laugardagur, janúar 23, 2016

23. janúar 2016 - Þorramatur með afleiðingumBóndadagurinn og upphaf þorra voru á föstudaginn og samkvæmt venju gerði mötuneyti Orkuveitunnar deginum góð skil og bauð upp á þorramat í hádeginu. Þótt ég hefði verið í vinnu á suðurlandi mestalla vikuna gætti ég þess vandlega að ljúka verkefnum mínum svo ég næði í þorramatinn í mötuneytinu og að sjálfsögðu át ég yfir mig. Eitthvað meira borðaði ég um eftirmiðdaginn, skrapp á kaffihús og bætti á mig vöfflu með rjóma og hafði ekki meiri lyst á mat þann daginn.

Um kvöldið fór ég að finna fyrir magaverkjum, gleypti eina létta parkódín og fór að sofa eftir að hafa létt á mér á Facebook og bloggi. Ég vaknaði um klukkan fjögur um nóttina og hafði þá mikla verki, ekki í lungum eða hjarta, fremur í magaopi. Ég var ekki viss um hvað væri að, hversu alvarlegt þetta væri og vissi ekki hvað ég ætti að gera af mér. Átti ég að renna á bráðavaktina eða hringja í sjúkrabíl? Verkurinn versnaði bara og ég sá fyrir mér jarðarför og dauða og djöful, en samt sannfærð um að þetta væri eitthvað smámál.

Ég reyndi þvinga fram uppsölur, en það gekk illa. Ég skreið aftur upp í, reyndi að beita sjóveikistellingunni en hún hafði ekkert að segja. Það skipti engu máli hvernig ég lá, verkurinn hélt áfram. Ég óð um gólf í kvölum mínum og svo fann ég að eitthvað var að losna, ég fór á salernið og náði að kasta upp. Upp úr mér komu fleiri fituklumpar að mér fannst. Eftir að hafa skolað munninn vel skreið ég aftur upp í og steinsofnaði.

Ég vaknaði aftur um morguninn þegar Margrét og Felix hljómuðu í útvarpsvekjaranum mínum og allir verkir farnir, prestar og jarðarfarir voru víðsfjarri. Ég dreif mig í heitt bað, greinilega enn vansvefta því ég þvoði mér um hárið, skolaði, setti hárnæringu í hárið en gleymdi að skola, því þegar ég var komin niður í bæ tveimur tímum síðar uppgötvaði ég að hárið var enn stíft af hárnæringunni. Ég náði allavega að sofna yfir ágætum Spaugstofuþætti og varð loks að horfa á hann á plúsnum.

Ég fer að halda að ég sé ekki lengur tvítug að aldri.  


0 ummæli:Skrifa ummæli