föstudagur, febrúar 29, 2008

1. mars 2008 - Um áfenga drykki

Fyrir 19 árum var ég á göngu seint að kvöldi og rölti framhjá skemmtistað sem hét Abrakadabra og var held ég þar sem Keisarinn var síðar nærri Hlemmtorgi. Þar sem ég gekk fyrir hornið á Tryggingastofnun og suður Snorrabrautina, sá ég snyrtilega klæddan mann á miðjum aldri sem studdi sig við Tryggingastofnun með annarri hendi en ríghélt í öldós með hinni.

Maðurinn brosti með öllu andlitinu til umheimsins, augun voru fljótandi eftir talsverða bjórdrykkju og ljóst að hann var að leggja af stað heim eftir heimsókn á Abrakadabra og hamingjan var fullkomin. Hún var komin til mannsins í formi öldósar.

Þetta var að kvöldi 1. mars 1989 þegar bjórinn var leyfður á Íslandi eftir margra áratuga áfengishöft.

29. febrúar 2008 - Afmælisdagur Lindu frænku

Ég kynntist Lindu frænku í gegnum netið haustið 1998 eða snemma árs 1999. Hún var á kafi í að leita ættingja á Íslandi og fann ég tengingu við sjálfa mig í fimmta lið, tengingu sem síðar reyndist vera röng, en samt hélt Linda frænka áfram að vera Linda frænka.

Hún bjó vestur í Las Vegas afkomandi Helga Helgasonar tónskálds og náfrænka Jacobsen fjölskyldunnar (þar um leið beljakans í Mercedes Club) og hennar stærsti draumur var að heimsækja land áa sinna, en hingað hafði hún aldrei komið. Það var bara einn hængur á. Linda var með lungnasjúkdóm og hafði verið ráðlagt að fara ekki í flug sökum súrefnisskorts og hreyfihömlunar. Það var svo að vori aldamótaársins að Flugleiðir fundu leið til að bjarga málunum án mikils aukakostnaðar og Linda kom til Íslands 24 júní 2000.

Þarna var Linda ljóslifandi komin, sífellt hlæjandi, í hjólastól með súrefniskútinn, í góðum holdum og reykti mikið. Reykingar hennar við þessar aðstæður urðu mér slíkt áfall að ég ákvað að hætta að reykja og gerði svo alvöru úr því nokkrum vikum síðar, þann 6. ágúst og hefi ekki reykt síðan. Þessar tvær vikur sem hún var á Íslandi voru góður tími. Það var farið um allt suðurland, skoðaðar menjar eftir náttúruhamfarirnar dagana á undan og annað það merkilegt sem hægt að komast yfir á stuttum tíma.

Rúmlega tveimur árum síðar kom Linda frænka aftur til Íslands. Þá var hún að verðlauna sjálfa sig, því með þrautseigjunni hafði henni tekist að ná af sér 84 kg af líkamsfitu á tveimur árum, var staðin upp úr hjólastólnum og búin að leggja súrefniskútnum um sinn, en reykti enn. Það var haldið áfram að skoða land og þjóð, dáðst að norðurljósunum og farin ferð norður í land þar sem Linda kynntist íslenskum vetri í fyrsta og eina sinn. Við komum þar að sem tveir bílar höfðu fokið af veginum án þess að slys yrðu á fólki og lentum í minniháttar aðstoð við fólkið í bílunum. Þá var nú Linda frænka í essinu sínu og ég held að ég hafi aldrei séð hana ljóma jafn innilega eins og eftir þetta ævintýri.

Eftir þessa Íslandsför Lindu héldum við áfram góðu sambandi þótt aldrei léti ég verða af því að fara vestur í heimsókn, allt þar til að hún hætti skyndilega öllum tengslum við Ísland vorið 2005 án þess að nokkur skýring væri gefin. Mig grunaði að þetta væri í tengslum við sjúkdóm hennar því lungnaþemban var farin að ágerast að nýju, þótt síðar hafi verið gefin sú skýring að tölvunni hennar hefði verið stolið þar sem hún var á leiðinni heim úr viðgerð.

Linda lést úr lungnaþembu 2. febrúar 2006 og var jarðsett í heimaborg sinni Las Vegas. Ástæða þess að ég rifja þetta upp hér er að nú á hlaupársdaginn hefði hún orðið 16 ára sinnum fjórir, þ.e. 64 ára, en hún var fædd 29. febrúar 1944. Um leið er ástæða til að minnast hennar sérstaklega fyrir það hve hún átti auðvelt með að smita alla í kringum sig með lífsgleði.

(Hluti af þessu birtist á blogspot 15. febrúar 2006 er Linda var jarðsett, en góðar minningar um gott fólk eru aldrei rifjaðar upp of oft.)

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

28. febrúar 2008 - Nýr frændi, 46 ára :)

Ég lenti á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á miðvikudagskvöldið. Meðal fundargesta var fyrrum stjórnarmaður sem flutti stutta ræðu og fórst það verkefni vel úr hendi. Eitthvað fannst mér ég kannst við nafnið á kauða, hvort ekki væri um að ræða týnda frændann?

Föðurbróðir minn frá Stykkishólmi dvaldi í Reykjavík í tvö ár um tvítugt, tók bílpróf og lenti síðan í bretavinnunni þegar Bretar hernámu landið ásamt leiguakstri. Hann fór svo aftur vestur í Stykkishólm um 1942 þar sem hann bjó æ síðan og lést þar á miðjum áttræðisaldri um 1995. Nærri hálfri öld eftir að hann hafði dvalið í Reykjavík, fréttist að hann hefði skilið eftir sig lífsneista í Reykjavík, stúlku sem var farin að nálgast miðjan aldur.

Það var semsagt sonur hennar sem ég hitti á aðalfundinum, hinn myndarlegasti maður eins og von er og vísa. Að sjálfsögðu höfðum við ýmislegt að ræða um eftir fundinn og víst er að kynnum okkar er ekki lokið.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

27. febrúar 2008 - Útúrsnúningur vegna sölu Baldurs

Enn og aftur verð ég að tjá mig um söluna á Baldri. Í yfirlýsingu fjármálaráðuneytis er tekið fram að ríkið hafi grætt á sölu Baldurs á 37,8 milljónir þegar raunvirði skipsins var nærri hundrað milljónir. Ég held að þetta sé sett fram til að hvítþvo Sturlu Böðvarsson frá hneykslanlegum embættisfærslum.

Við erum að tala um skip sem var nærri hundrað milljón króna virði en var selt á um 37,8 milljónir. Slíkt heitir ekki að græða heldur að tapa. Þeir kunna að líta öðruvísi á málin í hinu háttvirta fjármálaráðuneyti, enda skilst mér að einhver starfsmaður þar hafi lent inni vegna aðkomu sinnar að fíkniefnum.

Í fyrra lenti þetta sama ráðuneyti í vondum málum þegar önnur ferja var til umræðu. Þar var ferja keypt og erum við enn að greiða gífurlegan kostnað við endurbyggingu á henni þótt hún hafi enn ekki komist í rekstur. Núna fáum við að heyra að ferja hafi verið seld á spottprís.

Er ekki kominn tími til að kenna starfsfólki fjármálaráðuneytisins að það heitir ekki að græða þegar ferjur eru keyptar dýrt og seldar ódýrt? Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 26. febrúar reynir Pétur Ágústsson að gera sem minnst úr kynnum sínum við Sturlu Böðvarsson. Ef farið er á Alþingisvefinn snýst málið við þar sem Sturla reynir í sífellu að hampa þessum sama manni sem neitar kynnum við hann.

Erum við nokkuð búin að gleyma því er fyrrum samgönguráðherra tók við Arnarfellinu fyrir hönd Færeyinga?

