föstudagur, ágúst 17, 2012

17. ágúst 2012 - Fernanda Milan, baráttusaga transkonu


Fernanda Milan er einungis 22 ára gömul fædd í Guatemala í Mið-Ameríku. Hún hefur samt þurft að ganga í gegnum slíka baráttu að slíkt þætti fullmikið á heilli ævi einnar manneskju.

Guatemala er meðal afturhaldssamari ríkjum Ameríku. Þar ríkja ströng kaþólsk viðhorf í samskiptum kynjanna og allt það sem víkur frá sambandi karls og konu er harðlega fordæmt, þar á meðal allir tilburðir til leiðréttinga á kyni og kynvitund. Morð á transfólki þar í landi eru algeng og lítið gert til að upplýsa þessa glæpi. Fórnarlömbin eru að auki iðulega jarðsett án nafns þar sem ættingjarnir veigra sér við að bera kennsl á myrt fórnarlömbin. Við þessar aðstæður ólst Fernanda Milan upp.

Hún var 14 ára er hún var rekin að heiman, útskúfuð frá fjölskyldu sinni vegna þrár sinnar að fá að lifa sem kona og lenti á götunni í landi þar sem fólkið býr við lítið sem ekkert félagslegt öryggi og alls ekkert fyrir hinsegin fólk. Hún hélt uppi vörnum fyrir aðrar transkonur auk sjálfrar sín og varð iðulega fyrir ofsóknum yfirvalda vegna þessa. Fleiri vinir hennar voru myrtir án ástæðu og að lokum gafst hún upp og flúði land og komst til Danmerkur.

Þar tók ekki betra við því sem flóttamaður var hún lokuð inni í flottamannabúðum fyrir karla enda stóð í vegabréfi hennar að hún væri lagalegur karl. Í flóttamannabúðunum í Sandholm var henni ítrekað nauðgað og henni misþyrmt á annan hátt. Yfirmaður flóttamannabúðanna, starfsmaður danska Rauða krossins að nafni Anna La Cour, var harðlega gagnrýnd fyrir þessa málsmeðferð en svar hennar er einfalt: Við hleypum ekki „körlum“ inn á kvennahluta flóttamannabúðanna. Að sögn sýndi hún engan skilning á þörfum eða tilfinningum transfólks og má velta því fyrir sér hversu stoltur danski Rauði krossinn er af slíku starfsfólki?

Danmörk er fyrsta landið þar sem líkamlegar aðgerðir til leiðréttingar á kyni voru framkvæmdar eftir seinni heimsstyrjöld. Með árunum varð Danmörk mjög íhaldssöm og þar er unnið í dag eftir löngu úreltum lögum um vananir þegar slíkar aðgerðir eru framkvæmdar, en öll málsmeðferð er slík að Danmörk stendur nú að baki öðrum Norðurlöndum í meðferð fólks með kynáttunarvanda og langt að baki mörgum Evrópuþjóðum.

Hegðun Önnu La Cour er dæmigerð um slíka fyrirlitningu gegn transfólki sem sýnir sig í máli Fernöndu Milan. Fernöndu hefur þegar verið tilkynnt að hún verði rekin úr landi í Danmörku og send heim 17. september  næstkomandi  þar sem nauðganir, pyntingar og dauði bíða hennar.

Eigum við að láta þetta viðgangast? Er ekki kominn tími til að mótmæla við danska sendiráðið? Það eru þegar uppi umræður um slík mótmæli víða í Evrópu.

http://www.skrivunder.net/signatures/stop_deportation_of/
 0 ummæli:Skrifa ummæli