miðvikudagur, febrúar 06, 2008

6. febrúar 2008 - Að versla á ebay

Ég hefi keypt eitt og annað smálegt á ebay í gegnum tíðina, enda er ég grúskari að eðlisfari þótt verulega hafi dregið úr verstu grúskáráttunni á undanförnum árum. ebay hefur reynst mér hið vænsta kolaport þegar finna skal ýmislegt fágætt, auk þess sem greiðslukerfi þeirra, hið svokallaða “paypal” er tiltölulega öruggt svo lengi sem maður fylgir þeirra eigin ráðum og leiðbeiningum og forðast þannig blekkingar.

Með því að greiða ávallt samdægurs hefi ég ávallt fengið jákvæðar umsagnir og sjálf hefi ég ávallt svarað á sama hátt, jafnvel þótt mistök hafi átt sér stað við afhendingu eða flutning vöru. Ég hefi þó einu sinni gefið neikvæða umsögn um seljanda.

Ég bauð í hlut sem ég vissi að var metinn á talsverða upphæð og glöð greiddi ég einungis brot af verðmætinu fyrir hlutinn. Svo beið ég og beið og beið, en aldrei kom hluturinn. Þegar liðnir voru tveir mánuðir sendi ég neikvæða umsögn um seljandann og fékk um leið slæma samvisku. Hvað ef pósturinn hefði brugðist, en ekki seljandinn? Þá myndi hann vafalaust gefa mér neikvæða umsögn á móti.

Það gerði hann ekki. Í kjölfar minnar umsagnar fékk seljandinn margar neikvæðar umsagnir frá fjölda manns og í framhaldinu var hann settur í bann á ebay. Hann hafði einfaldlega safnað að sér myndum af verðmætum hlutum og sett á uppboð. Þannig tókst honum að sanka að sér talsverðri upphæð áður en hann var settur í bann þar á meðal nokkrum krónum frá mér. Ég þarf vart að taka fram að aldrei fékk ég vöruna og er þetta einasta skiptið sem ég hefi tapað á viðskiptum í gegnum ebay.

Í þessu dæmi hefðu neikvæðu umsagnirnar um seljandann komið mun fyrr og hægt að stoppa hann af í tíma ef seljendur gætu ekki sett inn neikvæðar umsagnir um kaupendur.

http://www.mbl.is/frimg/4/51/451192A.jpg


0 ummæli:







Skrifa ummæli