föstudagur, ágúst 17, 2012

17. ágúst 2012 - Fernanda Milan, baráttusaga transkonu


Fernanda Milan er einungis 22 ára gömul fædd í Guatemala í Mið-Ameríku. Hún hefur samt þurft að ganga í gegnum slíka baráttu að slíkt þætti fullmikið á heilli ævi einnar manneskju.

Guatemala er meðal afturhaldssamari ríkjum Ameríku. Þar ríkja ströng kaþólsk viðhorf í samskiptum kynjanna og allt það sem víkur frá sambandi karls og konu er harðlega fordæmt, þar á meðal allir tilburðir til leiðréttinga á kyni og kynvitund. Morð á transfólki þar í landi eru algeng og lítið gert til að upplýsa þessa glæpi. Fórnarlömbin eru að auki iðulega jarðsett án nafns þar sem ættingjarnir veigra sér við að bera kennsl á myrt fórnarlömbin. Við þessar aðstæður ólst Fernanda Milan upp.

Hún var 14 ára er hún var rekin að heiman, útskúfuð frá fjölskyldu sinni vegna þrár sinnar að fá að lifa sem kona og lenti á götunni í landi þar sem fólkið býr við lítið sem ekkert félagslegt öryggi og alls ekkert fyrir hinsegin fólk. Hún hélt uppi vörnum fyrir aðrar transkonur auk sjálfrar sín og varð iðulega fyrir ofsóknum yfirvalda vegna þessa. Fleiri vinir hennar voru myrtir án ástæðu og að lokum gafst hún upp og flúði land og komst til Danmerkur.

Þar tók ekki betra við því sem flóttamaður var hún lokuð inni í flottamannabúðum fyrir karla enda stóð í vegabréfi hennar að hún væri lagalegur karl. Í flóttamannabúðunum í Sandholm var henni ítrekað nauðgað og henni misþyrmt á annan hátt. Yfirmaður flóttamannabúðanna, starfsmaður danska Rauða krossins að nafni Anna La Cour, var harðlega gagnrýnd fyrir þessa málsmeðferð en svar hennar er einfalt: Við hleypum ekki „körlum“ inn á kvennahluta flóttamannabúðanna. Að sögn sýndi hún engan skilning á þörfum eða tilfinningum transfólks og má velta því fyrir sér hversu stoltur danski Rauði krossinn er af slíku starfsfólki?

Danmörk er fyrsta landið þar sem líkamlegar aðgerðir til leiðréttingar á kyni voru framkvæmdar eftir seinni heimsstyrjöld. Með árunum varð Danmörk mjög íhaldssöm og þar er unnið í dag eftir löngu úreltum lögum um vananir þegar slíkar aðgerðir eru framkvæmdar, en öll málsmeðferð er slík að Danmörk stendur nú að baki öðrum Norðurlöndum í meðferð fólks með kynáttunarvanda og langt að baki mörgum Evrópuþjóðum.

Hegðun Önnu La Cour er dæmigerð um slíka fyrirlitningu gegn transfólki sem sýnir sig í máli Fernöndu Milan. Fernöndu hefur þegar verið tilkynnt að hún verði rekin úr landi í Danmörku og send heim 17. september  næstkomandi  þar sem nauðganir, pyntingar og dauði bíða hennar.

Eigum við að láta þetta viðgangast? Er ekki kominn tími til að mótmæla við danska sendiráðið? Það eru þegar uppi umræður um slík mótmæli víða í Evrópu.

http://www.skrivunder.net/signatures/stop_deportation_of/
 


þriðjudagur, ágúst 14, 2012

14. ágúst 2012 - Sjóferðabækur og réttindi sjómanna


Ég er ekki sátt við stöðu íslenskra sjómanna í alþjóðlegu samhengi og þá helst íslenskra yfirmanna á skipum. Það er reyndar ekki nýtt og á sér gamlar ástæður.

