föstudagur, janúar 01, 2016

1. janúar 2016 - Við áramót

Mörgum þykir snjallt að líta um öxl á áramótum og reyna jafnframt að horfa fram á veginn til komandi árs. Ég hefi gert slíkt nokkrum sinnum og reyni nú enn á ný að endurtaka leikinn.

Liðið ár var fremur óspennandi í lífi mínu. Fátt gerðist sem hafði mikil áhrif á líf mitt annað en daglegt strit og óspennandi líf í úthverfi og ekkert það gerðist sem valdið getur meltingartruflunum annað en kannski skemmdur matur í ísskápnum. Að minnsta kosti höfðu venjulegar fjárhagsáhyggjur engin áhrif á heilsufarið enda tókst mér að vera í skilum allt árið eins og oftast áður þrátt fyrir lág laun. Ég hélt áfram að búa á sama stað og síðasta áratuginn, enginn maki kom inn í líf mitt og kisurnar héldu áfram að vera þægar og góðar og létu jólatréð í friði sem endranær, annað en villikötturinn hennar Vigdísar Hauksdóttur. Ég hélt áfram að aka um á sama bílnum og frá upphafi kreppunnar og má hann muna dagana tvenna kominn á fermingaraldurinn. Eitthvað dró ég úr félagsmálastörfunum á árinu, en fór þess fleiri æfingar með Slysavarnaskóla sjómanna og björgunarsveitinni Ársæli í sjálfboðavinnu.

Markmið síðasta árs stóðust fullkomlega, ég náði markmiðinu að komast niður fyrir 75 kg að þyngd, kannski að einhverju leyti með hjálp fólks sem fylgdist vel með á Facebook og komst fyrir bragðið til Parísar í verðlaunaskyni fyrir að ná markmiðinu. Þar átti ég fjóra frábæra daga sem voru enn betri vegna dyggrar aðstoðar Parísardömunnar, Kristínar Jónsdóttur sem var óþreytandi að sýna mér það markverðasta sem París hefur upp á að bjóða og náði meira að segja að kynna mig fyrir Kvasimoto hringjara í Notre Dame auk þess sem Montmartre er þess virði að kynnast betur fljótlega.

Það var fátt um fæðingar eða dauðsföll meðal nánustu ættingja, reyndar engin dauðsföll sem betur fer, en talsverð afföll urðu meðal gamalla skipsfélaga og kunningja og í lok ársins létust tvö af virkustu félögum Ættfræðifélagsins með skömmu millibili svo það bíða tvær jarðarfarir á fyrstu dögum nýs árs.

-----

Ekki get ég sagt að ég hafi fastmótaða áætlun eða áramótaheiti á nýju ári. Eitt er þó ljóst að ég ætla að vera örlítið kærulausari á þessu ári en hinu fyrra, reyna aðeins að njóta lífsins eftir því sem efni og ástæður leyfa. Ég þarf að ná þessum kílóum af mér aftur sem hlóðust á mig seinnihluta haustsins og yfir hátíðarnar, en það verður vonandi bæði létt verk og löðurmannlegt. Ég ætla ekki að eyða umfram efni í gamlar og ónýtar bíldruslur, en reyna frekar að rækta sambandið við fólk. Fyrsta utanlandsferðin verður væntanlega farin í apríl, þá til Edinborgar og Newcastle  og vonandi önnur seinnihluta maí eða snemma í júní. Að öðru leyti er erfitt að tjá sig því spádómsgáfa mín er engin og allt lífið tilviljunum háð.

Umfram allt ætla ég að reyna að fá eins mikið út úr árinu og mér frekast er kostur en um leið að vera betri manneskja án þess að ganga of nærri sjálfri mér eins og oft áður.  


0 ummæli:Skrifa ummæli