laugardagur, október 08, 2016

8. október 2016 - HandlangÉg var að horfa út um glugga heima hjá mér í morgun og sá hvar fólk var að bera búslóðina sína í flutningabíl fyrir utan eitt húsið nærri mér. Það er að sjálfsögðu alveg ótækt að fólk vilji yfirgefa mig og þægilega nærveru mína sem nágranna, en þar sem viðkomandi tilheyrðu öðru lóðarfélagi en mínu gat ég ekki annað en óskað þeim velfarnaðar á ókunnum slóðum í huganum.

Það var þó annað mér þótti ótækt. Fyrst sá ég mann bera kassa út í bíl og hljóp svo inn og svo kom annar maður með kassa í bílinn og hljóp svo inn og svo kom þriðji maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo kom fjórði maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo kom fyrsti maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo áfram koll af kolli. Skelfing eru þetta kjánaleg vinnubrögð hugsaði ég og hló í huganum að óþarfa erfiði mannanna,en rifjaði svo upp í huganum er ég flutti hingað og sömu vinnubrögð voru viðhöfð. Af gömlum vana ætlaði ég að notast við handlang en enginn tók mark á slíku og enginn tók við og ég þurfti að hlaupa með sérhvern kassa alla leið sem og þeir sem aðstoðuðu mig við flutninginn gerðu hið sama, hlupu með sérhvern kassa upp um tvær hæðir og síðan niður aftur eftir næsta kassa og báru upp tvær hæðir. Þegar allir kassarnir voru komnir ásamt öllum húsgögnum voru allir burðarmennirnir uppgefnir af þreytu. Þvílíkur kjánaskapur, en ég hafði að einu leyti afsökun, var illa haldin af flensu á flutningadeginum og því ekki hörð á skipulaginu og lét öðrum um að skipuleggja vinnuna

Hvenær lagðist handlang af á Íslandi? Í minningunni var ávallt notast við handlang þegar fleiri manns voru til staðar við flutninga, sá sem neðstur var rétti þeim sem var fyrir ofan kassann og svo koll af kolli uns kassinn var kominn á sinn stað og þá var næsti kassi kominn langleiðina upp og fólkið þurfti ekki að hlaupa fleiri hæðir í tilgangsleysi til að sækja kassa sem voru úti í bíl, heldur létu manninn fyrir neðan rétta sér kassann og komu honum áfram til mannsins sem beið fyrir ofan.

Er þetta kannski enn eitt dæmið um að Íslendingar eru hættir að kunna að vinna skipulega? Er nema von að illa er komið fyrir þessari þjóð þegar einfaldasta flutningatækni er orðin óþekkt fyrirbæri og kjánaskapur.