Haustið 1976 hafði Svavar Guðmundsson samband við stjórn Skólafélags Vélskóla Íslands og bar sig illa undan þeirri staðreynd að hann sem fullmenntaður vélstjóri með öll réttindi frá Vélskóla Íslands hefði engin réttindi til vélstjórnar á hinum Norðurlöndunum.  Hann sigldi á þessum tíma hjá sænska skipafélaginu Broström Line á undanþágu sem vélstjóri á skipum félagsins þar sem íslensk réttindi hans voru einskins metin í Svíþjóð. Við unga og ákafa fólkið í stjórn skólafélagsins hófum að kanna málið og þetta reyndist rétt. Við höfðum engin réttindi erlendis og íslenskt vélstjóraskírteini gilti einungis á íslenskum skipum, hvergi annarsstaðar. Við könnuðum ástæður þessa og í ljós kom að til var samnorrænn samningur um gagnkvæm atvinnuréttindi sjómanna og Íslendingar voru ekki aðilar að þessum samningi. Við nánari athugun kom í ljós að opinberar ástæður þessa voru að íslensk yfirvöld óttuðust að norrænir sjómenn kæmu til Íslands í stórum stíl og tækju störfin frá íslenskum sjómönnum. Um leið var þetta gagnkvæmt, við fengum engin réttindi á Norðurlöndunum og vorum því bundin íslensku vistarbandi með réttindi sem voru einskis nýt utan landsteinanna.

Stundum hvarflaði að mér sú hugsun að ástæður þess að Íslendingar hefðu ekki samþykkt samninginn væri ekki ótti við að útlendingar sæktu hingað heim til starfa, heldur fremur ótti LÍÚ og Sambands íslenskra kaupskipaútgerða við að íslenskir yfirmenn á skipum hyrfu af landi brott og að ekki fengjust menn til starfa á íslenskum skipum í framhaldinu.

Hvað um það, ég var ekkert ginkeypt fyrir störfum erlendis á þessum tíma, var með fjölskyldu á Íslandi og sátt við að vera á Íslandi, en það átti eftir að breytast. Mörgum árum síðar flutti ég til Svíþjóðar og með mína menntun var vel tekið á móti mér í landi í Svíþjóð og ég fékk vinnu við hæfi og ekkert við það að sakast og ég held að orkuverið þar sem ég starfaði hafi fengið að njóta starfskrafta minna á jákvæðan hátt, en það er önnur saga. Ég kannaði stöðuna á sjó, og þar sem ég var ekki með alþjóðlegt vélstjóraskírteini, einungis íslenskt, var ég réttindalaus á sjó.

 Íslendingar hafa neyðst til að veita vélstjórum alþjóðleg réttindi svokölluð STCW skírteini, ekki síst vegna þess að öll íslensk farskip eru skráð erlendis og þegar lent er í eftirliti í höfnum erlendis eru séríslensku réttindin einskis virði. Án alþjóðlega skírteinisins hafa Íslendingar ekki einu sinni réttindi á flóabátinn Baldur, hvað þá Herjólf eða þessi fáu skip sem enn sigla með íslenskum áhöfnum og alls ekki erlendis.

Íslensk yfirvöld hafa hingað til hlustað á LÍÚ og eru því ekkert að flýta sér að uppfylla þær reglur sem þurfa að gilda á alþjóðsviði, þar á meðal um sjóferðabækur. Íslensku sjóferðabækurnar eru einskis virði, auðveldar í fölsun og enginn tekur mark á þeim lengur á Íslandi. Þetta er hvort eð er allt orðið tölvuskráð.

Gamanið fer að kárna þegar Íslendingar ráða sig á erlend skip sem sigla um höfin sjö. Víða er tölvueign takmörkuð sem og notkun þeirra og ekki tekið mark á neinu öðru en löggiltum sjóferðabókum sem eru mjög áþekkar vegabréfum með öllum þeim öryggiskröfum sem fylgja slíkum pappírum. Innan Siglingaráðs hefur Hilmar Snorrason hjá Slysavarnarskóla sjómanna margítrekað kröfuna um að úr þessu verði bætt og hefi ég reynt að taka undir með honum hjáróma röddu, en hjá Innanríkisráðuneyti segjast menn ekki hafa efni á að veita íslenskum sjómönnum frelsi frá vistarbandinu.