Enn og aftur verð ég að krefjast þess að embættisverk þessa sama fyrrum samgönguráðherra verði rannsökuð ofan í kjölinn allt frá fyrsta starfsdegi hans til hins síðasta.

Þar sem ekki er ætlast til að fólk kasti vondum orðum á fólk persónulega, dettur mér ekki til hugar að væna umræddan fyrrverandi ráðherra um að vera Ólsari en ekki Hólmari, enda gera Hólmarar ekki svona skandala. Umræddur fyrrverandi ráðherra býr í Stykkishólmi en ekki í Ólafsvík Sömuleiðis dettur mér ekki til hugar að ætla að umræddur Pétur Ágústsson af Svefneyjaætt, eigandi Sæferða hf., sé fæddur í Flatey á Breiðafirði en ekki í Stykkishólmi.

Mér þykir vænt um Hólmara enda komin af þeim.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/26/segir_rikid_hafa_hagnast_verulega_a_solu_baldurs/

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

26. febrúar 2008 - Fræknir feðgar

Allur bloggheimur hristist nú af vandlætingu yfir dómi héraðsdóms gegn Gauki Úlfarssyni vegna orða hans um ónefndan blaðafulltrúa Impregilo og ég fór að líta á ættir drengsins.

Gaukur er fæddur sama dag og Pinochet framdi blóðuga byltingu í Chile og lét m.a. myrða réttkjörinn forseta landsins, sjálfan Salvadore Allende, þ.e. 11. september 1973. Þetta er sami dagurinn og Bandaríkjamenn fengu að finna fyrir árásum 28 árum síðar.

Úlfar Þormóðsson faðir Gauks, var dæmdur fyrir guðlast þegar hann var ritstjóri Spegilsins ef mig misminnir ekki. Þá olli hann talsverðum titringi meðal frímúrara með ritum sínum um frímúrararegluna. Hann þótti sjálfur dálítið grófur og óvandur að meðulum sem blaðamaður og auglýsingastjóri Þjóðviljans sáluga þótt hann hafi farið að spekjast með árunum, en samt, hinn ágætasti félagi og friðarsinni.

26. febrúar 2008 - Um Breiðafjarðarferjuna Baldur

Fréttablaðið upplýsti í morgun að Breiðafjarðarferjan Baldur hafi verið seld einkavinum Sturlu Böðvarssonar fyrir tveimur árum án útboðs fyrir rúman þriðjung af raunvirði skipsins. Þetta var fyrir kosningar og þá var Sturla ennþá samgönguráðherra. Ári síðar var hann verðlaunaður fyrir vond störf sín með því að hann var gerður að forseta Alþingis. Núna kemur hneykslið í ljós með söluna á Baldri.

Af hverju hefur ekkert heyrst um þetta mál fyrr? Hvar voru fjölmiðlarnir þegar þessi sala átti sér stað? Er ekki kominn tími til að fara yfir embættistíma og embættisfærslur Sturlu Böðvarssonar í smáatriðum frá fyrsta degi til hins síðasta?

mánudagur, febrúar 25, 2008

25. febrúar 2008 - Ekkifrétt sunnudagsins

Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson borgarfulltrúi lýsti því yfir á sunnudag eftir fund með nánustu flokkssystkinum sínum, að hann ætlaði að halda áfram að leiða borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Þetta var mikil frétt að mati fjölmiðla. Fyrir okkur hin var þetta dæmigerð ekkifrétt.

Minnst þrisvar sinnum á síðustu tveimur vikum hefur vesalings Villi gengið framfyrir skjöldu og lýst því yfir að hann ætli að halda áfram að leiða borgarstjórnarhópinn sinn. Heldur hann virkilega að við trúum honum ekki? Við trúum honum alveg, líka þau sem hafa kvatt Sjálfstæðisflokkinn á síðustu vikum vegna þess að enginn vill axla ábyrgð á mistökunum í REI-málinu.

Einhvernveginn fer Villi að minna mig á Göran Persson síðustu dagana áður en hann tók við formennsku í Socialdemokratiska Arbetarpartiet og forsætisráðherraembætti í Svíþjóð í mars 1996, en hvað eftir annað lýsti hann því yfir að hann væri ekki á leiðinni að taka við forsætisráðherraembættinu, síðast þegar hann fór inn á lokaðan fund þar sem hann var valinn forsætisráðherra eftir afsögn Ingvars Carlssonar. Með þessum stælum sínum féll hann gjörsamlega í áliti hjá mér.

Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna eftir að hafa margheyrt þessar yfirlýsingar vesalings Villa, að hann sé að undirbúa sig undir að fylgja fordæmi Alfreðs vinar okkar Þorsteinssonar, hætta og setjast í helgan stein.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

24. febrúar 2008 - Ég og íslenskir Júróvisjónaðdáendur...

...virðumst fátt eiga sameiginlegt. Oftar en ekki hefi ég verið ósammála þeim lögum sem send voru í keppnina og talið önnur lög betri en þau sem kosin voru til þátttöku í Evrópsku sönglagakeppninni. Ef mig misminnir ekki, fannst mér eitthvað annað lag betra en Gleðibankinn þegar það keppti í undankeppninni þótt ég hafi vissulega tekið þátt í sigurgleði landans þegar lagið lenti í frægu 16. sæti.

Ég var þó sátt við lögin sem send voru út næstu tvö árin á eftir, en svo kom stóri skellurinn þegar kornungur söngvarinn náði ekki hæstu tónunum og Ísland lenti í neðsta sætinu. Eftir það fylgdist ég aðeins með Júróvisjón úr fjarlægð þar sem ég bjó í Svíþjóð. Þó man ég að við söfnuðumst saman hópur Íslendinga á krá einni á Södermalm þegar dóttir Svanhildar og Ólafs Gauks flutti sitt framlag sem við höfðum heyrt að væri alveg hreint frábært. Eftir að hafa heyrt lagið misstum við áhugann á Júróvisjón það árið.

Ein örfárra undantekninga þar sem ég og þjóðin vorum sammála var svo þegar Selma söng All out of luck, en það dugði samt ekki til. Birta þótti mér hræðileg og enn verri sem Angel. Á sama tíma tók lag Margrétar Kristínar, Röddin, þátt í undankeppninni og lenti í þriðja sæti. Einfalt og glæsilegt framlag sem því miður mátti síns einskis gegn áróðursmaskínu Einars Bárðarsonar. Þau ár sem Ísland fékk rétt á þátttöku í kjölfarið voru lög Íslands ekki þess virði að þeim væri hampað. Síðustu þrjú árin hefur Ísland ekki einu sinni komist upp úr undankeppninni.

Fyrir tveimur árum sló Silvía Nótt í gegn þrátt fyrir gullfallegt lag sem Regína Ósk flutti. Nú var eins og íslenska þjóðin ætlaði að koma í veg fyrir annan skandal og sendi Regínu Ósk til keppninnar með öllu verra lag, reyndar svo ömurlegt að Ísland má þakka fyrir að komast upp úr undankeppninni þótt löndunum sem komast áfram að þessu sinni verði fjölgað um helming.

Af einhverjum ástæðum grunar mig að lag Barða eigi eftir að heyrast mun meir á næstu mánuðum en sjálft sigurlagið. Allavega er gott til þess að vita að alltof langdreginni undankeppni er lokið og ekki ástæða til frekara áhorfs á Júróvisjón þetta árið. Þar er lokakeppnin meðtalin.

laugardagur, febrúar 23, 2008

23. febrúar 2008 - Enn einn vinstrimaðurinn!

Ég sat heima í makindum mínum og horfði á fréttirnar í sjónvarpinu á föstudagskvöldið þegar ég sá merkilegt atriði í fréttunum og gladdist mjög, svo mjög að ég verð að brjóta á nýrri reglu minni og blogga um það á miðnætti.

