föstudagur, febrúar 01, 2008

1. febrúar 2008 - Hagstæð kaup?

Hinn nýi borgarstjóri í Reykjavík lýsti því yfir að kaupsamningurinn á fúatimbrinu á Laugavegi 4 – 6 hafi verið hagstæður því Kaupangur hf sem seldi honum draslið hefði viljað fá miklu meira fyrir umrædda ruslabingi. Hinn nýi borgarstjóri hefur auðsjáanlega mikið viðskiptavit.

Ég veit um annað gott viðskiptatækifæri fyrir blessaðan manninn. Eins og fólk veit sem þekkir mig, þá á ég vinstrigrænan eðalvagn sem framleiddur var á seinnihluta síðustu aldar. Hann er í þokkalegu ásigkomulagi og öllu betra en umræddir hjallar. Hann myndi alveg þola eins og eina aukalega bónáferð og svo eru nokkrar rispur á honum sem segja okkur að hann á sér langa sögu. Engu að síður efa ég ekki að hinn nýi borgarstjóri yrði mjög hrifinn af eðalvagninum þótt hann sé ekki frá næstsíðustu öld og myndi hann vilja kaupa hann og greiða vel fyrir.

Ég er tilbúin til að selja honum vagninn á svona tíu milljónir. Ef hinum nýja borgarstjóra finnst verðið of hátt getum við alltaf samið og kannski endað í fimm milljónum og allir verða ánægðir, borgarstjórinn, bíllinn og ég. Ég efa ekki að Ólafi mun finnast samningurinn hagstæður. Ég verð enn ánægðari því ég mun geta keypt tvo nýja bíla sömu gerðar fyrir peninginn.

Eða hvað? Ætla Reykvíkingar virkilega að láta manninn vaða svona yfir sig á skítugum skónum og koma borginni á hausinn?

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item188935/


0 ummæli:Skrifa ummæli