þriðjudagur, janúar 26, 2016

26. janúar 2016 - Bjölluhljómur á Alþingi



Það voru fréttir í útvarpinu í dag og þar var sagt frá ræðu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur þingkonu VG um kjör ljósmæðra í umræðum um störf þingsins, en lítið heyrðist í henni vegna þess að forseti lamdi í bjölluna án afláts í því hljóðbroti sem sent var út í fréttum. Þegar ég fór að hlusta eftir orðum hennar á Alþingisvefnum höfðu liðið  rúmar þrjár mínútur frá því Rósa kom í pontu og þar til forseti hóf að lemja bjölluna af miklum móð, en ekki veit ég hvort það var af ókunnugleika hennar á störfum þingsins eða einhverju öðru sem hún hóf ekki ræðu sína fyrr en hún var búin að koma sér vel fyrir við púltið og alltaf tifaði klukkan á meðan. Það má því deila um það hvort bjallan hafi hljómað of snemma eða hvort forseti hefði átt að gefa nýrri þingkonu örlítið meira ráðrúm til að ljúka máli sínu, en mikið skelfing var leiðinlegt að hlusta á bjöllu forseta í útvarpinu enda heyrðist lítið af ræðunni á meðan.

Ég fór að velta fyrir mér. Hvað hefur þessi bjalla mikil áhrif á virðingu fólks fyrir Alþingi? Við vitum að virðingin er alls óásættanleg, að hluta til vegna málþófs en einnig að hluta vegna þess að þingfréttamenn virðast vera alveg einstaklega lagnir við að útvarpa hljóðbrotum af bjöllu forseta en síður af efnisatriðum. Ég ætla svo ekkert að tjá mig um litla virðingu margra þingmanna fyrir sjálfum sér og öðrum. Því virðist af útvarpsupptökum að ræða sem að þingforseti sé í fullu starfi við að berja í klukkuna sem af einhverjum ástæðum virðist staðsett rétt við hljóðnema fyrir útvarpssendingar.

Af hverju er þetta svona? Af hverju heyrist aldrei í bjöllunni hjá þingforseta í öðrum þingræðisríkjum?

Vissulega á ræðumanni að vera vel kunnugt um takmarkaðan ræðutíma sinn. Við ræðupúltið eru ljósmerki, grænt ljós þegar allt er innan marka, blikkandi grænt þegar leyfilegum ræðutíma fer að ljúka og síðan rautt ljós og stendur forseti þá upp og byrjar að slá í bjölluna. Sumir forsetar eru vissulega duglegri við bjölluna en aðrir. Er samt ekki einfaldara að forseti slái bara einu sinni í bjölluna sem merki um að ræðutíma sé lokið eða gefi eitthvað annað merki til ræðumanns og síðan lokað fyrir hljóðnemann einhverjum sekúndum síðar?

Bara hugmynd sem er vert að hugleiða við næstu endurskoðun þingskaparlaga. Ekki veitir af að bæta virðingu Alþingis.


0 ummæli:







Skrifa ummæli