Sveiattan!

mánudagur, ágúst 13, 2012

13. ágúst 2012 - Á að rífa Hörpu?


Fyrir helgina sá Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi borgarstjóri ástæðu til að tjá sig um taprekstur tónlistarhússins Hörpu í fjölmiðlum og ef ég man rétt sagði hún að ekki kæmi til greina að reykvískir skattgreiðendur greiddu meira með Hörpu en orðið er.  Þetta þótti mér gott að heyra enda var ég andvíg byggingu Hörpu frá upphafi er ráðist var í byggingu hennar á lóð Togaraafgreiðslunnar og ofan í Reykjavíkurhöfn.

Nokkru eftir að Ísland fór á hausinn haustið 2008 stöðvuðust framkvæmdirnar þegar félagið sem stóð að byggingu Hörpu fylgdi fyrirtækjum og bönkum og fór líka á hausinn. Að lokum gengu ríki og Reykjavíkurborg inn í framkvæmdirnar og héldu áfram að með bygginguna , enda ódýrara að halda áfram með hálfunnið verk en að rífa húsið þótt dýrt væri. Að lokum tókst að ljúka byggingunni og hún vígð með pompi og prakt. Þrátt fyrir andstöðu mína í upphafi taldi ég betra að sættast við húsið en að hatast við það um alla framtíð úr því það hafði risið ofan í höfninni.

Allir vita að svona hús mun aldrei bera sig á fyrsta ári og er ég efins um að það muni nokkurn tímann gera það. Það þarf hinsvegar að lágmarka kostnaðinn og auka tekjurnar. Það er hinsvegar ástæða til að spyrja Hönnu Birnu hvað hún vill gera til að koma í veg fyrir að Reykvíkingar haldi áfram að greiða með húsinu þegar ofangreindar aðstæður eru hafðar í huga. Vill hún loka húsinu? Við vitum að hús sem stendur lokað safnar skuldum án þess að nokkrar tekjur koma á móti. Það þarf að greiða aðstöðugjöld, rafmagn og hita, vaktir með húsinu og lágmarks viðhald.

Það má líka fara hina leiðina sem er sú að rífa húsið.  Það kostar hellingspening. Vill Hanna Birna virkilega fara þá leið eða var þetta bara inngangur að áróðursham Hönnu Birnu fyrir næsta formannskjör í Sjálfstæðisflokknum?     

sunnudagur, ágúst 12, 2012

12. ágúst 2012 - Fordómar?

Mér finnst ómögulegt að skilja við hinsegin vikuna og hoppa skyndilega yfir í önnur mál án þess að enda hinsegin umræðuna, ekki síst nú þegar hómófóbíska liðið fer að streyma til Reykjavíkur með hjólhúsin sín í eftirdragi í þeirri von að Gay Pride sé lokið. Ég var nefnilega einu sinni þátttakandi í hómófóbíunni.  Þótt ég hafi fengið mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 á dögunum á ég mér fortíð sem er reyndar býsna lík margra annarra sem voru í skápnum og eru kannski enn.

Í tilraunum mínum til að fela eigin tilfinningar gekk ég fram fyrir skjöldu og úthúðaði samkynhneigðum. Ég þekkti engan samkynhneigðan, var vélstjóri á farskipum og togurum og notaði hvert tækifæri til að úthúða fólki sem ég hafði samúð með. Ég gekk aldrei svo langt að úthúða hommum beint, en ég var ekkert betri en skipsfélagarnir þegar umræður áttu sér stað í borðsalnum.

Ég kom inn á krá í Genúa á Ítalíu sem reyndist vera afkimi fyrir transkonur. Skipsfélagi minn byrjaði á að hæðast að dömunum en ég þurfti að spyrjast margs sem ég þorði ekki og forðaði mér af þessum „hræðilega“ stað með þúsund spurningar í kollinum sem aldrei var svarað af því að ég þorði ekki að spyrja. Ég læddist inn á skemmtistað í Cuxhaven og ræddi aðeins við dömurnar sem allar voru enn með typpin sem lýti á líkamanum og lifðu af því að taka þátt í trönsusýningum, en rétt eins og áður varð ég að hætta spjallinu við dömurnar og gerast gagnkynhneigður karlmaður þegar skipsfélagarnir komu á staðinn. Löngu síðar læddist ég inn á transkrárnar við Simon-Von-Utrechtstrasse í Hamborg og naut samskiptanna við hinar transkonurnar þegar skipsfélagarnir sáu ekki til.

