miðvikudagur, júní 25, 2008

25. júní 2008 – Enn ein herferðin gegn of háu bensínverði

Nokkrir aðilar hafa sent mér áskorun um að hætta að versla bensín við Shell og Neinn þar til verðið hefur lækkað því eins og þeir segja, olíufyrirtækin ráða yfir umtalsverðum hluta af bensínverðinu.

Þegar ég sé myndasýninguna sem ber það með sér að þeir sem bjuggu hana til er nýbúnir að uppgötva ágæta eiginlega PowerPoint myndakerfisins, þá get ég ekki hrifist með, gengið á torg og hafið að berjast gegn olíufurstunum, allavega ekki á þeim forsendum sem höfundarnir hafa lagt upp með. Til þess er bjartsýnin of mikil og sigurinn auðveldur.

Höfundarnir halda því fram að miklu meira sé til af olíu í heiminum nú en fyrir 35 árum. Það getur hver sem er séð í hendi sér að staðhæfingin er röng. Það minnkar sem af er tekið. Það sem höfundarnir eiga sennilega við er að það er vitað um meiri olíu í dag en fyrir 35 árum, en sú olía fer líka þverrandi.

Þá benda höfundarnir á ranga aðila sem verstu okrarana. Ef olíufélögin myndu minnka álagningu sína niður í núll, myndi olíuverðið lækka eitthvað, kannski niður í 140-150 krónur. Ég veit ekki hversu mikið, enda skiptir það ekki öllu máli. Olíuverðið yrði samt of dýrt þótt öll olíufélögin færu á hausinn vegna engrar álagningar.

Stóri okrarinn í málinu eru ekki olíufélögin, heldur Ríkið. Ríkisstjórn og Alþingi viðhalda háu olíuverði, ekki vegna þess að það sitji svo hræðilega illir aðilar við stjórnvölinn, heldur vegna þess að ef skattar yrðu ekki teknir af bensínverðinu, yrðu þeir bara teknir einhversstaðar annars staðar. Þá verður að hafa í huga að vesalings Ríkið er í peningavandræðum og þarf að slá há lán til að bjarga vesalings bönkunum svo við getum haldið áfram að fá lán fyrir stærri og flottari bíl sem eyðir meira bensíni.

Þetta kemur svo háu heimsmarkaðsverði lítið við.

Það er því bara eitt að gera ef fólk vill kvarta yfir háu bensínverði, kjósa með fótunum og labba, eða nota reiðhjól.


0 ummæli:







Skrifa ummæli