sunnudagur, október 20, 2013

20. október 2013 - Horst Gorda


Það eru komin nokkur ár síðan Óttar Guðmundsson geðlæknir bað mig um að vera skjólstæðingi sínum innanhandar. Ég samþykkti það og einhverjum dögum síðar hafði Horst samband við mig og ég reyndi að kynna hann fyrir fólki í sömu stöðu. Hann var að vinna í fiski í litlu fiskverkunarfyrirtæki og hafði orðið fyrir talsverðum fordómum á vinnustaðnum meðal annarra útlendra starfsmanna vegna þeirrar staðreyndar að hann var skráður sem kona í öllum opinberum gögnum, hvort heldur var íslenskum eða lettneskum. 

Löngu áður hafði ég lítillega kynnt mér stöðu transfólks í Lettlandi, meðal annars hitt lýtalækni í Riga haustið 1994, en hann hafði framkvæmt aðgerðir til leiðréttingar á kyni fólks á Sovéttímanum, en hafði enga aðgerð framkvæmt eftir hrun Sovétríkjanna og stofnun lýðveldisins Lettlands. Því skyldi ég vel örvæntingu transfólks í Lettlandi sem flúði land í þeirri von að komast í sitt rétta kynhlutverk í nýju landi. Ég hitti Horst nokkrum sinnum en svo hvarf hann mér sjónum um tíma, en síðar hitti ég hann og þá var hann orðinn landbúnaðarverkamaður austur á Flúðum. Þá var staða hans orðin öllu verri en hún hafði verið þegar hann hóf undirbúning leiðréttingar á kyni því enginn geðlæknir treystir sér til að taka á sig þá ábyrgð að sleppa illa höldnum alkóhólista alla leið í aðgerð nema hann taki sig á gagnvart fíkninni og þar hafði Horst iðulega fallið fyrir flöskunni.  Sjálf hitti ég Horst aldrei meðan hann var undir áhrifum, en hann viðurkenndi fúslega fyrir mér hina bágu stöðu sína og var uppfullur vilja til að taka sig á gegn þessum erfiða vágesti sem Bakkus er.

Ég hitti hann síðast vorið 2013. Þá var hann í vandræðum vegna erfiðleika með að fá skjöl frá Lettlandi, en hafði verið edrú í lengri tíma, búsettur á áfangaheimili fyrir fólk sem var að reyna að koma undir sig fótunum eftir að hafa fallið í gryfju alkóhólismans. Ég reyndi hvað ég gat, benti honum á að leita til Mannréttindaskrifstofu Íslands í þeirri von að þau gætu aðstoðað hann, en síðan heyrði ég ekkert meira frá honum fyrr en ég frétti af andláti hans á Klambratúni.

Sú hugmynd hefur komið upp að setja ríkisborgararétt sem skilyrði fyrir leiðréttingu á kyni. Þessu er ég algjörlega ósammála. Atriðið um fasta búsetu á Íslandi um lengri tíma er fullnægjandi. Sjálf þurfti ég að bíða í fleiri ár eftir aðgerð vegna þess að ég var Íslendingur er ég óskaði leiðréttingar á kyni í Svíþjóð og óska engum þess að lenda í þeirri aðstöðu aftur og það atriði í íslensku lögunum er einmitt það sem gerir íslensku lögin fremri en lög annarra landa í nágrenni okkar. Slík klásúla myndi einungis búa til ný vandamál en ekki leysa nein.    

Kannski hefði ég getað betur og verið Horst betri vinur, en það er of seint að iðrast. Horst er látinn og verður ekki vakinn upp aftur. Um leið er hann ekki fyrsta transmanneskjan sem fellur vegna fordóma og erfiðleika og örugglega ekki heldur sú síðasta.  Það er hinsvegar okkar eftirlifandi að sjá til þess að lög og reglur verði fordómalausar og í samræmi við almenn mannréttindi og óskir okkar um vera þær manneskjur sem við teljum okkur vera og minnka þannig hættuna á frekari ónauðsynlegum dauðsföllum.

Þar er mikið verk eftir óunnið sem verður að setja í hendur þeirra sem nú hafa tekið við keflinu í baráttunni fyrir mannréttindum transfólks á Íslandi.


miðvikudagur, október 16, 2013

16. október 2013 - Eftirsjáin (Ångrarna)



Ég hugsa aftur í tímann. Við fengum nýjan gjaldkera í félagið Benjamin sem var félag transsexual fólks í Svíþjóð. Hún var miðaldra, bjó með móður sinni og hafði átt sér þann draum í mörg ár að verða kona.

Það var ekki sjálfsagt mál að verða kona í Svíþjóð í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Ekki síst fyrir konur sem voru fæddar sem karlar og þar var vinkona mín engin undantekning.  Hún hafði sótt um að komast í aðgerð með breytingum á kyni og nafni í þjóðskrá en fengið neitun, einungis samþykkt breyting á nafni. Í allri kyrrð hélt hún áfram að berjast samtímis því sem hún gætti sjóða félagsins okkar af kostgæfni, var virk í litla félaginu okkar með rúmlega hundrað félaga og loks kom heimild og hún lagðist undir hnífinn og kom út sem kona.


Við ákváðum samtímis að stíga til hliðar, hún hætti sem gjaldkeri, ég sem formaður félagsins. Ég flutti til Íslands en hún hélt áfram að hjúkra aldraðri móður sinni sem lést ekki löngu síðar. Skömmu eftir þetta átti ég erindi til Stokkhólms og hitti vinkonu mína og hún tjáði mér að sér liði illa. Hún hefði vissulega fengið það sem hún sóttist eftir, en það var eitthvað sem var ekki sem hún hafði vænst.

Hún sá eftir öllu saman.

Mörgum árum síðar sá ég kvikmyndina Ångrarna þar sem vinkona mín og önnur manneskja tjáðu sig um mistökin sín í lífinu. Nú er myndin komin til Íslands og ég horfi á hana öðru sinni, finn til með báðum samtímis því sem ég horfi á eigið líf og angra einskis. Ég átti aldrei annan möguleika og gæti ekki hugsað mér að snúa til baka til karlkyns.