Á Íslandi var enn allt við það sama. Á síðari hluta áttunda áratugarins átti ég einungis ein hjón utan eiginkonu sem ég gat tjáð mig við og það voru fordómalausir baráttufélagar mínir í pólitík, Páll og Ingibjörg, foreldrar Stefáns Pálssonar sagnfræðings. Að öðru leyti var algjört tóm í þessum málum og ég faldi mig opinberlega á bakvið fordóma og háðsyrði í garð hinsegin fólks.

Það varð breyting með stofnun Samtakanna 78. Þótt ég hafi haldið áfram að hæðast að Samtökunum fyrstu árin eftir stofnun þeirra breyttist það snarlega fáeinum árum síðar. Daginn sem ég hætti á Vestmannaey VE 54 kallaði Kristinn Pálsson útgerðarmaður mig á sinn fund og við áttum gott samtal um fólk og um samkynhneigð. Hann var eldri gagnkynhneigður karl, en fordómalaus  eða eins og hann sagði við mig eftir að hafa heyrt sögusagnir um kynvitund mína eða kynhneigð. Daginn sem þú hefur fundið það sem þú leitar að ertu velkominn aftur til Eyja og fyrr ef þú vilt. Þú átt heima hér.

Mér er alveg sama hvað sagt er um Magnús Kristinsson eða um aðra í fjölskyldu Kristins Pálssonar eða starfsmenn útgerðarinnar, þau verða samt vinir í hjarta til æviloka.

Ég er löngu komin úr skápnum og um leið hætt að vera með fordóma gegn mínu fólki. Ég á samt fullt eftir af fordómum, en þeir snúast samt ekki að hinsegin fólki né að lituðum eða fólki sem býr við ólíka menningu.

Takk til allra sem samfögnuðu með mér er ég fékk mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78.


laugardagur, ágúst 11, 2012

11. ágúst 2012 - Baráttan og gleðinUm huga minn fara gamlar göngur, ekki göngur hinsegin fólks, fremur kröfugöngur íslenskrar alþýðu á 1. maí. Fyrir göngu fulltrúaráðs verkalýðsfélaga var lúðrasveit, síðan fánar hinna ýmsu verkalýðsfélaga og allt var þetta kallað hátíðarganga. Aftan við þessar göngu gengu aðrar göngur, göngur vinstrihópanna sem vildu lítið með samvinnuna við stóreignamenn hafa og öskruðu hástöfum Stétt gegn stétt eða 1. maí baráttudagur, allir dagar baráttudagar! Svo skreið maður upp á einhvern vörubílspall og hélt ræðu, úthúðaði auðvaldinu og spilltri verkalýðshreyfingu og svo var baráttunni lokið það árið og allir fóru heim að undirbúa næstu mótmæli.

40 árum (eða voru það kannski 38 ár) eftir mína fyrstu kröfugöngu á 1. maí tók ég þátt í gleðigöngu í Malmö. Til samans með nokkrum sænskum og hollenskum baráttujöxlum um réttarstöðu transfólks stilltum við okkur fremst í gönguna og létum illa. Þetta var skemmtileg kröfuganga. Fólkið fyrir aftan okkur var í gleðigöngu, ekki við sem gerðum okkur grein fyrir þörf á lagalegum úrbótum fyrir transfólk í Svíþjóð samhliða réttarbótum um allan heim.

