laugardagur, febrúar 02, 2008

2. febrúar 2008 - Af siglingum við Ísland


Ég heyrði viðtal við ónefndan skipstjóra hjá Landhelgisgæslunni í útvarpinu í gær þar sem hann ræddi aðeins og siglingar stórskipa við Ísland. Ég átti auðvelt með að setja mig inn í áhyggjur hans vitandi af þeim hættum sem fylgja siglingum stórra tankskipa við Íslandsstrendur, samanber tvö klaufaslys á síðustu árum auk þess þegar varðskipið Ægir náði að draga stórt tankskip frá hættuslóðum haustið 1969.

Lítum á stöðu mála í dag. Stærstu gámaskip heims eru næstum 400 metrar að lengd og skráð með 11000 gáma burðargetu þótt vitað sé að þau geta borið allt að 15000 gámaeiningum. Á þessum skipum er einungis allt niður í 13 manna áhöfn og fer ég að hugsa til þeirra gömlu góðu daga er ég var á fyrsta gámaflutningaskipi Íslendinga með 146 gáma burðargetu og 22 manna áhöfn. Ekki veit ég um áhafnarfjöldann á stærstu tankskipum heimsins, en það er ekki mikið meira en á stærstu gámaskipunum hjá Mærsk.

Til að bjarga þessum skipum ef þau eiga leið framhjá Íslandi eiga Íslendingar Ægi og Tý, annað 40 ára, hitt 33 ára. Um leið er þetta allur flotinn sem á að gæta hafssvæðisins umhverfis Ísland sem er mög hundruð þúsund ferkílómetrar að stærð. Tvö skip að leita að nál í heystakki og gera eitthvað af viti. Gleymdu þessu.

Umræddur skipstjóri þorði ekki öðru en að tala vel um yfirmann minn dómsmálaráðherrann. Ég segi bara, af hverju? Þótt umræddur ráðherra sé vissulega fjarskyldur ættingi minn og vindbarinn af Kjalarnesættum, þá hefur hann ekki staðið sitt neitt sérstaklega vel í málum Landhelgisgæslunnar, enda upptekinn af hernaðarsjónarmiðum. Hann áttaði sig ekki á þörf Landhelgisgæslunnar fyrir bættan þyrlukost fyrr en herinn var farinn og hann og forverar hans létu Gæsluna drabbast niður í áratugi allt frá lokum síðasta þorskastríðs um 1976. Hið nýja dráttarskip Landhelgisgæslunnar verður vissulega góð viðbót við flota Gæslunnar, en það þarf að endurnýja öll skipin og gera það strax.

13 menn á risaskipum gera ekki mikið til bjargar skipum sínum á neyðarstundu og þá þarf vana menn með sérmenntun og þjálfun í björgun til að bjarga málunum. Þarna þarf alvöru mannskap, ekki einhverja tindáta í varaliði Björns Bjarnasonar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli