sunnudagur, febrúar 24, 2008

24. febrúar 2008 - Ég og íslenskir Júróvisjónaðdáendur...

...virðumst fátt eiga sameiginlegt. Oftar en ekki hefi ég verið ósammála þeim lögum sem send voru í keppnina og talið önnur lög betri en þau sem kosin voru til þátttöku í Evrópsku sönglagakeppninni. Ef mig misminnir ekki, fannst mér eitthvað annað lag betra en Gleðibankinn þegar það keppti í undankeppninni þótt ég hafi vissulega tekið þátt í sigurgleði landans þegar lagið lenti í frægu 16. sæti.

Ég var þó sátt við lögin sem send voru út næstu tvö árin á eftir, en svo kom stóri skellurinn þegar kornungur söngvarinn náði ekki hæstu tónunum og Ísland lenti í neðsta sætinu. Eftir það fylgdist ég aðeins með Júróvisjón úr fjarlægð þar sem ég bjó í Svíþjóð. Þó man ég að við söfnuðumst saman hópur Íslendinga á krá einni á Södermalm þegar dóttir Svanhildar og Ólafs Gauks flutti sitt framlag sem við höfðum heyrt að væri alveg hreint frábært. Eftir að hafa heyrt lagið misstum við áhugann á Júróvisjón það árið.

Ein örfárra undantekninga þar sem ég og þjóðin vorum sammála var svo þegar Selma söng All out of luck, en það dugði samt ekki til. Birta þótti mér hræðileg og enn verri sem Angel. Á sama tíma tók lag Margrétar Kristínar, Röddin, þátt í undankeppninni og lenti í þriðja sæti. Einfalt og glæsilegt framlag sem því miður mátti síns einskis gegn áróðursmaskínu Einars Bárðarsonar. Þau ár sem Ísland fékk rétt á þátttöku í kjölfarið voru lög Íslands ekki þess virði að þeim væri hampað. Síðustu þrjú árin hefur Ísland ekki einu sinni komist upp úr undankeppninni.

Fyrir tveimur árum sló Silvía Nótt í gegn þrátt fyrir gullfallegt lag sem Regína Ósk flutti. Nú var eins og íslenska þjóðin ætlaði að koma í veg fyrir annan skandal og sendi Regínu Ósk til keppninnar með öllu verra lag, reyndar svo ömurlegt að Ísland má þakka fyrir að komast upp úr undankeppninni þótt löndunum sem komast áfram að þessu sinni verði fjölgað um helming.

Af einhverjum ástæðum grunar mig að lag Barða eigi eftir að heyrast mun meir á næstu mánuðum en sjálft sigurlagið. Allavega er gott til þess að vita að alltof langdreginni undankeppni er lokið og ekki ástæða til frekara áhorfs á Júróvisjón þetta árið. Þar er lokakeppnin meðtalin.


0 ummæli:







Skrifa ummæli