Fyrstu árin sem gleðigangan fór fram í Reykjavík tók ég ekki þátt. Ég var ekki viss um hvort ég væri velkomin í gönguna. Ég átti jafnvel til að ganga í hina áttina til að missa ekki af neinu af gangstéttinni á Laugaveginum, kannski á leið til vinnu, en það var samt alltaf gaman að fylgjast með þótt gleðigangan væri ekkert úrslitaatriði fyrir sálarheill mína. Einu sinni gekk ég niður allan Laugaveginn við hliðina á Herði frænda mínum Torfasyni sem var heiðursgestur það árið og það var úrhellisrigning alla leiðina, fyrsta og eina skiptið sem ég minnist þess að það hafi rignt í gleðigöngu. Árið 2007 tók ég þátt í hópi Amnestyfélaga og við slógum í gegn með kröftugum athugasemdum um slæma réttarstöðu hinsegin fólks um heim allan.  Árið 2011 var ég með skilti sem minnti okkur á framtíðina, fengjum við lagaleg réttindi árið 2012? Kannski sló ég aftur í gegn það árið?

Ég er löngu orðin sátt við gleðigönguna. Við fáum að vera hinsegin í heila viku áður en við hverfum aftur inn í gömlu gagnkynhneigðu veröldina og verðum þar næstu 358 dagana. Því miður er það svo að gömlu gagnkynhneigðu gildin eru enn við lýði, hvítu miðaldra karlarnir fara bara norður á Dalvík á fiskidaga til að sleppa við gleðidagana í Reykjavík og skila sér svo aftur suður þegar Reykjavík hættir að vera hinsegin.

Nú kann einhver að mótmæla mér og halda því fram að ég sé að fara með fleipur. Íslendingar eru orðnir svo fordómalausir. Kannski,
  en ég þekki fleiri eldri hvíta karlmenn sem fara á fiskidaga með hjólhús í eftirdragi til að sleppa við gleðidaga í Reykjavík, þá hina sömu sem tala gjarnan um samkynhneigða karla sem saurbæinga og þykjast svo vera fordómalausir.

Baráttunni er ekki lokið!
   föstudagur, ágúst 10, 2012

10. ágúst 2012 - Af hverju veita Morgunblaðinu viðurkenningu?

Föstudaginn 10. ágúst 2012 geysast tveir aðilar fram á ritvöll DV, bæði miklir baráttufélagar mínir í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Þau telja bæði að Morgunblaðið sjónvarp hafi ekki átt skilið að fá mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 og ég skil þau að miklu leyti en er samt ósammála þeim að einhverju leyti þótt ekki vilji ég ganga út og mótmæla þeim.

Ég kann ekki alla sögu Samtakanna 78 og er því vart dómbær á hverjir sýndu fordóma fyrr á árum og hverjir hunsuðu hverja. Ég man þó að fyrsta greinin sem ég sá og var til stuðnings baráttu samkynhneigðra var frá árinu 1977 er Fylkingin, baráttusamtök kommúnista birti grein í málgagni sínu Neistanum til stuðnings baráttu homosexual fólks og var greinin undirrituð af Pétri Tyrfingssyni, síðar sálfræðing og meðferðarfulltrúa. Ég skal ekki fullyrða hvort Rauðsokkahreyfingin hafi verið eitthvað fyrr á ferðinni með stuðning sinn. Þetta var held ég sama ár og Baldur þáverandi ritstjóri Orðabókar Háskólans kom fyrst fram með orðið samkynhneigð til notkunar í Þjóðleikhúsinu og síðan Þjóðviljanum.

Ég kom fyrst á samkomu hjá Samtökunum 78 árið 1984, nýlega fráskilin og þegar búin að lenda í fyrsta skipbrotinu í samskiptum við heilbrigðiskerfið vegna tilfinninga minna. Samtökin voru þá til húsa við Skólavörðustíg en voru einnig í Brautarholti um svipað leyti, voru í sífelldu húsnæðishraki á þessum árum og illa liðin af flestum. Einhverju sinni voru þau í húsnæðishraki sem oftar  og eftir því sem sagan segir mér, leysti þáverandi oddviti meirihlutans í borgarstjórn, maður að nafni Davíð Oddsson, úr húsnæðisvandræðunum með því að lána Samtökunum 78 húsið við Lindargötu sem varð síðan aðsetur Samtakanna 78 í nærri einn og hálfan áratug til aldamóta er þau fluttu yfir á Laugaveg 3 þar sem þau eru enn. Einhver hvíslaði því að mér að þetta hefði Davíð gert í andstöðu við suma flokksfélaga sína.

