laugardagur, janúar 30, 2016

30. janúar 2016 - Ljósmyndir


mbl.is/Omar

Á föstudaginn langa árið 2011 voru félagar í Samtökunum 78 fengnir til að lesa Passíusálmana í Grafarvogskirkju og ég tók þátt í upplestrinum. Þegar ég hóf lesturinn á þeim köflum sem mér höfðu verið úthlutaðir, veitti ég athygli ljósmyndara sem hegðaði sér allt öðruvísi en ég átti að venjast af ljósmyndurum. Hann virtist taka myndir úr öllum mögulegum áttum, lagðist jafnvel í gólfið til að finna út rétta sjónarhornið. Daginn eftir var þessi fallega mynd af mér í Morgunblaðinu, ein af bestu myndum sem hafa verið teknar af mér, ásamt reyndar mynd Evu Bjarkar af mér í gleðigöngunni tveimur árum síðar.Ég komst síðar að því að ljósmyndari Morgunblaðsins héti Ómar og hefi oft séð til hans eftir þetta, meðal annars þar sem hann óð út í Reykjavíkurtjörn í vaðstígvélum til að ná sem bestu sjónarhorni fyrir myndatökur við kertafleytinguna í minningu við kjarnorkuárásirnar í ágúst 1945.

Þessi tvö sem ég hefi nefnt hér að ofan eru mér fyrirmyndir þegar ég er að basla við að taka myndir. Ég átti ágæta myndavél af gerðinni Asahi Pentax fyrir fjórum áratugum, en fór illa með hana við tilraunir til brælumyndatökur og á endanum hætti hún að vinna eðlilega, fékk mér þá Koniku en hún hvarf mér við skilnað árið 1984 og lengi eftir það átti ég enga myndavél og fjölmörg tækifæri til góðra mynda fóru fyrir bí, þar með talin öll árin mín í Svíþjóð.

Snemma á nýrri öld eignaðist ég digital myndavél, litla vél og lélega þrátt fyrir hátt verð, eignaðist svo aðra vél árið 2006 af gerðinni Canon Powershot A620 og þar með fékk ég áhugann á ný og myndatökuáhuginn hófst fyrir alvöru. Árið 2009 þurfti ein vinkona mín að losa sig við gamla Canon EOS 400d myndavél með tveimur linsum og fleiru og ég var blönk. Fór samt í bankann og fékk lánað fyrir vélinni og keypti hana.

Nú sit ég hér heima með ágæta Canon EOS 70d, 50 mm macro linsu, 10-22 mm gleiðlinsu, 17-40 mm gæðalinsu, 18-135 mm standard linsu og loks 100-400 mm aðdráttarlinsu og vantar eiginlega bara eina góða 70-200 mm linsu til að fullkomna settið þar til ég fer yfir í fullframe vél sem verður hugsanlega þarnæsta skref á þróunarbrautinni á eftir 70-200 mm linsunni.

Þó er eitt vandamál sem ég bý við. Ég er hræðilega lélegur ljósmyndari! Mér hefur vissulega tekist að ná frábærum ljósmyndum, af könguló að sækja bráð sína, af hringjaranum í Notre Dame og af togara sem birtist á frímerki. Spurningin er þó sú hvort þar sé ekki góðum græjum að þakka fremur en hæfileikum ljósmyndarans.

Ég bara spyr?0 ummæli:Skrifa ummæli