Hvað eiga þeir Gerald Ford, George Bush (faðir Dobbljú), Bill Clinton og hugsanlega Ronald Reagan (þótt ég efist um það) sameiginlegt. Jú, þeir eru allir örvhentir. Ef satt er með Ronald, þá eru einungis Jimmy Carter og Dobbljú sem pára til stafs með hægri hendi af síðustu sex forsetum Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir aðdáun mína á Hillary Clinton, þá bráðnaði ég gjörsamlega þegar ég sá í fréttunum að helsti keppinautur hennar um stuðning Demókrataflokksins, sjálfur Barack Hussein Obama, greip pennann með vinstri og hóf að skrifa hjá sér athugasemdir við orð Hillary Clinton.

föstudagur, febrúar 22, 2008

22. febrúar 2008 - Jákvæð eða neikvæð afstaða?

Fyrir nokkru hitti góður vinur minn sameiginlegan kunningja okkar úr æsku sem kallaður er Lalli Johns þar sem hann var á leið í Félagsmálaráðuneytið til viðræðna við Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra. Að sögn vinar míns var erindi Lalla það að athuga hvað liði óskum Breiðavíkurdrengja um fébætur til handa þeim sem töldu sig hafa orðið fyrir skaða vegna dvalar sinnar í Breiðavík.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun er ég heyrði að skýrsla Breiðavíkurnefndarinnar yrði lögð fram í dag. Í útvarpsfréttum benti Róbert Spanó formaður Breiðavíkurnefndarinnar á það að réttur til skaðabóta vegna vistunar drengja á Breiðavíkurheimilinu sé fyrndur samkvæmt lögum. Orð hans eru eðlileg enda liðin 35-55 ár frá þeim brotum sem þar voru framin og þá helst því broti forstöðumanns til átta ára að “með illu skal illt út reka”.

Ég styð algjörlega þær raddir sem telja að greiða beri drengjunum bætur vegna vistunar sinnar að Breiðavík, en um leið velti ég fyrir mér orðum Róberts Spanó þar sem hann bendir á að það þurfi að koma til jákvæð afstaða til greiðslu skaðabóta. Því spyr ég hvort ekki megi líta á orð Róberts sem kröfu til ríkisvaldsins um skaðabætur þar sem enginn ráðherra vill fá á sig þann stimpil að framkvæma embættisfærslur sínar með neikvæðri afstöðu til mála.

Lalla vegna og annarra Breiðavíkurdrengja vona ég svo að ríkisstjórnin afgreiði málið fljótt og vel og með jákvæðum og örlátum hætti.


http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/22/tvenns_konar_grundvollur_fyrir_hugsanlegum_botagrei/

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

21. febrúar 2008 - Köttur á ferð og flugi

Það var fyrir nærri tuttugu árum síðan að sænsk kisa sá opinn gám fyrir utan hús eitt í Lundi í Svíþjóð. Þetta var stór og mikill gámur í augum kattarins, blár að lit og fólk í kring við að setja búslóð inn í gáminn.

“Best að kíkja inn og sjá hvað er fleira áhugavert þarna inni” hugsaði kisa og læddist inn án þess að nokkur yrði hennar var. Svo kom einhver og lokaði gámnum og vesalings kisa var innilokuð í myrkrinu.

Svo var gámurinn hífður upp á flutningabíl og honum ekið til Hälsingborgar. Einhverjum dögum síðar kom svo skip og tók gáminn, hélt síðan sinni áætlun og síðan yfir hafið til Íslands. Í Reykjavík var gámnum skipað í land og eftir hefðbundna pappírsvinnu var hann fluttur vestur á Seltjarnarnes og settur niður á jörðina framan við hús eitt þar sem hann var opnaður. Hið fyrsta sem fólkið sá er það opnaði gáminn með búslóðinni sinni var glorhungruð kisa sem reynt hafði að leita sér matar í húsgögnum í myrkri gámsins án árangurs. Þá hafði hún gert ítrustu þarfir sínar inni í gámnum og lyktin var ógeðsleg af rifnum og tættum húsgögnum.

Ekki var þrautagöngu kisu lokið með þessu því henni var tafarlaust ekið upp á dýraspítala þar sem hún lauk ævi sinni samkvæmt lögum og reglum um innflutning dýra. Hennar hefur vafalaust verið sárt saknað af heimili sínu í Lundi í Svíþjóð.

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/02/21/kottur_a_ferd_og_flugi/

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

20. febrúar 2008 - Ábyrg fjármálastjórn?

Ábyrg fjármálastjórn er lykilatriði í stefnu núverandi meirihluta sagði núverandi formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur í viðtali við útvarpið í dag er hann svaraði orðum Dags B. Eggertssonar um svik á loforðum Sjálfstæðisflokksins.

Næst fáum við væntanlega að heyra að kaup mín sem útsvarsgreiðanda á húsunum að Laugavegi 4-6 sem og kostnaður minn við niðurrif toppstöðvarinnar við Elliðaár séu dæmi um ábyrga fjármálastjórn núverandi meirihluta.

Er nema von að sumir ónefndir borgarfulltrúar og aðstoðarmenn þeirra fái hiksta er ég hugsa til þeirra?

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4371151/3

20. febrúar 2008 - Leikur að tölum

Þær raddir heyrast æ oftar að nauðsynlegt sé að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 vegna mikils álags á sérhvern þeirra. Til þess að bæta úr þessu er sífellt meiri ábyrgð færð á hendur varaborgarfulltrúa.

Meirihluti Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks sem ríkti á árunum 1978 til 1982 gerði sér grein fyrir þessu álagi og samþykkti fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 21 fyrir kosningarnar 1982 og efa ég ekki að þetta ásamt skefjalausum áróðri Morgunblaðsins gegn skipulagsmálum hafi orsakað fall meirihlutans 1982 því auðvitað sér almenningur eftir aurunum sem fara í að fjölga borgarfulltrúum. Síðan var borgarfulltrúum fækkað aftur niður í 15 og hefur enginn þorað að impra á þessu síðan þá og nú sitja 15 borgarfulltrúar yfirhlaðnir verkefnum, en treysta æ meira á varaliðið til að leysa úr hinum ýmsu verkefnum.

En hvernig hefði staðan orðið ef borgarfulltrúarnir hefðu verið 21 við síðustu borgarstjórnarkosningar? Ég fór að reikna og fékk það út að við slíkar aðstæður hefðu Sjálfstæðismenn verið með níu borgarfulltrúa, Samfylking sex, Vinstrigrænir þrjá, F-listi með tvo og Framsókn með einn borgarfulltrúa. Þetta hefði með öðrum orðum þýtt að Framsókn hefði ekki komið til greina sem samstarfsflokkur Sjálfstæðisfloks eftir síðustu kosningar. Hinsvegar hefði ...... . ......... auðveldlega getað skriðið uppí hjá íhaldinu og þá væntanlega tekið Margréti með sér enda var þetta áður en allt fór upp í loft á milli þeirra tveggja. Þessi sami ...... ekki getað skriðið uppí hjá vesalings Villa nema Margrét væri einnig með. Ef hinsvegar Degi hefði auðnast að mynda meirihluta á sama hátt og átti sér stað síðasta haust, hefði ...... ekki getað sprengt þáverandi meirihluta þótt hann hefði komið sér heim til íhaldsins.

Ég veit hinsvegar ekki hvort hinn aukni fjöldi borgarfulltrúa hafi komið vesalings Villa inn í borgarstjórn 1982.