Einhverntímann heyrði ég að tillaga hafi komið um veitingu viðurkenningar til handa Davíð Oddssyni fyrir stuðning hans við Samtökin 78 á þeim tíma þótt ekki hafi orðið úr slíku.

Þættir þeir sem hafa birst fyrrihluta ársins 2012 um baráttu samkynhneigðra og síðar einnig transfólks voru góðir og eiga skilið að fá viðurkenningu. Þessir þættir eru gerðir eftir að Davíð Oddsson varð ritstjóri Morgunblaðsins og því er sennilegt að hann sé einnig ábyrgðarmaður þáttanna þótt hann hafi vafalaust lítið með þá að gera.

Ég get ekki séð að það eigi að mismuna stuðningsfólki hinsegin fólks eftir pólitískum skoðunum eða eftir eignarhaldi fjölmiðla þeirra því þá værum við í vondum málum.

Mannréttindi eiga að vera ofar pólitísku dægurþrasi .

10. ágúst 2012 - Á að taka barnabörnin með?

Ég hefi verið gagnrýnd fyrir að virkja börn og barnabörn í þágu mannréttinda, að tala um þau eins og að þau séu hluti af þeirri baráttu sem ég hefi verið að vinna fyrir. Þó að sú mannréttindabarátta sem ég hefi unnið að hafi fyrst og fremst verið barátta hinsegin fólks, hefi ég unnið lengi að ýmsum mannréttindamálum, á Íslandi fyrst og fremst innan Amnesty International, en hefi einnig tekið virkan þátt í IGLHRC, alþjóðlegu netverki hinsegin fólks.

Þegar Amnesty International hélt upp á hálfrar aldar afmælið bauð ég sonardóttur minni að taka þátt með mér. Hún var þá tólf ára. Ég veit ekki til að mannréttindi hafi spillt henni á nokkurn hátt. Sumarrós býr við þá sérstöðu að hún er einasta barnabarnið sem býr ekki með báðum foreldrum samtímis. Hin fimm barnabörnin búa öll með báðum foreldrum sínum. Slíkt búendaform krefst þess af öfum og ömmum að lögð sé sérstök rækt við þessi barnabörn sem búa ekki með báðum foreldrum.

Ég viðurkenni alveg að ég hefi trassað uppeldi barna minna, en ég get leyft mér að sýna barnabörnunum þá virðingu sem þau eiga skilið. Þessvegna reyndi ég að sýna Sumarrós þessa virðingu þegar Amnesty hélt upp á fimmtíu ára afmælið og það kom einungis ein manneskja til greina mér til aðstoðar er mér bauðst að taka við mannréttindaverðlaunum Samtakanna 78 árið 2012.

Þegar ég var kölluð fram í salinn gekk Sumarrós sonardóttir mín fram á sviðið og ég fylgdi í humátt á eftir. Það var yndislegt að horfa á þúsund manns í Háskólabíó standa upp og klappa fyrir Sumarrós og kannski pínulítið mér. Ég vona að þessi yndislega uppákoma hafi sýnt Sumarrós þá samstöðu og kraft sem barátta fyrir jafnan rétt allra og almennum mannréttindum geti fært okkur öllum.

Ég var allavega stolt af þrettán ára barnabarni mínu sem stóð sig sem hetja á opnunarkvöldi hinsegin daga í Reykjavík árið 2012.

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

8. ágúst 2012 - Um "kynvillinga" fyrri ára

Ríkissjónvarpið sá ástæðu til að fjalla um samkynhneigð fyrri ára í fréttatímanum 8. ágúst í tilefni af Hinsegin dögum sem nú standa yfir í Reykjavík og mátti heyra sagt frá svokallaðri kynvillu níunda áratugarins í hálfgerðum hneykslistón.  Er það vel að hæðst sé að þessu úrelta orðfæri, ekki síst að afturhaldssemi Ríkisútvarpsins á þeim tíma er forráðamenn þess neituðu samkynhneigðum að nefna homma og lesbíur í auglýsingum um skemmtanir á vegum Samtakanna 78. Þetta var svo skemmtilega orðað að við lá að ég tæki mark á þessu bulli.

