laugardagur, febrúar 20, 2016

20. febrúar 2016 - Risagámaskip



©marinetraffic.com
Í byrjun febrúar var sagt frá því í fréttum að kínverska gámaskipið CSCL Indian Ocean hefði strandað á sandi á Elbunni skammt fyrir neðan Hamborg. Þetta þótti talsverð frétt því skipið er ásamt fjórum systurskipum í hópi stærstu gámaskipa í heimi og getur lestað 19100 gámaeiningar, aðeins minna en MSC Oscar og fimm systurskip hans en stærra en Triple-E gerðin hjá Mærsk. Öll þessi skip eru reyndar svipuð að lengd og breidd , en einungis meiri djúprista skilur á milli stærða þeirra. Eftir sex daga tókst að losa skipið með hjálp fjölda dráttarbáta og gat það haldið för sinni áfram enda nánast óskemmt eftir baráttuna við sandinn. Fyrir viku síðan strandaði annað stórt gámaskip, í þetta sinn utan við Southampton í Englandi. Þar var um að ræða skipið APL Vanda sem skráð er í Singapore en í eigu American President Lines. Það skip sem náðist fljótlega út aftur án skemmda er nokkru minna en CSCL Indian Ocean eða 366 metrar á lengd og um 51 metrar á breidd og lestar aðeins 13892 gámaeiningar eða nífalt það sem Goðafoss og Dettifoss lesta af gámum.

©marinetraffic.com

Það er erfitt fyrir leikmenn að átta sig á stærð þessara risastóru gámaskipa, en í dag eru um 60 skip í rekstri sem teljast vera Post-NewPanamax og þarafleiðandi of stór til að komast í gegnum Panamaskurðinn eftir stækkun hans í byrjun næsta árs, en þessi skip eru 390 til 400 metrar á lengd og 54 til 60 metrar á breidd, en um 180 skip eru að auki í rekstri sem teljast vera NewPanamax að stærð, eða um 366 metrar á lengd og skrokkbreiddin um 49 metrar.
Stærstu skipin eru því um fjórir fótboltavellir að lengd og breidd eða svo tekið sé mið af aðstæðum í Reykjavík, ef eitt slíkt skip sem sett yrði niður á Laugaveginn í Reykjavík, væri þannig að stefnið yrði við Klapparstíg, yrði skuturinn við Vitastíg, en breidd skipanna væri eins og á milli Laugavegs og Hverfisgötu. Hæðin að meðtöldum yfirbyggingum skipanna væri næstum eins og Hallgrímskirkja eða rúmir 70 metrar.

Samanlagt vélaafl þessara skipa eru frá 60 til 80 MW. eða um 80 til 110 þúsund hestöfl

Ég fór að velta fyrir mér öryggi þessara skipa. Ég hefi séð myndir sem teknar voru á dekkinu á Skagen Mærsk, 347 metra löngu skipi sem lestar allt að 9500 gámaeiningar. Skipið er í brælu og sést ágætlega hvernig það vindur upp á sig þegar sjóirnir lenda á því. Það er í reynd ótrúlegt að þessi risaskip skuli ekki hreinlega liðast í sundur við slík átök, en við verðum að treysta því að skipaverkfræðingarnir viti hvað þeir eru að gera. Reyndar er vitað um tilfelli þar sem gámaskip liðaðist í sundur og sökk. Þar er um að ræða gámaskipið MOL Comfort skráð í Nassau og smíðað 2008 í Japan, 317 metrar á lengd og lestaði sem mest 8540 gámaeiningar. Skipið var á leið frá Singapore til Jeddah með rúmar 7000 gámaeiningar um borð sumarið 2013 er það brotnaði í sundur um 200 sjómílum frá ströndum Yemen og sukku báðir hlutarnir nokkru síðar þrátt fyrir tilraunir til að draga þá að landi. Sem betur fer varð mannbjörg, en hversu mikil verðmæti fóru þar forgörðum?

©vesselfinder.com
Einhverntímann sá ég tölur um verðmæti farms í fulllestuðu Triple-E skipi og þar var talan um 100 milljarðar króna. Þegar haft er í huga að Post-NewPanamamax gámaskipin eru orðin um 60 og skip sem lesta yfir 12500 gámaeiningar eru orðin um 240 er ekki lengur spurning um hvort, heldur hvenær slíkt skip ferst með öllum farmi.

Þessar voru vangaveltur mínar meðan á útsendingu Söngvakeppni sjónvarpsins stóð á laugardagskvöldi.

föstudagur, febrúar 19, 2016

19. febrúar 2016 - Samfylkingin



Ég er jafnaðarmanneskja. Ég styð sósíalisma og jafnrétti þegnanna en um leið styð ég sameiningu jafnaðarmanna í Evrópu fyrir betra samfélagi. Löngum var ég langt til vinstri en þegar ónefndur náungi fór að gera sig gildan innan Alþýðubandalagsins minnkaði áhugi minn fyrir þeim flokki og ég fór að horfa í kringum mig eftir betri kostum. Þeir voru ekki í boði lengi vel.