Til fróðleiks má þess geta að sveitarfélagið Jarmafellshreppur (Järfälla kommun) skammt norðvestan Stokkhólms þar sem ég bjó í Svíþjóð er með um 63 þúsund íbúa og fjöldi bæjarfulltrúa er 61.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

19. febrúar 2008 - Einu sinni var til stórt og mikið ríki

Einu sinni var stórt og mikið ríki suður á Balkanskaga sem hét Júgóslavía. Eftir að einhver sem var gestkomandi þaðan hér uppi á Íslandi skammaði íslensku þjóðina fyrir það hve lítið hún vissi um þetta stóra land las ég eitthvað smáræði um þetta merkilega land og komst meðal annars að því að landið var sambandsríki sem samanstóð af sex ríkjum. Síðan þetta var hefur landið farið í frumeindir sínar og gott betur því nú eru ríkin sem áður mynduðu Júgóslavíu orðin sjö. Þetta fer að minna á Þýskaland eftir 30 ára stríðið 1648. En eru svona smáríki ekki tímaskekkja?

Hægt er að velta því fyrir sér hversu heppileg slík smáríki eru sem stundum virðast einvörðungu sameinast um eina trú, eina tungu eða eitt fornt þjóðerni. Hvenær má búast við því að Vestfirðingar segi sig úr lögum við Ísland? Eða Vestmannaeyingar? Ég minnist þess er maður einn (Árni Johnsen?) hélt mikla ræðu um hversu mjög Vestmannaeyingar gætu orðið sjálfstætt ríki, en það var vel að merkja fyrir gos.

Í dag er þjóðríki orðið býsna óljóst og þjóðrembunni helst haldið við með boltaleikjum. Sjálf forðast ég þjóðrembuna og er sama þótt Ísland skori mark í handboltaleik.

Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að þjóðríkið sem og eintrúarríkið séu að renna sitt skeið á enda. Lái mér hver sem vill, en þjóðríkið hefur einungis verið til í rúm þúsund ár, en mannkynið margfalt lengur. Fótboltaleikir í þeirri mynd sem við þekkjum þá, hafa verið til í mun skemmri tíma.

mánudagur, febrúar 18, 2008

18. febrúar 2008 - Ég nenni ekki að blogga í nótt

Þegar ég settist fyrir framan tölvuna löngu eftir miðnættið og ætlaði að láta vitsmuni mína leka út á lyklaborðið og þaðan inn á netið, skeði ekki neitt. Það var ritstífla í gangi, svo slæm að ég kom ekki einasta orði frá mér.

Ég snéri mér að Hrafnhildi ofukisu og bað hana að blogga í þetta sinn. Hún séri sér snúðug undan og af svip hennar mátti helst lesa að hún kærði sig sko ekkert um að vera einhver varabloggari fyrir mig. Að auki væri hún köttur og kynni þarafleiðandi hvorki að lesa né skrifa: Síðan strunsaði hún beint inn í rúm og liggur þar nú og flatmagar. Ekki þýðir að biðja Tárhildi grátkisu enda er hún enn grátandi síðan ég banaði henni að hoppa á lyklaborði tölvunnar.

Því fór sem fór og ég verð að vona að mig dreymi eitthvað skemmtilegt sem ég get sett inn á netið þegar ég vakna.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

17. febrúar 2008 - Hvað kostar að rífa ónýt hús?

Það er eðlilegt að ég spyrji. Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað fyrir skömmu að kaupa ónýt hús við Laugaveg og endurbyggja þau fremur en að rífa þau. Niðurrifið átti reyndar ekki að vera á kostnað borgarinnar en nú hefur ............ ákveðið að láta mig og aðra útsvarsgreiðendur kaupa ónýt húsin og endurbyggja þau.

Inn við Elliðaár stendur gamla toppstöðin, löngu ónýt ásamt öllu sem í henni er. Ástæða þess að hún hefur ekki verið rifin fyrir löngu er sú að kostnaðurinn við að rífa hana hleypur á tugum eða jafnvel hundruðum milljóna sem ætti með réttu að lenda á reikningi Landsvirkjunar. Vegna mikils kostnaðar hefur fyrirtækið frestað niðurrifinu í mörg ár og notað stöðina sem geymslupláss.

En nú er komin ný borgarstjórn og nýr ............ í Reykjavík, fólk sem elskar ónýt hús, því verr farin því betra. Þetta kann Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar að meta og samkvæmt sunnudagsMogga hefur Landsvirkjun nú gefið borginni gömlu ónýtu toppstöðina með öllum þeim kostum og göllum sem fylgja. Þar með er reikningurinn fyrir niðurrif hússins kominn á mig og aðra útsvarsgreiðendur í Reykjavík.

Er nú bara að leggjast á bæn og biðja þess að ónefndur ............ fari ekki að friða draslið.

P.s. Það má að sjálfsögðu ekki rugla toppstöðinni saman við gömlu rafstöðina frá 1921 sem enn malar gull fyrir Reykvíkinga.

laugardagur, febrúar 16, 2008

16. febrúar 2008 - MH-ingar, æææ...

Með stúdentspróf frá MH í vasanum hlýtur hjarta mitt ávallt að vera með MH-ingum í Gettu betur. Svo hefur einnig verið öll þessi ár og jafnoft hefur gleðin breyst í vonbrigði, oftast þó á síðustu metrunum.

Þennan veturinn held ég þó aðallega með MH af gömlum vana. Mér finnst liðið ekki standa sig með sama glæsileika og oftast áður þótt þeir séu búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Ég get svosem fyrirgefið þeim að muna ekki nafnið á braskaranum í Société Générale sem og nafnið á Vonarskarði, en að klikka á einföldustu eðlisfræðispurningum eins og Beaufort-kvarðanum finnst mér öllu grátlegra í óvenju léttri keppni föstudagsins svo ekki sé talað um dæmigerðar hraðaspurningar úr nágrenni okkar eins og Þerney, styttuna af Jónasi og gamla konsúlatið að Höfða og síðan laufléttar spurningar um Sigurhæðir Matthíasar og Monróvíu, höfuðborg Líberíu.

Vissulega unnu MH-ingar keppnina naumlega á föstudagskvöldið, en það var einhvernveginn enginn sigurvegarabragur á þeim. Ef þeim á að takast að sigra keppnina sem ég vona svo sannarlega, verða þeir að standa sig betur en að vonast eftir sigri með heppninni einni.

Um leið fannst mér hálfgerð synd að Kvennaskólinn komst ekki lengra í þetta sinn.

föstudagur, febrúar 15, 2008

15. febrúar 2008 - Smurolíuhundur?

Ég er farin að hafa áhyggjur af henni Hrafnhildi ofurkisu. Hún kemur orðið heim dag eftir dag illa þefjandi af gamalli og brenndri smurolíu eins og gamall smurolíuhundur eða kannski eins og gamall bifvélavirki.

Þetta gengur ekki. Það er alveg á hreinu að ekki er hún að gera við bílinn minn því afturrúðuvinnukonan er jafnmikið biluð og fyrrum. Því grunar mig að hún sé farin að halda framhjá mínum vinstrigræna Subaru með einhverri druslu með leka smurolíupönnu.

Þá væri nú betra að að hún lyktaði eins og gamall vélstjóri. Þeir sverja sig að venju í ætt við sjómannastéttina því eins og máltækið sagði:

Old fishermen never die. They just smell that way!

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

14. febrúar 2008 - Ég þoli ekki óstundvísi!!!!

Ég skrapp á fund á miðvikudagskvöldið. Það þykir ekkert tiltökumál að mæta á fund, en þegar ég mætti tuttugu mínútum áður en fundurinn átti að hefjast var ég fyrsti fundargesturinn auk formannsins sem hafði opnað húsið tíu mínútum áður. Þú ert tímanlega á fundinum sagði hann mér og ég fór að rifja upp gamlar minningar úr hugarfylgsnum mínum. Ég þoli nefnilega ekki óstundvísi.

