sunnudagur, janúar 03, 2016

3. janúar 2016 - Hvar ertu Dario Fo?

Fyrir rúmum fimm árum síðan fóru fram stjórnlagaþingskosningar á Íslandi þar sem einstaklingar voru kjörgengir en ekki stjórnmálaflokkar. Þótt einstöku stjórnmálaflokkar reyndu sitt til að hafa áhrif á kosningarnar og jafnvel eyðileggja þær og tilgang þeirra greip um sig eitthvert æði meðal íslensku þjóðarinnar og fólk hamaðist við að safna undirskriftum og bjóða sig fram. Ég hafði ekki áhuga á framboði í upphafi, studdi meira að segja frambjóðenda sem ég taldi líklegan til áhrifa á stjórnlagaþingi, en áður en framboðsfresti lauk hafði hópur ungs fólks safnað tilskyldum meðmælafjölda og skoraði á mig að bjóða mig fram. Með þessari áskorun gat ég ekki annað en boðið mig fram og á endanum varð ég í 43. sæti af 523 frambjóðendum og lenti örfáum sætum ofar en sá frambjóðandi sem ég studdi til stjórnlagaþings.

Hefði ekki verið heppilegra að sameinast um hæfari persónuna til stjórnlagaþings í þeirri von að þessi aðili, mun greindari en ég, hefði áhrif á stjórnarskrárdrögin? Ég er ekki í nokkrum vafa í dag, en það skiptir ekki máli úr þessu því misvitrir stjórnmálamenn eyðilögðu þetta gullna tækifæri íslensku þjóðarinnar til að gera sjálf sína eigin stjórnarskrá, eitthvað annað en staðfærðu dönsku stjórnarskrána frá 19. öld með smábreytingum á þeirri tuttugustu sem er í gildi á Íslandi í dag. Það breytti ekki því að stjórnlagaþingskosningarnar breyttust í farsa í miðju undirbúningsferli og það dró úr alvarleika kosninganna og dró úr vægi þeirra.

Þessa dagana er að byrja mikill farsi á Íslandi. Einungis tveimur dögum eftir að fráfarandi forseti tilkynnti að hann hygðist ekki bjóða sig fram aftur höfðu sex manns tilkynnt opinberlega framboð sín til embættis forseta Íslands. Að auki er allstór hópur fólks orðaður við framboð. Það stefnir í að framboðin verði á annan tuginn ef ekki fleiri og þegar haft er í huga að algengt er að forsetar séu kosnir með minnihluta greiddra atkvæða, er viðbúið að hlutfallið verði enn verra í sumar, að sigurvegarinn verði kosinn með fáum atkvæðum en verði þó með flest atkvæði á bakvið sig. Það þarf ekki skarpa manneskju til að sjá í þvílíkar ógöngur slíkt getur leitt þjóðina ef einstaklingur með mjög einstrengingslegar skoðanir kemst á Bessastaði með kannski innan við 10% atkvæða.


Mér er ekki hlátur í hug þótt ég geri góðlátlegt grín að öllum nýju mishæfu forsetaframbjóðendunum, en lýsi eftir góðu leikskáldi sem getur og þorir að hæðast að þessum kjánaskap núverandi stjórnarskrár varðandi val á forseta Íslands og getur fært þennan farsa á fjalir leikhússins.  Ég veit vissulega um einn Ítala sem sannarlega gerði grín að samtíð sinni og hann er enn á lífi og kemst brátt á tíræðisaldurinn. Því segi ég:

Hvar ertu Dario Fo? Ísland þarfnast þín NÚNA!  


0 ummæli:







Skrifa ummæli