mánudagur, júní 23, 2008

23. júní 2008 - Engir ísbirnir í Elliðaárdal né á Reykjanesskaga

Það hefur löngum verið hægt að rekast á allskyns kynjaskepnur í Elliðaárdalnum á góðviðrisdögum. Þannig minnist ég þess er ég var einhverju sinni á bakvakt með Elliðaárstöðinni ásamt vatnasvæði stöðvarinnar, að ég þurfti að fara sérstaka eftirlitsferð vegna einhvers furðufugls sem hafði verið að bera sig fyrir smástelpum. Sá var svo heppinn að löggan náði honum á undan mér. Það hefði orðið saga til næsta bæjar ef frést hefði opinberlega af mér hlaupandi á eftir dónanum.

Ég fór í langa göngu um Elliðaárdalinn á sunnudag og sannfærðist um að hvorki ísbjörn né dóni væru þar á ferð. Ég komst heil heim og las þá á vefMogganum að gæslan hefði ekki fundið neinn ísbjörn á norðurslóðum, þó að frátöldum hvítum hesti nærri Skagatá. Ekki nægði þetta alveg til að sannfæra mig um ísbjarnalaust Ísland og hélt ég því í sérstaka ferð suður að Selvogi ásamt nágrannakonu minni. Þar gægðumst við upp fyrir skarðið sem er næst austan við Nátthagaskarðið og inn eftir Selstígnum. Þótt við hefðum farið mjög hljóðlega upp eftir troðningum og að vörðunni reyndist ekkert kvikt né hvítt þar á ferð nema auðvitað ef ísbirnirnir hafi verið komnir í hvítar sauðagærur því nóg var af sauðfénu í næsta nágrenni.

Það ætti því að vera óhætt fyrir Þórð stórkaptein og aðra sauðmeinlausa göngufélaga að ganga með Selvogsgötuna einhvern næstu dagana og fullvissa ég hann um að við munum ekki rekast á neina ísbirni á leið okkar til Hafnarfjarðar, en þar hefur ekki sést ísbjörn síðan Sædýrasafnið lokaði.


0 ummæli:Skrifa ummæli