Einhverju sinni missti góð vinkona mín af flugvél og þurfti fyrir bragðið að kaupa nýja ferð til Íslands þar sem hún var orðin strandaglópur í útlöndum. Þetta komst í tal á milli mín og einhvers úr fjölskyldunni og svaraði þá fjölskyldumeðlimurinn, að ekki þyrfti að leita út fyrir fjölskylduna eftir slíkum dæmum og nefndi eina náfrænkuna sem hafði tvisvar misst af flugi. Fleiri hryllingssögur fékk ég einnig að heyra úr minni eigin fjölskyldu, t.d. af manninum sem mætti of seint í eigið brúðkaup svo ekki sé rifjuð upp sagan af einum sem kom heim til sín úr vinnu klukkan tíu mínútur yfir sex á aðfangadagskvöld jóla með jólatréð í fanginu.

Ekki er óstundvísin algjör innan fjölskyldunnar. Ef ég er að fara í flug er ég venjulega mætt þremur tímum fyrir brottför sé mælst til þess að fólk mæti tveimur tímum fyrir brottför. Svo er um fleiri innan sömu fjölskyldu, svo skipta má fjölskyldunni í tvo álíka stóra hópa, tímaslóða og klukkuþræla.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp hér og nú er einföld. Í dag, 14. febrúar 2008 eru liðin nákvæmlega tíu ár síðan ég mætti síðast of seint til vinnu. Það hafði fennt svo mikið um nóttina að gatan sem ég bjó við í þá daga var nánast ófær nema fyrir stærstu jeppa. Eftir mikið þóf komst ég loksins af bílastæðinu á mínum gamla Subaru og ekki gat ég skilið fólkið eftir sem komst hvergi á smábílunum sínum. Því fyllti ég bílinn af nágrönnum og kom þeim í sína vinnu áður en ég kom of seint í mína eigin vinnu. Þetta var um leið annað skiptið sem ég kom of seint í vinnuna síðan ég hóf störf hjá Hitaveitunni, síðar Orkuveitunni. Fyrra skiptið var 14. febrúar 1997, nákvæmlega einu ári fyrr og af svipuðum ástæðum, ófærð í efra Breiðholti.

Nú þarf ég ekki lengur að hafa áhyggjur af ófærðinni því ég bý í næsta húsi við vinnuna og reyni alltaf að mæta á réttum tíma.

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

13. febrúar 2008 - Velkomin til Íslands Heather Mills

Þótt ég og margir Íslendingar séum miklir aðdáendur Paul McCartney og þeirra félaga, lífs sem liðinna, er sjálfsagt að bjóða fyrrum eiginkonunni hæli á Íslandi úr því henni er ekki lengur vært í Englandi eftir skilnaðinn við hinn örvhenta söngfugl, enda hefur unnist umtalsverð þekking á móttöku flóttamanna frá Vesturlöndum hér á landi sbr. Bobbý Fisher, Aron Pálma og Gervasoni.

Hmmm. Kannski ekki Gervasoni beint þar sem hann var rekinn aftur úr landi þrátt fyrir hetjulega baráttu Guðrúnar Helgadóttur fyrir dvalarleyfi honum til handa. En allavega tók RJF-hópurinn vel á móti Fisher og Aron Pálma.

Nú er skarð fyrir skildi þar sem Fisher hefur horfið á braut forfeðra sinna. Því er tilvalið fyrir RJF-hópinn að fá Heather Mills í staðinn og svo getur hún örugglega fengið vinnu sem PR-manneskja hjá Össuri hf. Henni yrði örugglega vel tekið sem fjölmiðlafulltrúa þar á bæ.

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/02/13/mills_hyggst_flytja_fra_bretlandi/

13. febrúar 2008 - Af læknisheimsókn

Úr því Gurrí fær þúsundir heimsókna út á heimsókn sína til læknis í morgun, get ég alveg sagt frá minni heimsókn til læknis á sama tíma.

Öfugt við hinn pólskfædda Boldaðdáanda sem Gurrí heimsótti, þá ræddum við, þ.e. ég og hinn íslenski heimilislæknir bara um blogg og gönguferðir auk engra hjartsláttartruflana og aðeins of hás blóðþrýstings. Ég þarf að prófa að vekja athygli hans á Boldinu hennar Gurríar þegar ég kem til hans næst.

Eftir að hafa villst í uppsveitum Kópavogs fann ég svo leiðina heim og hefi ekki farið úr húsi síðan þá.

Annars er ég enn að velta þessu Moggabloggi fyrir mér. Ef ég skrifa lærðar greinar um heimspeki eða kynáttunarvanda, dettur áhuginn niður og enginn nennir að lesa mig. Ef mér leiðist og fer að bulla eitthverja vitleysu um pólitík, fæ ég þúsundir heimsókna á síðuna þar á meðal einhvern slatta af furðufuglum sem vita ekki bara alla hluti betur en ég, heldur finna sumir hverjir mér allt til foráttu í lífinu.

Af hverju getum við ekki bara öll verið vinir? Hér í jaðri Hálsaskógar eru öll dýrin vinir.

-----oOo-----

Þessi færsla var í boði Árbæjarapóteks sem sér mér fyrir blóðþrýstingslyfjum og kalktöflum á sanngjörnu verði. Lyf og heilsa hvað?

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

12. febrúar 2008 - Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson....

....verður áfram í borgarstjórn, er haft eftir Fréttablaðinu á mánudagsmorguninn. Þar er þess einnig getið að hann hafi ráðfært sig við Geir og Davíð áður en hann tók þessa ákvörðun, en það er hinsvegar ekkert getið um það í blaðinu að ég hafi gefið í skyn að Villi ætti að sitja áfram, samanber færslu mína á sunnudagsmorguninn. Ég móðgast bara.

Geir Haarde er nefndur og hann þorði ekki að taka afdráttarlausa afstöðu með Villa í útvarpi á mánudag. Ekki er hinn neitt betri, hættur í pólitík og sestur í helgan stein í bankastjórastól í Seðlabankanum. Slíkt hefur löngum þótt jafngilda snemmbærum eftirlaunaaldri, eða svo bent sé á orð Steingríms Hermannssonar, en hann hélt því fram að hann hefði aldrei haft það eins náðugt eins og þegar hann var bankastjóri í téðum banka. Aðrir hafa hinsvegar bent á að starf Seðlabankastjóra á Íslandi sé mjög mikilvægt og verði helst líkt við embætti flotamálaráðherra Ungverjalands eða þá sjávarútvegsráðherra Sviss.

Sjálf fyllist ég áhyggjum yfir því ráðaleysi Sjálfstæðismanna að þurfa að leita ráða hjá manni sem er hættur í pólitík. Eru Sjálfstæðismenn hættir að geta hugsað sjálfstætt?

mánudagur, febrúar 11, 2008

11. febrúar 2008 - Orðljótir Heimdellingar

Einn góðan veðurdag endur fyrir löngu þegar ég var ung og myndarleg, var ég á skipi einu í höfn suður í Genúa á Ítalíu. Þar sem þetta var á helgidegi og við í þurrkví, var dagurinn notaður til að skreppa í bæinn og skoða mannlífið. Sáum við þá stóran hóp mótmælenda í kröfugöngu og af merkjum og rauðum fánum mátti ráða að hér væru vinstrisinnar á ferð og því stóð hjartanu næst að fylgja í humátt á eftir hópnum þótt ekki vissum við nákvæmlega hverju var verið að mótmæla.

Skyndilega birtust þungvopnaðar öryggissveitir á götunni fyrir framan kröfugönguna og þar sem lítið hjarta fór að slá hraðar, létum við okkur hverfa af vettvangi svo lítið bar á og héldum niður í gamla bæinn þar sem nokkrir skipsfélagar okkar voru og nutu góða veðursins.

