miðvikudagur, febrúar 27, 2008

27. febrúar 2008 - Útúrsnúningur vegna sölu Baldurs

Enn og aftur verð ég að tjá mig um söluna á Baldri. Í yfirlýsingu fjármálaráðuneytis er tekið fram að ríkið hafi grætt á sölu Baldurs á 37,8 milljónir þegar raunvirði skipsins var nærri hundrað milljónir. Ég held að þetta sé sett fram til að hvítþvo Sturlu Böðvarsson frá hneykslanlegum embættisfærslum.

Við erum að tala um skip sem var nærri hundrað milljón króna virði en var selt á um 37,8 milljónir. Slíkt heitir ekki að græða heldur að tapa. Þeir kunna að líta öðruvísi á málin í hinu háttvirta fjármálaráðuneyti, enda skilst mér að einhver starfsmaður þar hafi lent inni vegna aðkomu sinnar að fíkniefnum.

Í fyrra lenti þetta sama ráðuneyti í vondum málum þegar önnur ferja var til umræðu. Þar var ferja keypt og erum við enn að greiða gífurlegan kostnað við endurbyggingu á henni þótt hún hafi enn ekki komist í rekstur. Núna fáum við að heyra að ferja hafi verið seld á spottprís.

Er ekki kominn tími til að kenna starfsfólki fjármálaráðuneytisins að það heitir ekki að græða þegar ferjur eru keyptar dýrt og seldar ódýrt? Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 26. febrúar reynir Pétur Ágústsson að gera sem minnst úr kynnum sínum við Sturlu Böðvarsson. Ef farið er á Alþingisvefinn snýst málið við þar sem Sturla reynir í sífellu að hampa þessum sama manni sem neitar kynnum við hann.

Erum við nokkuð búin að gleyma því er fyrrum samgönguráðherra tók við Arnarfellinu fyrir hönd Færeyinga?

Enn og aftur verð ég að krefjast þess að embættisverk þessa sama fyrrum samgönguráðherra verði rannsökuð ofan í kjölinn allt frá fyrsta starfsdegi hans til hins síðasta.

Þar sem ekki er ætlast til að fólk kasti vondum orðum á fólk persónulega, dettur mér ekki til hugar að væna umræddan fyrrverandi ráðherra um að vera Ólsari en ekki Hólmari, enda gera Hólmarar ekki svona skandala. Umræddur fyrrverandi ráðherra býr í Stykkishólmi en ekki í Ólafsvík Sömuleiðis dettur mér ekki til hugar að ætla að umræddur Pétur Ágústsson af Svefneyjaætt, eigandi Sæferða hf., sé fæddur í Flatey á Breiðafirði en ekki í Stykkishólmi.

Mér þykir vænt um Hólmara enda komin af þeim.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/26/segir_rikid_hafa_hagnast_verulega_a_solu_baldurs/


0 ummæli:







Skrifa ummæli