Innan við sólarhring áður bað einn starfsmaður Ríkisútvarpsins mig afsökunar á að hafa notað orð áþekkt kynvillu um transfólk í færslu sinni á Facebook um leið og hann eyddi færslunni og er það vel. Það var þó tveimur tímum eftir starfsfólk Ríkisútvarpsins hafði ákveðið að hætta að vera með fordóma í garð transfólks eftir ágæta heimildarmynd Ragnhildar Steinunnar um transkonu. Um leið eru fjölmörg dæmi á undanförnum árum um að starfsfólk Ríkisútvarpsins hafi notað þetta sama orð og önnur enn verri í þeim tilgangi að niðurlægja transfólk.  Eitt ljótasta dæmið var þegar dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins bar á söngkonu eina frá Ísrael að hún væri tæplega fertugur karlmaður í Evrópsku sönglagakeppninni 2011. Í verðlaunaskyni var hún send aftur út til að segja frá keppninni 2012. Ég fylgdist með keppninni í sænska sjónvarpinu til að sleppa bullinu hjá íslenska þulnum.

Ég hefi nokkrum sinnum lent í að þurfa að benda starfsfólki Ríkisútvarpsins á að um sé að ræða niðurlægingu er kynvilluorðskrípið kynskiptingur er notað um transfólk, en athugasemdum mínum hefur stundum verið illa tekið, jafnvel svo að starfsfólkið hefur lýst því yfir við mig að því þykir orðið ágætt og lýsi vel tilfinningum okkar. Þetta orðskrípi hefur læðst út í opinbera umræðu meðal annars inn í skýrslur Umboðsmanns Alþingis þar sem hann misskildi orðið kynáttunarvandi og notaði þess í stað orðið kynskiptihneigð. Þetta endurtók sig við samningu málefnasamnings núverandi ríkisstjórnar þar sem þurfti tvisvar að leiðrétta prófarkalesarann sem vildi endilega troða kynskiptingum inn í málefnasamninginn þar sem aðilar málsins voru ásáttir um notkun orðsins transfólk.

Fyrir okkur er ekkert grín þótt talað hafi verið um kynvillinga fyrir þrjátíu árum þegar við erum enn að berjast við fordóma í orðanotkun árið 2012. Fordómarnir eru enn við lýði.  Á Íslandi árið 2012 eru enn til dæmi þess að foreldrar afneiti börnum sínum fyrir að vera trans og síðasta dæmi þess að transfólki hafi verið misþyrmt líkamlega á Íslandi var árið 2012.

Baráttunni er ekki lokið!

laugardagur, ágúst 04, 2012

4. ágúst 2012 - Ragnar Michelsen blómsali

Það var haustið 1994 sem ég kynntist Ragnari Michelsen blómasala. Ég bjó þá í Svíþjóð en hafði komið til Íslands vegna viðtals við tímaritið Nýtt líf og notaði tækifærið í leiðinni og sinnti ýmsum baráttumálum transfólks í leiðinni. Meðan á dvölinni stóð hafði systursonur minn samband við mig og færði mér ósk frá Ragnari Michelsen nágranna sínum að hann vildi hitta mig. Þar sem svo skammt var eftir af dvöl minni á Íslandi bað Ragnar mig að hitta sig á hárgreiðslustofu Guðlaugs vinar síns í Kirkjuhvoli þar sem Ragnar þurfti að sinna blómaskeytingum við útför frá Dómkirkjunni sama dag.

Ég kom til Guðlaugs sem virtist ekkert vilja við mig tala en Ragnar kom fljótlega og áttum við gott samtal þar sem Ragnar var í hópi ráðgjafa Samtakanna 78 og hafði hann nokkrum sinnum fengið samtöl frá transfólki í felum og vildi greiða götu þeirra.

