttir þess efnis að búið sé að ákveða staðsetningu hennar í landi Hvestu í Arnarfirði eykur enn á andstöðu mína því nú er ég ekki einungis andvíg stöðinni af hagkvæmnissjónarmiðum heldur einnig af umhverfissjónarmiðum.

Ástæðurnar fyrir andstöðu minni eru margar. Áliðnaðurinn hefur ekki náð hæstu hæðum vegna skorts á áli í heiminum. Það er enn mikil eftirspurn eftir léttari farartækjum sem eyða minni orku og það er sömuleiðis mikil eftirspurn eftir léttari öldósum :) Það er því enn vöntun á fleiri álverum. Hinsvegar er enginn skortur á olíuhreinsunarstöðvum. Það er þegar til of mikið af þeim út um allan heim. Það vantar olíu fyrir olíuhreinsunarstöðvarnar að hreinsa og olíubirgðir heimsins minnka stöðugt. Þær olíuhreinsunarstöðvar sem eru reknar í dag, há grimmilega baráttu sín á milli til að fá olíu til hreinsunar frá þverrandi olíulindum. Þær sem eru rótgrónar og liggja næst markaðnum eiga auðveldast með að bjóða hráolíukaupmönnum bestu kjörin. Olíuhreinsunarstöð við Hvestu er hvorki rótgróin né nærri neinum markaði. Að benda á Ísland sem markað er firra því olíuhreinsunarstöðin þarf margfaldan markað á við þann sem er á Íslandi til að geta borið sig.

Veðrið er veigamikill þáttur í rekstrinum umfram aðrar olíuhreinsunarstöðvar. Ég er ekki viss um að það yrði mikið eftir af hafnarmannvirkjum við Hvestu þegar koma veður á borð við 7-8. febrúar 1925, 4. febrúar 1968 og 25. febrúar 1980. Öfugt við Bíldudal sem býr við tiltölulega góða höfn af náttúrunnar hendi inni í Bíldudalsvogi, þá væri Hvestuhöfn fyrir opnu hafi til norðvesturs, langt til lands í norðaustri og því væru risaolíuskip sem væru við bryggju í veðrinu sem hrein náttúruvá. Einasta lausnin væri því sú að leggja olíuleiðslur þessa fimm kílómetra leið frá olíuhreinsunarstöðinni og inn á Bíldudalsvog en með slíku myndi olíuhöfn ryðja í burtu allri annarri starfsemi frá Bíldudal.

Annað náttúrulegt vandamál eru snjóflóð og skriðuföll. Úr giljum Bíldudalsfjalls hafa oft runnið skriður niður á þorpið og valdið mikilli eyðileggingu á stundum. Minnist ég þar m.a. aurskriðu í ágúst 1968 sem fór yfir óbyggðar lóðir og langleiðina niður að sjó, en sleikti húsin beggja megin við, en einnig þess er bjarg losnaði um miðja nótt úr fjallinu ofan við þorpið og endaði uppi í rúmi hjá Páli Kristjánssyni sem á þeirri stundu var staddur í eldhúsinu og slapp með skrekkinn. Þá má geta þess að Bíldudalur er flokkaður með snjóflóðasvæðum. Það er því ljóst að finna þarf byggð fyrir þúsundir nýrra íbúa á öðrum stað, hugsanlega hjá Litlu-Eyri eða Hóli, en annars í námunda við olíuhreinsunarstöðina sjálfa eins og það væri nú ákjósanlegur staður að búa á. Ekki gæti ég t.d. hugsað mér að búa í næsta húsi við vinnustað minn ;) hvað þá heila olíuhreinsunarstöð. (Hversu margar lesendur mínar ætli hafi fundið hinn dásamlega svartolíuilm sem leggur frá olíuhreinsunarstöðvum?)

Það er ekki úr háum söðli að detta fyrir Bílddælinga á þessum síðustu og verstu tímum í sögu þorpsins að hætta við þessar framkvæmdir. Allt frá því í stríðslok hafa allar tilraunir til að byggja upp öflugan sjávarútveg á Bíldudal runnið út í sandinn á skömmum tíma. Fyrir bragðið hefur fólksfjöldi ávallt verið misjafn, þetta tvö til fjögur hundruð íbúar. Nú á síðustu árum hefur fjöldinn aukinheldur farið niður fyrir 200. Þá á allt í einu að byggja upp 500 manna vinnustað í túnjaðri þorps þar sem eingöngu eru um 100 vinnufúsar hendur. Það er því ljóst að flytja þarf inn vinnuaflið og ég er ekki viss um að það fáist á Íslandi þegar höfð er í huga einangrun þorpsins að vetrarlagi.

Það er margt sérkennilegt og fagurt í Arnarfirði. Þar eru hásæti tröllkarla og tröllkerlinga sem heita víst opinberlega Ytri-Hvilft og Innri-Hvilft, aðsetur galdramanna í Selárdal sem og listaverk Samúels Jónssonar, heimili Gísla á Uppsölum, hljómlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal, hin stórkostlega náttúrufegurð og gróðursæld í botni Arnarfjarðar með Dynjanda sem drottningu vestfirskra fossa. Að norðanverðunni er fæðingarstaður Jóns forseta og hinn merkilegi vegaslóði frá Þingeyri og fyrir Sléttanesið að Auðkúlu. Þar gnæfir yfir hæsti tindur Vestfjarða, Kaldbakur tæpir þúsund metrar að að hæð. Þeir sem búa við slíka möguleika hafa mýmörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar í ferðaþjónustu og þurfa enga óþarfa olíuhreinsunarstöð í staðinn fyrir fegurð Arnarfjarðar.

Gefum Arnarfirði grið frá vondum gróðapungum!


0 ummæli:







Skrifa ummæli