miðvikudagur, febrúar 17, 2016

17. febrúar 2016 - Veikindi


Ég er með kvefpest, ekki flensu. Röddin hljómar eins og whiskýbassi, ég er þurr í hálsinum og öll önnur einkenni kvefs, en ég er ekki með beinverki og ekki mikinn hita, þó einhvern, semsagt kvef, ekki flensu.

Ég hefi verið heppin. Þau tilfelli sem ég hefi fengið kvefpest eða flensu á undanförnum áratugum eru teljandi á fingrum annarrar handar, en það versta er þó að venjulega fæ ég slíkt þegar ég er að byrja á frívakt og get því ekki notað vinnutímann til að veikjast. Nú fékk ég kvefpestina á síðustu vaktinni minni fyrir vaktafrí og því voru einustu vandamálin þau að maðurinn sem átti að leysa mig af var einnig lasinn heima og því komst ég ekki heim af vaktinni fyrr en annar maður var kominn til að leysa mig af.

Ég vinn vaktavinnu. Hver vakt er tólf tímar eftir svipuðu kerfi og mér skilst að sé við lýði hjá Slökkviliðinu. Sagt er að vaktavinna sé mun verri fyrir heilsuna en dagvinna og er ég ekki frá því að svo sé enda ósjaldan sem ég var með slæman höfuðverk á næturvaktinni áður en uppgötvaðist að ég var með alltof háan blóðþrýsting og fékk lyf gegn honum. Ég hefi reyndar unnið vaktavinnu meirihluta starfsævinnar, lengi vel á sjó, síðar í landi. Það er kannski vandamálið að við erum öll fyrrverandi sjómenn sem unnum okkar skyldustörf án þess að kvarta og gerum svo enn löngu eftir að við fórum í land. Ég byrjaði á vöktum í stjórnstöð Orkuveitunnar nokkrum árum eftir að ég hóf störf hjá Hitaveitunni. Þeir menn sem unnu í stjórnstöðinni er ég hóf þar störf eru allir komnir á eftirlaun fyrir löngu og allir lifandi í dag við góða heilsu. Á þeim tíma er ég kom í stjórnstöðina var hlutfall veikindadaga innan stjórnstöðvar langlægst innan fyrirtækisins og er kannski enn, ég veit það ekki. Við erum ekki að streytast við að vinna þegar við erum veik, en einhvernveginn hittist svo á að ég veikist yfirleitt þegar ég er á frívakt. Það er óvenjulegt að einhver veikist í vinnutímanum eða þegar hann/hún á að mæta á vaktina.

Kannski er ég af gamla skólanum. Ég get ekki hugsað mér að mæta ekki í vinnuna þegar vinnuskyldan kallar. Um leið er varhugavert að mæta til vinnu í upphafi veikinda og smita alla í kringum sig, en þess ber þó að geta að við í stjórnstöðinni vinnum í vernduðu vinnuumhverfi þar sem enginn kemst að okkur nema með passa og pinni og því ekki mikið um smit í vinnunni.

Kannski er ég einfaldlega með of mikið írskt þrælablóð í æðum og hlýði þegar skyldan kallar. Á tuttugustu öldinni var þetta kallað þrælsótti og er kannski enn í fullu gildi fyrir okkur sem teljumst af gamla skólanum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli