þriðjudagur, febrúar 05, 2008

5. febrúar 2008 - Verkin hafa þegar talað

Hinn nýi borgarstjóri sagði í viðtali við útvarpið á mánudag að sökum ómálefnalegrar og óvæginnar umræðu undanfarið komi niðurstöður Gallup-könnunar um nýjan borgarstjórnarmeirihluta sér ekki á óvart. Hann segir borgarbúa muni fagna breytingunni þegar verkin fara að tala.

Verkin eru þegar farin að tala og ekkert á sérlega jákvæðum nótum fyrir hinn nýja borgarstjórnarmeirihluta.

Hinn nýi borgarstjóri vildi ekkert gefa fyrir ætluð veikindi sín í opinberri umræðu fyrstu dagana eftir að hann tók við borgarstjórahlutverkinu. Einungis hefði verið um andlegt mótlæti að ræða. Að vera á bömmer eða verða fyrir andlegu mótlæti er ekki skilyrði til langvarandi veikindaleyfis. Ég hefi líka gengið í gegnum hjónaskilnað og tala af reynslunni. Með orðum sínum hefur hinn nýi borgarstjóri staðfest þessa skoðun mína. Það er engin ástæða til að leggjast sjúkur í marga mánuði vegna hjónaskilnaðar. Með því að neita því að um veikindi hafi verið að ræða, hefur maðurinn því hugsanlega játað sig sekan um tryggingasvik með því að skrá sig veikan í marga mánuði að ástæðulausu. Er slíkur maður traustsins verður sem borgarstjóri?

Með því að kaupa gamalt fúasprek á Laugavegi 4-6 hefur hann gert sig sekan um óráðsíu og bruðl með peningana mína. Hann er ekki einn um þann verknað því vart hefur hann getað skrifað undir nema með samþykki allra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins skömmu eftir að þeir greiddu því atkvæði, allir sem einn, að rífa mætti draslið.

Þessu til viðbótar og mikilvæg ástæða þess hve hinn nýi borgarstjórnarmeirihluti nýtur lítils stuðnings, er að hinir sjö borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu allt í sölurnar til að fella gamla meirihlutann þar á meðal flest sín gömlu stefnumál.

Á síðastliðnu vori sá Geir Haarde að eins manns meirihluti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri ekki nægur. Því kaus hann að slíta samstarfinu og tók saman við Samfylkinguna og kom þannig í veg fyrir að einstöku óánægjuraddir innan eigin flokks kæmust upp með þvingandi kröfur og fengju þær fram í krafti eins atkvæðis meirihlutafylgis.

Við sjáum það nú á hinum nýja borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík hvernig eins atkvæðis meirihluti getur kostað fjölda borgarfulltrúa heilindin og okkur borgarbúa stórfé.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item189373/


0 ummæli:







Skrifa ummæli