miðvikudagur, júní 04, 2008

4. júní 2008 - Rauðhetta og úlfurinn

Eitt atvik rifjaðist upp með mér í tilefni af drápinu á ÍsBirni ÍsBjarnarsyni túrista í gær:

Það skeði eitt sinn er ég bjó í Jarmafellshreppi (Järfälla) í Svíþjóð að bifreið ók á eitthvað kvikindi sem líktist stórum hundi á hraðbrautinni E-18 í tíu mínútna göngufæri frá heimili mínu. Við athugun á hræinu reyndist um úlf að ræða, nánast við borgarmörk sjálfrar höfuðborgarinnar. Það setti ugg að sumum nágrönnum mínum sem flýttu sér að læsa börn sín inni af hræðslu við að Rauðhetta kæmi líka.

Nokkru síðar birtist lifandi skógarbjörn á svæðinu. Ekki man ég hvaða tegund en ekki var hann sérstaklega stór ef marka mátti fréttamyndir. Þá varð hegðun fólks þveröfug og öllu líkari því sem var fyrir norðan. Hann var hundeltur af forvitnum almenningi með fjölmiðlafólk í broddi fylkingar. Ekki man ég hver örlög hans urðu, en hið síðasta sem ég man af honum var að hann hafði synt út í Ekerö, sennilega ætlað að heilsa upp á kóng og drottningu sem búa í nágrenninu, á Drottningholm.

Kannski er forvitinn almenningur stærsta hættan fyrir þessi grey sem og sjálfan sig.


0 ummæli:Skrifa ummæli