mánudagur, febrúar 11, 2008

11. febrúar 2008 - Orðljótir Heimdellingar

Einn góðan veðurdag endur fyrir löngu þegar ég var ung og myndarleg, var ég á skipi einu í höfn suður í Genúa á Ítalíu. Þar sem þetta var á helgidegi og við í þurrkví, var dagurinn notaður til að skreppa í bæinn og skoða mannlífið. Sáum við þá stóran hóp mótmælenda í kröfugöngu og af merkjum og rauðum fánum mátti ráða að hér væru vinstrisinnar á ferð og því stóð hjartanu næst að fylgja í humátt á eftir hópnum þótt ekki vissum við nákvæmlega hverju var verið að mótmæla.

Skyndilega birtust þungvopnaðar öryggissveitir á götunni fyrir framan kröfugönguna og þar sem lítið hjarta fór að slá hraðar, létum við okkur hverfa af vettvangi svo lítið bar á og héldum niður í gamla bæinn þar sem nokkrir skipsfélagar okkar voru og nutu góða veðursins.

Þetta litla atvik kenndi mér þá lexíu að vera ekki að skipta mér af því sem mér kom ekki við í ókunnu landi þar sem ég þekkti ekki aðstæður.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins mátti lesa um sneypuför Heimdellinga þar sem þeir voru hirtir fyrir ljótt orðbragð í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Ég get ekki annað en brosað út í annað og hugsað til hinna ýmsu félaga minna í hinni "lýðfrjálsu" Evrópu, þar á meðal á Íslandi, sem voru barðir fyrir það eitt að kalla yfirvöldin fasistasvín áratuginn eftir 1968. Heimdellingarnir voru kannski heppnir að hafa ekki líka verið barðir.

Ætli Heimdellingarnir séu búnir að gleyma orðum sínum um skrílslæti á áhorfendapöllum ráðhússins fyrir þremur vikum síðan?


0 ummæli:







Skrifa ummæli