þriðjudagur, febrúar 12, 2008

12. febrúar 2008 - Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson....

....verður áfram í borgarstjórn, er haft eftir Fréttablaðinu á mánudagsmorguninn. Þar er þess einnig getið að hann hafi ráðfært sig við Geir og Davíð áður en hann tók þessa ákvörðun, en það er hinsvegar ekkert getið um það í blaðinu að ég hafi gefið í skyn að Villi ætti að sitja áfram, samanber færslu mína á sunnudagsmorguninn. Ég móðgast bara.

Geir Haarde er nefndur og hann þorði ekki að taka afdráttarlausa afstöðu með Villa í útvarpi á mánudag. Ekki er hinn neitt betri, hættur í pólitík og sestur í helgan stein í bankastjórastól í Seðlabankanum. Slíkt hefur löngum þótt jafngilda snemmbærum eftirlaunaaldri, eða svo bent sé á orð Steingríms Hermannssonar, en hann hélt því fram að hann hefði aldrei haft það eins náðugt eins og þegar hann var bankastjóri í téðum banka. Aðrir hafa hinsvegar bent á að starf Seðlabankastjóra á Íslandi sé mjög mikilvægt og verði helst líkt við embætti flotamálaráðherra Ungverjalands eða þá sjávarútvegsráðherra Sviss.

Sjálf fyllist ég áhyggjum yfir því ráðaleysi Sjálfstæðismanna að þurfa að leita ráða hjá manni sem er hættur í pólitík. Eru Sjálfstæðismenn hættir að geta hugsað sjálfstætt?


0 ummæli:







Skrifa ummæli