Þetta samtal okkar Ragnars átti síðar eftir að draga dilk á eftir sér þar sem Guðlaugur var alls ekki ánægður með að Ragnar skyldi velja stofuna hans til að mæla sér mót við mig og olli það hálfgerðum vinslitum þeirra á millum auk þess sem Guðlaugur notaði tækifærið og úthellti reiði sinni gagnvart Samtökunum 78 og okkur Ragnari í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 við Eirík Jónsson fréttamann nokkru síðar. Um leið varð þetta upphafið að góðri vináttu okkar Ragnars.

Sumarið 1996 flutti ég til Íslands eftir áralanga dvöl í Svíþjóð og svo hittist á að íbúð systursonar míns í Krummahólum  6 var samtímis laus til leigu og því fékk ég hana leigða um leið og ég flutti heim. Þar með hitti ég Ragnar Michelsen nánast daglega næstu árin, bjó í Krummahólum 6 í átta ár, fyrstu árin á þriðju hæð en færði mig síðar upp á sömu hæð og Ragnar þar sem ég hélt áfram að leigja næstu árin. Við Ragnar áttum oft langar og miklar samræður um samkynhneigð og transgender, Hveragerði og fjölskylduhöfnun því Ragnar var einn af þeim fyrstu. Hann var ávallt hommi og var ekkert að fela það, en samtímis var hann ekkert að auglýsa kynhneigð sína. Hann sagði mér margar sögur af því er sumir ættingjar hans höfnuðu honum sem persónu vegna kynhneigðar hans. Ekki vil ég þó játa að við höfum grátið örlög okkar í kór því Ragnar var ekki einn af þeim sem bera syndir ættingjanna á öxlum sér og gerði því frekar grín að fordómunum þótt vafalaust hafi þeir og höfnun sumra ættingja haft áhrif á hann og tilfinningar hans.

Á tíunda áratugnum voru Samtökin 78 orðin áhrifamáttur. Fjöldi fólks kom út úr skápnum og reynsluboltinn Ragnar Michelsen með viðurnefnið Fleur var boðinn og búinn að leiðbeina ungu samkynhneigðu fólki sem var að stíga sín fyrstu titrandi skref út úr skápnum, sá gjarnan um símatíma Samtakanna 78 og eyddi mörgum kvöldunum við að ræða við ungt og eldra fólk sem hafði aldrei þorað að taka skrefið stóra.

En Ragnar var ekki bara Hommi með stórum staf. Hann var kristinn og kirkjunnar þjónn, annaðist útfarir af natni blómaskreytingamannsins og hann var líksnyrtir, lagaði illa farna líkama látins fólks sem farist hafði af slysförum svo það gæti mætt í eigin útför með virðingu, verkefni sem verður mörgum ofviða. Að auki var hann lengi í stjórn húsfélagsins  í Krummahólum 6, lengi formaður og síðastliðið vor var hann ákveðinn í að hætta og hlakkaði til. Vegna veikinda sinna hafði hann selt verslunarrekstur sinn í Hólagarði nokkrum árum áður og var hættur að sinna stuðningi við samkynhneigða sem voru að koma úr skápnum. Ég hafði flutt úr Hólahverfinu nokkrum árum áður, en átti það til að banka upp á hjá Ragnari ef ég átti erindi í gömlu blokkina mína og ef ég þurfti að fá góð ráð varðandi húsfélagsrekstur var Ragnar ávallt reiðubúinn að leiðbeina mér.

Ég missti af útför Ragnars. Baráttumanneskja í hinsegin málefnum kom til Íslands  nokkrum dögum eftir andlát Ragnars og átti tíma minn allan. Fyrir bragðið var ég austur í sveitum með sænska vinkonu mína á sama tíma og Ragnar Michelsen var borinn til grafar. Það breytir ekki því að Ragnar var góður vinur minn og einn sá heilsteyptasti persónuleiki sem ég hefi kynnst um dagana. Ég held að hann hafi fyrirgefið mér fjarveru mína frá útförinni þar sem hann var búinn að finna sér stað næst almættinu.

Ragnars Michelsen verður ávallt með hlýleika og virðingu.