Þetta litla atvik kenndi mér þá lexíu að vera ekki að skipta mér af því sem mér kom ekki við í ókunnu landi þar sem ég þekkti ekki aðstæður.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins mátti lesa um sneypuför Heimdellinga þar sem þeir voru hirtir fyrir ljótt orðbragð í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Ég get ekki annað en brosað út í annað og hugsað til hinna ýmsu félaga minna í hinni "lýðfrjálsu" Evrópu, þar á meðal á Íslandi, sem voru barðir fyrir það eitt að kalla yfirvöldin fasistasvín áratuginn eftir 1968. Heimdellingarnir voru kannski heppnir að hafa ekki líka verið barðir.

Ætli Heimdellingarnir séu búnir að gleyma orðum sínum um skrílslæti á áhorfendapöllum ráðhússins fyrir þremur vikum síðan?

sunnudagur, febrúar 10, 2008

10. febrúar 2008 - Íslendingar í 30 ættliði

Enn einu sinni hófst ramakvein á Moggabloggi þegar fréttist af ungu pari sem sat fast í bíl á þjóðvegi númer eitt á Holtavörðuheiði. Þetta er algjör óþarfi að láta svona, enda sannir Íslendingar í 30 ættliði á ferð. Sannar íslenskar hetjur hafa fundist jafnlengi, því verr búnar, því betra, enda reglur bara enn ein hvatningin til að brjóta á þeim.

Íslensk þjóð lítur á lokaðan fjallveg sem áskorun, ekki sem hindrun. Þessi þjóð hefur komist af í meira en þúsund ár með því að fara til fjalla þegar byrjar að snjóa, með því að henda leiðarvísum með hverri nýrri græju og að gera grín að sérhverri reglu sem öðrum þjóðum er skylt að hlýða. Hverjir gefa t.d. stefnuljós á Íslandi? Þetta er bara óþarfi og þyngir bílinn að auki um nokkur grömm. Hversu algengir eru viðvörunarþríhyrningar í bílum á Íslandi? Þeir eru venjulega eitt hið fyrsta sem hverfur úr bílnum þegar hann er keyptur nýr. Yfirleitt fylgja þeir ekki með bílum í endursölu enda eru sumir þeir sem skipta oft um bíl með fullan bílskúr af slíku pjátri.

Við eigum gamla annála í mörgum bindum sem segja frá miklum köppum sem fórust á heiðum úti við slæmar aðstæður. Við höfum ort um þær ljóð og lofsungið um aldir.

Rétt eins og íslensk þjóð hefur verið stolt ef hetjunum sínum í þúsund ár, eigum við að vera stolt af hinum nýju hetjum okkar sem lögðu á Holtavörðuheiði á vanbúnum bíl í febrúar árið 2008. Eða hvað?

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/10/logdu_a_lokada_holtavorduheidi/

-----oOo-----

Sá hluti þessarar færslu sem birtist á Moggabloggi var sennilega í boði NOVA sem býður líklega upp á skemmtistað í stórhríð á Holtavörðuheiði.

10. febrúar 2008 - Vesalings Villi

Ekkert skil ég í því af hverju sumir eru svo vondir við Vilhjálm Þórmund Vilhjálmsson fyrrum borgarstjóra. Það er eins og að hann hafi gert eitthvað hræðilegt af sér. Hér loga bloggsíðurnar af heift út í manninn af því einu að hann þurfti að grípa til örlítillar hagræðingar á stóra sannleik til að bjarga sínu eigin skinni.

Ég er þess sannfærð að aldrei hafi Vilhjálmur beitt óheiðarlegum vinnubrögðum til að auðgast á kostnað skattgreiðenda og störf hans í REI málinu voru framkvæmd í góðri trú manns sem taldi sig vera að vinna mikið og gott starf fyrir eigendur OR þ.e. íbúa Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga.

Vissulega féll samrunaferlið um sjálft sig á röngum aðferðum og vissulega má benda á eitt og annað sem bendir til gleymsku vesalings Villa, en mér finnst hann of góður maður til að láta smámál um orðalag eyðileggja orðspor hans til frambúðar.

Ég bakka svo ekkert með það að stýrihópnum svokallaða með hjálp stuttbuxnadeildar Sjálfstæðisflokksins, tókst að eyðileggja eitthvert stórkostlegasta útrásartækifæri Íslands sem hægt var að hugsa sér þar sem Íslendingar gátu svo sannarlega komið að gagni úti í hinum stóra heimi með sérþekkingu sinni á jarðhita. Þar getur Villi borið höfuðið hátt sama hver verða úrslit þeirra væringja sem nú eru uppi um persónu
hans.

laugardagur, febrúar 09, 2008

9. febrúar 2008 - Í upphafi voru engar auglýsingar

Þegar ég byrjaði að blogga voru engar auglýsingar á bloggsíðum. Ég byrjaði að blogga hjá því sem hét blog.central.is og hafði nýlega verið stofnað af tveimur ungum tölvunarfræðinemum og voru þeir ósparir á að láta notendurna vita að þeir þyrftu sennilega að fjármagna kostnaðinn við reksturinn á bloggkerfinu með eins og einni auglýsingu.

Svo birtist auglýsingin og við notendurnir vorum flest sæmilega sátt við framtak ungu mannanna, enda var þessi eina auglýsing lítil og hófleg. En þetta var bara byrjunin.

Nokkru síðar birtist ræma ofan við textann vel merkt fyrirtækjum 365 miðla. Með því að 365 miðlar höfðu náð eignarhaldi á umræddu bloggkerfi þurfti að ná í aura til að reka kerfið og skila arði til eigendanna. Því leið ekki á löngu uns öllum aukaþáttum var hent út og ekki hægt að fá þá inn aftur nema gegn hóflegri þóknun. Því til viðbótar komst ég í jólaskap af því að bloggið mitt fór að blikka eins og jólatré af auglýsingum. Ég veitti mér því þá jólagjöf að opna nýja bloggsíðu á blogspot.com og hefi verið með hana síðan í desember 2005. Reyndar sáu stjórnendur blog.central.is að sér síðar og felldu niður gjaldið fyrir aukahlutina og drógu eitthvað úr auglýsingaflóðinu. Ég hefi samt ekki séð ástæðu til að snúa til baka.

Ég byrjaði að blogga á Moggabloggi fyrir rúmu ári síðan, í desember 2006. Auk þess að vera með þægilegt notendaviðmót voru engar auglýsingar að því frátöldu að nokkrir bloggarar seldu auglýsingapláss á síðunum sínum. Ég kaus hinsvegar að halda áfram að skrifa án auglýsinga en hélt áfram að skrifa á blogspot til að hafa eitthvað að hverfa að ef Moggabloggið yrði fyllt af auglýsingum.

Nú er fyrsta auglýsingin komin á Moggabloggi og ég veit ekki mitt rjúkandi ráð.

föstudagur, febrúar 08, 2008

8. febrúar 2008 - Spakmæli?

“Einn góðan veðurdag brast á stórhríð,” sagði verkfræðingurinn um leið og hann horfði á óveðrið fyrir utan gluggann.

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

7. febrúar 2008 - Tveir fundir

Ég þurfti að mæta á tvo fundi á miðvikudagskvöldið, báða áhugaverða. Annar byrjaði klukkan 20.30 og hinn klukkan 21.00 og einungis 200 metrar á milli þeirra. Getur ekki verið betra, eða hvað?

