þriðjudagur, febrúar 19, 2008

19. febrúar 2008 - Einu sinni var til stórt og mikið ríki

Einu sinni var stórt og mikið ríki suður á Balkanskaga sem hét Júgóslavía. Eftir að einhver sem var gestkomandi þaðan hér uppi á Íslandi skammaði íslensku þjóðina fyrir það hve lítið hún vissi um þetta stóra land las ég eitthvað smáræði um þetta merkilega land og komst meðal annars að því að landið var sambandsríki sem samanstóð af sex ríkjum. Síðan þetta var hefur landið farið í frumeindir sínar og gott betur því nú eru ríkin sem áður mynduðu Júgóslavíu orðin sjö. Þetta fer að minna á Þýskaland eftir 30 ára stríðið 1648. En eru svona smáríki ekki tímaskekkja?

Hægt er að velta því fyrir sér hversu heppileg slík smáríki eru sem stundum virðast einvörðungu sameinast um eina trú, eina tungu eða eitt fornt þjóðerni. Hvenær má búast við því að Vestfirðingar segi sig úr lögum við Ísland? Eða Vestmannaeyingar? Ég minnist þess er maður einn (Árni Johnsen?) hélt mikla ræðu um hversu mjög Vestmannaeyingar gætu orðið sjálfstætt ríki, en það var vel að merkja fyrir gos.

Í dag er þjóðríki orðið býsna óljóst og þjóðrembunni helst haldið við með boltaleikjum. Sjálf forðast ég þjóðrembuna og er sama þótt Ísland skori mark í handboltaleik.

Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að þjóðríkið sem og eintrúarríkið séu að renna sitt skeið á enda. Lái mér hver sem vill, en þjóðríkið hefur einungis verið til í rúm þúsund ár, en mannkynið margfalt lengur. Fótboltaleikir í þeirri mynd sem við þekkjum þá, hafa verið til í mun skemmri tíma.


0 ummæli:Skrifa ummæli