sunnudagur, febrúar 10, 2008

10. febrúar 2008 - Íslendingar í 30 ættliði

Enn einu sinni hófst ramakvein á Moggabloggi þegar fréttist af ungu pari sem sat fast í bíl á þjóðvegi númer eitt á Holtavörðuheiði. Þetta er algjör óþarfi að láta svona, enda sannir Íslendingar í 30 ættliði á ferð. Sannar íslenskar hetjur hafa fundist jafnlengi, því verr búnar, því betra, enda reglur bara enn ein hvatningin til að brjóta á þeim.

Íslensk þjóð lítur á lokaðan fjallveg sem áskorun, ekki sem hindrun. Þessi þjóð hefur komist af í meira en þúsund ár með því að fara til fjalla þegar byrjar að snjóa, með því að henda leiðarvísum með hverri nýrri græju og að gera grín að sérhverri reglu sem öðrum þjóðum er skylt að hlýða. Hverjir gefa t.d. stefnuljós á Íslandi? Þetta er bara óþarfi og þyngir bílinn að auki um nokkur grömm. Hversu algengir eru viðvörunarþríhyrningar í bílum á Íslandi? Þeir eru venjulega eitt hið fyrsta sem hverfur úr bílnum þegar hann er keyptur nýr. Yfirleitt fylgja þeir ekki með bílum í endursölu enda eru sumir þeir sem skipta oft um bíl með fullan bílskúr af slíku pjátri.

Við eigum gamla annála í mörgum bindum sem segja frá miklum köppum sem fórust á heiðum úti við slæmar aðstæður. Við höfum ort um þær ljóð og lofsungið um aldir.

Rétt eins og íslensk þjóð hefur verið stolt ef hetjunum sínum í þúsund ár, eigum við að vera stolt af hinum nýju hetjum okkar sem lögðu á Holtavörðuheiði á vanbúnum bíl í febrúar árið 2008. Eða hvað?

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/10/logdu_a_lokada_holtavorduheidi/

-----oOo-----

Sá hluti þessarar færslu sem birtist á Moggabloggi var sennilega í boði NOVA sem býður líklega upp á skemmtistað í stórhríð á Holtavörðuheiði.


0 ummæli:







Skrifa ummæli