Vandamálið er bara að þegar ég er búin að vinna í tólf tíma, nenni ég ekki að rjúka á tvo fundi strax eftir vaktina. Til þess að gera ekki á upp á milli þessara tveggja funda, sleppti ég þeim báðum, flýtti ég mér heim og lét mér nægja að klappa kisunum mínum.

Ég er viss um að þannig hafi ég haldið best heimilisfriðinn.

6. febrúar 2008 - Að versla á ebay

Ég hefi keypt eitt og annað smálegt á ebay í gegnum tíðina, enda er ég grúskari að eðlisfari þótt verulega hafi dregið úr verstu grúskáráttunni á undanförnum árum. ebay hefur reynst mér hið vænsta kolaport þegar finna skal ýmislegt fágætt, auk þess sem greiðslukerfi þeirra, hið svokallaða “paypal” er tiltölulega öruggt svo lengi sem maður fylgir þeirra eigin ráðum og leiðbeiningum og forðast þannig blekkingar.

Með því að greiða ávallt samdægurs hefi ég ávallt fengið jákvæðar umsagnir og sjálf hefi ég ávallt svarað á sama hátt, jafnvel þótt mistök hafi átt sér stað við afhendingu eða flutning vöru. Ég hefi þó einu sinni gefið neikvæða umsögn um seljanda.

Ég bauð í hlut sem ég vissi að var metinn á talsverða upphæð og glöð greiddi ég einungis brot af verðmætinu fyrir hlutinn. Svo beið ég og beið og beið, en aldrei kom hluturinn. Þegar liðnir voru tveir mánuðir sendi ég neikvæða umsögn um seljandann og fékk um leið slæma samvisku. Hvað ef pósturinn hefði brugðist, en ekki seljandinn? Þá myndi hann vafalaust gefa mér neikvæða umsögn á móti.

Það gerði hann ekki. Í kjölfar minnar umsagnar fékk seljandinn margar neikvæðar umsagnir frá fjölda manns og í framhaldinu var hann settur í bann á ebay. Hann hafði einfaldlega safnað að sér myndum af verðmætum hlutum og sett á uppboð. Þannig tókst honum að sanka að sér talsverðri upphæð áður en hann var settur í bann þar á meðal nokkrum krónum frá mér. Ég þarf vart að taka fram að aldrei fékk ég vöruna og er þetta einasta skiptið sem ég hefi tapað á viðskiptum í gegnum ebay.

Í þessu dæmi hefðu neikvæðu umsagnirnar um seljandann komið mun fyrr og hægt að stoppa hann af í tíma ef seljendur gætu ekki sett inn neikvæðar umsagnir um kaupendur.

http://www.mbl.is/frimg/4/51/451192A.jpg

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

5. febrúar 2008 - Verkin hafa þegar talað

Hinn nýi borgarstjóri sagði í viðtali við útvarpið á mánudag að sökum ómálefnalegrar og óvæginnar umræðu undanfarið komi niðurstöður Gallup-könnunar um nýjan borgarstjórnarmeirihluta sér ekki á óvart. Hann segir borgarbúa muni fagna breytingunni þegar verkin fara að tala.

Verkin eru þegar farin að tala og ekkert á sérlega jákvæðum nótum fyrir hinn nýja borgarstjórnarmeirihluta.

Hinn nýi borgarstjóri vildi ekkert gefa fyrir ætluð veikindi sín í opinberri umræðu fyrstu dagana eftir að hann tók við borgarstjórahlutverkinu. Einungis hefði verið um andlegt mótlæti að ræða. Að vera á bömmer eða verða fyrir andlegu mótlæti er ekki skilyrði til langvarandi veikindaleyfis. Ég hefi líka gengið í gegnum hjónaskilnað og tala af reynslunni. Með orðum sínum hefur hinn nýi borgarstjóri staðfest þessa skoðun mína. Það er engin ástæða til að leggjast sjúkur í marga mánuði vegna hjónaskilnaðar. Með því að neita því að um veikindi hafi verið að ræða, hefur maðurinn því hugsanlega játað sig sekan um tryggingasvik með því að skrá sig veikan í marga mánuði að ástæðulausu. Er slíkur maður traustsins verður sem borgarstjóri?

Með því að kaupa gamalt fúasprek á Laugavegi 4-6 hefur hann gert sig sekan um óráðsíu og bruðl með peningana mína. Hann er ekki einn um þann verknað því vart hefur hann getað skrifað undir nema með samþykki allra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins skömmu eftir að þeir greiddu því atkvæði, allir sem einn, að rífa mætti draslið.

Þessu til viðbótar og mikilvæg ástæða þess hve hinn nýi borgarstjórnarmeirihluti nýtur lítils stuðnings, er að hinir sjö borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu allt í sölurnar til að fella gamla meirihlutann þar á meðal flest sín gömlu stefnumál.

Á síðastliðnu vori sá Geir Haarde að eins manns meirihluti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri ekki nægur. Því kaus hann að slíta samstarfinu og tók saman við Samfylkinguna og kom þannig í veg fyrir að einstöku óánægjuraddir innan eigin flokks kæmust upp með þvingandi kröfur og fengju þær fram í krafti eins atkvæðis meirihlutafylgis.

Við sjáum það nú á hinum nýja borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík hvernig eins atkvæðis meirihluti getur kostað fjölda borgarfulltrúa heilindin og okkur borgarbúa stórfé.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item189373/

sunnudagur, febrúar 03, 2008

4. febrúar 2008 - 40 ár!

Það var fyrsta helgin í febrúar fyrir 40 árum. Ég var nýorðin 16 ára og hafði ráðið mig á vertíð á vélskipið Pétur Thorsteinsson BA-12 frá Bíldudal. Fyrstu dagana sem við rérum höfðu gengið sæmilega og við komum í land á laugardagskvöldi, lönduðum aflanum og svo fór áhöfnin á þorrablót í rækjuverksmiðjunni (Bíldudals grænar baunir). Ekki var unnt að halda þorrablótið í Baldurshaga sem hafði kviknað í um haustið og var enn í endurbyggingu.

Við vorum öll aðkomufólk á Bíldudal nema skipstjórinn og því kom mestöll áhöfnin um borð eftir þorrablótið. Um nóttina fór að hvessa og brátt var veðrið orðið snarvitlaust. Við fórum að fylgjast með veðrinu og ástandinu í talstöðinni aðeins norðar, í Ísafjarðardjúpi. Breskir togarar sendu út neyðarkall. Bátur hélt frá Bolungarvík í átt til Ísafjarðar. Í gegnum talstöðina var fylgst með samtölum áhafnar Heiðrúnar II og varðskipsins Óðins sem fylgdi henni áleiðis til Ísafjarðar allt þar til Óðinn þurfti að kveðja vegna bresks togara (Notts County) sem hafði strandað við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Frá Heiðrúnu II ÍS heyrðist aldrei framar. Hún fórst á leiðinni frá Bolungarvík til Ísafjarðar með sex manna áhöfn þar á meðal föður og tveimur sonum hans.

Vélstjórinn á Andra BA grét. Hann átti vini á Heiðrúnu II og maður grætur grimmileg örlög vina sinna. Það var líka óhugnanlegt að fylgjast með hamförunum í Ísafjarðardjúpi í talstöðinni, einn togari strandaður, öðrum að hvolfa og margir í erfiðleikum vegna veðurofsa og yfirísingar.