Ég bjó í nokkur ár í Svíþjóð. Meðan ég bjó þar greiddu Svíar atkvæði um aðild að Evrópusambandinu og sannfærð um að vera utan Evrópusambandsins væru hið eina rétta, greiddi ég atkvæði gegn aðild Svíþjóðar að Evrópusambandinu. Það hafði engin áhrif og Svíþjóð gerðist aðili að sambandinu. Fljótlega sá ég að ég hafði gert rangt með atkvæði mínu og varð sannfærð um að Evrópusambandsaðild væri hið eina rétta fyrir Svíþjóð. Af hverju ekki líka fyrir Ísland?

Eftir að ég flutti aftur til Íslands árið 1996 hélt ég áfram að styðja minn gamla flokk. Ónefndur var þá horfinn úr flokknum til annarra starfa sem hæfðu betur hans metnaði og ekkert stóð í vegi fyrir áframhaldandi stuðningi við Alþýðubandalagið nema eitt, einangrunarstefnan og baráttan gegn Evrópusambandinu. Í nokkur ár studdi ég samt flokkinn og síðar Vinstri hreyfinguna, grænt framboð sem þó lét ekki af neikvæðri stefnu gagnvart Evrópu. Að lokum gafst ég upp og innritaði mig í Samfylkinguna.

Í nokkur ár átti ég góða daga með Samfylkingunni, var virk, mætti á marga fundi, var kosin í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, tók þátt í frægum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum í ársbyrjun 2009 þar sem samin var ályktun gegn stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og sem varð að stjórnarslitum fáeinum dögum síðar. Um vorið átti ég meira að segja sæti neðarlega á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, en þótt ekki ætti ég neina möguleika á þingsæti, vann Samfylkingin stórsigur um allt land og Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra.

Eftir tveggja ára stjórnarsetu í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík, fyrst undir formennsku Helgu Völu Helgadóttur og síðar undir stjórn Kjartans Valgarðssonar fór ég að verða afhuga starfinu. Baráttuandinn var vissulega til staðar enda þjóðfélagið í rúst eftir hrunið og okkar barátta miðaðist við að endurreisa þjóðfélagið. Það urðu þó ákveðin vatnaskil á landsfundinum 2011, en ég komst ekki á fundinn vegna vaktavinnu minnar. Ég studdi þó áherslur hins baráttuglaða Kjartans Valgarðssonar og fleiri en mátti mín lítils fjarverandi. Þegar kom að formannskjöri tveimur árum síðar studdi ég að sjálfsögðu félaga Guðbjart Hannesson frá Akranesi, en hann fékk ekki nægan stuðning og Árni Páll varð formaður og byrjaði sína formennsku með því að kasta stjórnarskrárfrumvarpinu á glæ. Þar með var ég komin út á klaka og átti ekki nóg afl í sálu minni til að berjast fyrir Samfylkinguna þótt vissulega greiddi ég henni atkvæði mitt um vorið. Sömu sögu er að segja af sveitastjórnakosningunum 2014. Ég var ekki tilbúin til að berjast en samt fékk Samfylkingin atkvæði mitt.

Í ársbyrjun 2015 var enn og aftur boðað til landsfundar. Samfylkingarfélagið í Reykjavík þar sem ég var og er enn skuldlaus félagi tilnefndi mig sem landsfundarfulltrúa. Vegna vaktavinnu minnar átti ég erfitt með að mæta á landsfundinn. Ég komst ekki á félagsfund sem haldinn var í febrúar en en var samt lengi tveggja átta, get ég mætt eða get ég ekki mætt og ýmist tilkynnti ég mig á landsfundinn eða að ég afboðaði mig. Loks kom að landsfundinum, ég komst, greiddi mitt landsfundargjald og mætti á Hótel Sögu þegar landsfundurinn hófst.

Mér var vísað út.

 Þegar ég ætlaði að skrá mig á fundinn var mér tilkynnt að ég ætti ekki heima á fundinum, ég hefði ekki mætt á fund í lok febrúar þar sem ákveðið hefði verið hverjir væru fulltrúar Reykjavíkur til landsfundarins og því yrði ég að vera úti. Mig grunaði reyndar að allt annað lægi að baki. Sem yfirlýst stuðningsmanneskja Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur væri verið að loka á stuðningsfólk hennar. Þótt formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík sýndi kjörnefnd landsfundarins svart á hvítu að ég væri tilnefnd sem fulltrúi félagsins til landsfundar fékkst því ekki haggað og mér var nánast vísað á dyr og ég gekk út óflokksbundin, án þess að vera meðlimur í Samfylkingunni. Ógreitt atkvæði mitt sagði allt um traustið til Sigríðar Ingibjargar og um leið fækkaði stuðningsfólki Samfylkingarinnar um eina manneskju.

Ég verð áfram meðlimur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Þangað greiði ég mín félagsgjöld og styð stjórn SffR heilshugar en ég er ekki meðlimur í Samfylkingunni. Ég vil þó taka fram að ég styð formanninn sem persónu, en ekki endilega sem formann. Sá flokkur hefur sýnt mér slíka lítilsvirðingu að ég mun eiga erfitt með að styðja hana í framtíðinni. Það verður eitthvað mikið að gerast til þess að svo verði.

Ég er jafnaðarmanneskja. Ég styð sósíalisma og jafnrétti þegnanna en um leið styð ég sameiningu jafnaðarmanna í Evrópu fyrir betra samfélagi. Ég lifi enn í þeirri veiku von að jafnaðarmenn Evrópu sameinist og verði afl, ekki aðeins á Norðurlöndunum og í Þýskalandi, heldur einnig á Íslandi.