miðvikudagur, júní 25, 2008

25. júní 2008 - Leitað að óargardýrum á Selvogsgötunni!

Í tilraunum mínum til að finna ísbirni og önnur óargardýr í nágrenni Reykjavík hélt ég í göngu á þriðjudaginn og byrjaði í nágrenni við fæðingarstað langalangömmu minnar í Herdísarvík. Þar var ekki mikið um ísbirni hvorki í eða án sauðagæru enda búið að loka svæðinu með rafmagnsgirðingu merktri Sauðfjárveikivörnum. Ekki sá ég heldur neina fýla né ljón og einasta fjallageitin var steingeitin ég. Eftir nærri tveggja tíma labb norðaustur með girðingunni fann ég loks tröppur yfir girðinguna og af ummerkjum að dæma, þóttist ég vita að nú væri ég komin að Selvogsgötunni.

Eftir það hélt ég norður í óvissuna uns ég kom að Kaldárseli í Hafnarfirði nokkrum klukkutímum síðar. Fátt óvænt sá ég á göngunni utan eina og eina lóu sem kallaði á nöfnur sínar og varaði við mannaferðum. Ég lenti einu sinni í hagléli og kröftugum regnskúr og varð það helsta hættan sem ég kynntist á leiðinni, en slíku er auðvelt að mæta með regnfatnaði.

Þegar ég hélt niður frá Grindarskörðum sá ég skrýtið spor í brekkunni og hefði haldið að þar hafi farið sovéskur kafbátur á skriðbeltum ef ekki hefði verið fyrir þá sök að Sovétmenn eru hættir að hrella sænsk hernaðaryfirvöld með slíkum farartækjum í sænska skerjagarðinum. Þá eiga sovéskir kafbátar erfitt um vik að athafna sig í 450 metra hæð yfir sjávarmáli. Því dró ég þá ályktun að þarna hefðu unglingar á torfærumótorhjólum verið að tæta upp viðkvæman jarðveginn. Enn voru ísbirnir saklausir.

Síðar rakst ég á spor eftir snjómanninn ógurlega í Þríhnúkahrauni austan Helgafells í Hafnarfirði. Ég hefði vafalaust hringt í sjónvarpið, Landhelgisgæslu og sérsveit lögreglu ef ég hefði ekki vitað að Snjómaðurinn ógurlegi hefur aldrei fundist á Íslandi og sennilega útdauður líka enda voru sporin orðin að steini. Skömmu síðar rakst ég á nýleg spor eftir ísbirni, en þeir ísbirnir voru greinilega í feluleik enda notuðu þeir hófa til að fela ummerkin eftir sig.

Loksins taldi ég mig hafa fengið stóra vinninginn eftir langa og erfiða göngu. Ég sá skógarbjörn einn mikinn er ég var komin framhjá Helgafelli, en mikil voru vonbrigðin þegar nær dró því þetta var bara hann Snati litli í fylgd tveggja stúlkna sem virtust alveg óhræddar við hann. Allavega líktist ekkert þeirra ísbjörnum.

Ég er sólbrunnin í andlitinu. Ekki orð um harðsperrur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli