fimmtudagur, febrúar 14, 2008

14. febrúar 2008 - Ég þoli ekki óstundvísi!!!!

Ég skrapp á fund á miðvikudagskvöldið. Það þykir ekkert tiltökumál að mæta á fund, en þegar ég mætti tuttugu mínútum áður en fundurinn átti að hefjast var ég fyrsti fundargesturinn auk formannsins sem hafði opnað húsið tíu mínútum áður. Þú ert tímanlega á fundinum sagði hann mér og ég fór að rifja upp gamlar minningar úr hugarfylgsnum mínum. Ég þoli nefnilega ekki óstundvísi.

Einhverju sinni missti góð vinkona mín af flugvél og þurfti fyrir bragðið að kaupa nýja ferð til Íslands þar sem hún var orðin strandaglópur í útlöndum. Þetta komst í tal á milli mín og einhvers úr fjölskyldunni og svaraði þá fjölskyldumeðlimurinn, að ekki þyrfti að leita út fyrir fjölskylduna eftir slíkum dæmum og nefndi eina náfrænkuna sem hafði tvisvar misst af flugi. Fleiri hryllingssögur fékk ég einnig að heyra úr minni eigin fjölskyldu, t.d. af manninum sem mætti of seint í eigið brúðkaup svo ekki sé rifjuð upp sagan af einum sem kom heim til sín úr vinnu klukkan tíu mínútur yfir sex á aðfangadagskvöld jóla með jólatréð í fanginu.

Ekki er óstundvísin algjör innan fjölskyldunnar. Ef ég er að fara í flug er ég venjulega mætt þremur tímum fyrir brottför sé mælst til þess að fólk mæti tveimur tímum fyrir brottför. Svo er um fleiri innan sömu fjölskyldu, svo skipta má fjölskyldunni í tvo álíka stóra hópa, tímaslóða og klukkuþræla.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp hér og nú er einföld. Í dag, 14. febrúar 2008 eru liðin nákvæmlega tíu ár síðan ég mætti síðast of seint til vinnu. Það hafði fennt svo mikið um nóttina að gatan sem ég bjó við í þá daga var nánast ófær nema fyrir stærstu jeppa. Eftir mikið þóf komst ég loksins af bílastæðinu á mínum gamla Subaru og ekki gat ég skilið fólkið eftir sem komst hvergi á smábílunum sínum. Því fyllti ég bílinn af nágrönnum og kom þeim í sína vinnu áður en ég kom of seint í mína eigin vinnu. Þetta var um leið annað skiptið sem ég kom of seint í vinnuna síðan ég hóf störf hjá Hitaveitunni, síðar Orkuveitunni. Fyrra skiptið var 14. febrúar 1997, nákvæmlega einu ári fyrr og af svipuðum ástæðum, ófærð í efra Breiðholti.

Nú þarf ég ekki lengur að hafa áhyggjur af ófærðinni því ég bý í næsta húsi við vinnuna og reyni alltaf að mæta á réttum tíma.


0 ummæli:







Skrifa ummæli