Það dró aðeins úr versta fárviðrinu þegar leið að hádegi. Það varð þó skammgóður vermir því um kvöldið var fárviðrið orðið síst betra en nóttina áður og þá slitnaði báturinn frá bryggjunni þrátt fyrir að hafa verið bundinn við bryggju með sextán endum. Það þurfti að binda bátinn betur og við héldum tvö út á bryggjuna til að taka á móti fleiri spottum. Það kom virkileg vindhviða. Mér tókst að grípa í endann á slitnu fastsetningartógi sem hékk utan í bryggjupolla og halda í það þótt lappirnar yrðu lárettar í veðrinu. Maðurinn sem var með mér á bryggjunni náði hinsvegar ekki neinu haldi og þar sem ég ríghélt í minn spotta horfði ég á eftir 100 kílóa manninum þar sem hann tókst á loft og sveif fleiri tugi metra yfir bryggjunni og magalenti síðan á bryggjusporðinum, lifandi og heill. Fljótlega eftir þetta var gefist upp á að reyna að halda skipinu við bryggjuna og haldið sjó skammt frá bryggjunni þar til veður tók að lægja um nóttina og hægt að leggjast aftur að bryggju og þá í betra skjóli innanvert við bryggjuna.

Það fórust 25 manns í Ísafjarðardjúpi af þremur skipum í þessu veðri sem gjarnan var líkt við Halaveðrið 1925, þar af 19 breskir sjómenn. Þar með höfðu 59 breskir sjómenn af fjórum togurum farist frá því um miðjan janúar 1968.

Þess má geta að vélstjórinn á Andra drukknaði sjálfur tveimur árum síðar með Sæfara frá Tálknafirði sem fórst 10. janúar 1970.


http://timarit.is/mbl/?issueID=418867&pageSelected=-2

3. febrúar 2008 - Enn af vesalings Piu!

Í mars á síðasta ári skrifaði ég pistil um vesalings Piu sem er transgender og býr í Svíþjóð en fær samt ekki að heita Pia fyrir þá sök að hún er fædd með typpi og er ekki búin að láta fjarlægja það. Sænsk nafnalög eru ákaflega ströng hvað kyn snertir og einungis fá kynhlutlaus nöfn til á skrá. Nafnið Pia er ekki þar á meðal, hinsvegar nöfn eins og Kim, Linus og Maria og Annika.

http://velstyran.blogspot.com/2007/03/22-mars-2007-vesalings-pia.html

Nú hefur hin íslenska mannanafnanefnd bannað notkun nafnanna Pia og Sven á Íslandi. Bæði þessi nöfn eru mjög algeng á Norðurlöndum
og ég get ekki séð að íslenskri þjóðmenningu verði hætta búin þótt þessi nöfn verði leyfð á Íslandi. Þetta bann getur því ekki orðið annað en hvatning til Alþingis um að breyta nafnalögunum og leggja mannanafnanefnd niður hið bráðasta. Nafnalögin eru að auki mannréttindabrot því þau banna fólki að bera nöfn sem sumum finnast fögur auk þess sem þau eru alvarlegt brot á réttindum transgender fólks á Íslandi.

Fólk á að hafa heimild til að gefa börnum sínum nöfn að vild svo fremi sem þau valda ekki óþægindum fyrir barnið. Það væri eðlilegt að banna foreldrum að gefa börnum sínum afkáraleg nöfn eins og Lúsífer, Helvitíus eða Valsari, en að öðru leyti á að ráða frelsi til foreldra eða til fólks sem vill breyta kenninafni sínu.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/02/piu_og_sven_hafnad/

laugardagur, febrúar 02, 2008

2. febrúar 2008 - Af siglingum við Ísland


Ég heyrði viðtal við ónefndan skipstjóra hjá Landhelgisgæslunni í útvarpinu í gær þar sem hann ræddi aðeins og siglingar stórskipa við Ísland. Ég átti auðvelt með að setja mig inn í áhyggjur hans vitandi af þeim hættum sem fylgja siglingum stórra tankskipa við Íslandsstrendur, samanber tvö klaufaslys á síðustu árum auk þess þegar varðskipið Ægir náði að draga stórt tankskip frá hættuslóðum haustið 1969.

Lítum á stöðu mála í dag. Stærstu gámaskip heims eru næstum 400 metrar að lengd og skráð með 11000 gáma burðargetu þótt vitað sé að þau geta borið allt að 15000 gámaeiningum. Á þessum skipum er einungis allt niður í 13 manna áhöfn og fer ég að hugsa til þeirra gömlu góðu daga er ég var á fyrsta gámaflutningaskipi Íslendinga með 146 gáma burðargetu og 22 manna áhöfn. Ekki veit ég um áhafnarfjöldann á stærstu tankskipum heimsins, en það er ekki mikið meira en á stærstu gámaskipunum hjá Mærsk.

Til að bjarga þessum skipum ef þau eiga leið framhjá Íslandi eiga Íslendingar Ægi og Tý, annað 40 ára, hitt 33 ára. Um leið er þetta allur flotinn sem á að gæta hafssvæðisins umhverfis Ísland sem er mög hundruð þúsund ferkílómetrar að stærð. Tvö skip að leita að nál í heystakki og gera eitthvað af viti. Gleymdu þessu.

Umræddur skipstjóri þorði ekki öðru en að tala vel um yfirmann minn dómsmálaráðherrann. Ég segi bara, af hverju? Þótt umræddur ráðherra sé vissulega fjarskyldur ættingi minn og vindbarinn af Kjalarnesættum, þá hefur hann ekki staðið sitt neitt sérstaklega vel í málum Landhelgisgæslunnar, enda upptekinn af hernaðarsjónarmiðum. Hann áttaði sig ekki á þörf Landhelgisgæslunnar fyrir bættan þyrlukost fyrr en herinn var farinn og hann og forverar hans létu Gæsluna drabbast niður í áratugi allt frá lokum síðasta þorskastríðs um 1976. Hið nýja dráttarskip Landhelgisgæslunnar verður vissulega góð viðbót við flota Gæslunnar, en það þarf að endurnýja öll skipin og gera það strax.

13 menn á risaskipum gera ekki mikið til bjargar skipum sínum á neyðarstundu og þá þarf vana menn með sérmenntun og þjálfun í björgun til að bjarga málunum. Þarna þarf alvöru mannskap, ekki einhverja tindáta í varaliði Björns Bjarnasonar.

föstudagur, febrúar 01, 2008

1. febrúar 2008 - Hagstæð kaup?

Hinn nýi borgarstjóri í Reykjavík lýsti því yfir að kaupsamningurinn á fúatimbrinu á Laugavegi 4 – 6 hafi verið hagstæður því Kaupangur hf sem seldi honum draslið hefði viljað fá miklu meira fyrir umrædda ruslabingi. Hinn nýi borgarstjóri hefur auðsjáanlega mikið viðskiptavit.

Ég veit um annað gott viðskiptatækifæri fyrir blessaðan manninn. Eins og fólk veit sem þekkir mig, þá á ég vinstrigrænan eðalvagn sem framleiddur var á seinnihluta síðustu aldar. Hann er í þokkalegu ásigkomulagi og öllu betra en umræddir hjallar. Hann myndi alveg þola eins og eina aukalega bónáferð og svo eru nokkrar rispur á honum sem segja okkur að hann á sér langa sögu. Engu að síður efa ég ekki að hinn nýi borgarstjóri yrði mjög hrifinn af eðalvagninum þótt hann sé ekki frá næstsíðustu öld og myndi hann vilja kaupa hann og greiða vel fyrir.

Ég er tilbúin til að selja honum vagninn á svona tíu milljónir. Ef hinum nýja borgarstjóra finnst verðið of hátt getum við alltaf samið og kannski endað í fimm milljónum og allir verða ánægðir, borgarstjórinn, bíllinn og ég. Ég efa ekki að Ólafi mun finnast samningurinn hagstæður. Ég verð enn ánægðari því ég mun geta keypt tvo nýja bíla sömu gerðar fyrir peninginn.

Eða hvað? Ætla Reykvíkingar virkilega að láta manninn vaða svona yfir sig á skítugum skónum og koma borginni á hausinn?

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item188935/